Hjólaferð um Mósel, 1. kafli

Sunnudaginn 24. Júní síðastliðinn komum við hjónin til bæjarins Daun í héraðinu Eifel norður af Móseldalnum í Þýskalandi. Tilgangurinn var sá að hjóla frá Daun niður að Móselánni og þaðan meðfram henni niður að borginni Cochem. Þetta var fimmta hjólaferðin mín í Þýskalandi. Að þessu sinni sá ferðaskrifstofan Moseleifel  um skipulag ferðarinnar. Við skrifuðum þeim með góðum fyrirvara, sögðum á hvaða slóðum við vildum hjóla, hversu lengi og hversu langt á að giska á degi hverjum.  Starfsfólk ferðaskrifstofunnar kom með tillögu að hjólaferð og þegar við höfðum náð sáttum um hana pöntuðu þeir gistingu og útveguðu okkur hjól. Ennfremur skipulagði skrifstofan flutning á farangri okkar milli gististaða. Verðið á ferðinni, fimm nátta gisting í tveggja manna herbergjum með sturtu, salerni og morgunverði, flutningur á farangri á milli gististaða og hjól var 446 evrur fyrir okkur hjónin eða 223 evrur á mann. Auk þess var eitt vínsmökkunarkvöld hjá vínbónda innifalið í verðinu, ein grillveisla á sama stað og flutningur á hjólunum frá Cochem aftur til Daun.

Það er dásamlegt að ferðast um Þýskaland á hjólum. Þjóðverjar eru komnir langt í að þróa þessa tegund ferðamennsku. Um landið liggur orðið þéttriðið net fjölbreytilegra hjólaleiða og þar er boðið upp á ýmsa þjónustu. Hjólavegirnir eru yfirleitt malbikaðir og aðeins ætlaðir hjólandi vegfarendum. Sá sem hjólar hefur ágæta yfirferð en er samt í góðum tengslum við umhverfið, finnur ilminn af ökrunum og heyrir söng fuglanna. Lítið mál er að stoppa á áhugaverðum stöðum og skemmtilegum þorpum sem nóg er af í Þýskalandi. Okkar reynsla er sú að hæfilegt sé að hjóla um það bil 40 km á dag. Það er nógu mikið til að maður finni örlítið fyrir því og reyni á sig án þess að maður verði örþreyttur. Ég er meira en tilbúinn að gefa frekari upplýsingar um svona ferðir og svara spurningum.

PICT0088

Í Daun. Miðbærinn er á hólnum en brúin liggur þaðan yfir á aflagða brautarstöðina. Við ætluðum að byrja á því að hjóla svokalla Maare-Mosel leið  sem liggur frá Daun í Eifel til Bernkastel-Kues við Mósel, samtals 55 km. Vegurinn var einu sinni leið járnbrauta. Þar sem eitt sinn voru teinar er nú malbik og leiðin liggur um nokkur jarðgöng og yfir gamaldags járnbrautabrýr (viaduct, sjá hér).

PICT0090

Bryndís og maðurinn sem leigði okkur hjólin í Daun.

PICT0093

Þýskir vinir okkar, Annette og Ortwin Pfläging, hjóluðu með okkur og komu akandi til Daun frá sinni heimaborg, Bochum. Hér eru þau mætt á járnbrautastöðina og gera sig klár til brottfarar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband