Hjólaferð um Mósel, 4. kafli

Fyrsti gististaðurinn okkar var í borginni Wittlich en síðan héldum við áfram leið okkar niður í Móseldalinn. Síðasta spölinn þangað hjóluðum við á bökkum árinnar Lieser. Þess má geta að bæði Lieser og Mósel eru kvenkyns eins og aðrar ár og fljót á þýskri tungu. Undantekningin sem sannar regluna er sjálft Rínarfljótið sem er karlkyns. Einhvers staðar las ég að heitið Rín væri skylt sögninni að renna.

PICT0131

Skyndilega birtist okkur Móseláin en við komum niður í dal hennar á móti bænum Mühlheim.

 PICT0137

Þegar við höfðum hjólað aðeins niður með ánni sáum við inn til bæjanna Kues (okkar megin) og Bernkastel sem nú eru runnir saman í eitt. Bernkastel er m. a. frægt fyrir vínekru sem Doctor nefnist og mun ein sú dýrasta í veröld víðri. Þaðan koma einhver bestu Riesling-vín sem um getur. Bærinn Kues er á hinn bóginn þekktur vegna guðfræðingsins, heimspekingsins, stjarnfræðingsins, lögfræðingsins, stærðfræðingsins og uppfinningamannsins Nikulásar Kusanusar. Sá maður var hreinn snillingur og er mikið safn tileinkað honum í Kues sem okkur gafst því miður ekki tími til að skoða.

PICT0143

Þótt ekki gæfist tími til að skoða safn Nikulásar Kusanusar var ekki annað hægt en að sötra eitt hvítvínsglas undir hlíðum hinnar víðfrægu Doctor vínekru. Bryndís mín fékk sér sætt, ég hálfþurrt en Þjóðverjarnir sem með okkur voru fannst best að svala sér á þurru. Þarna er ég langt kominn með minn skerf sem drukkinn var úr ekta Móselvínstaupi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg ferðasaga og myndirnar lífga upp á frásöguna. Hvað ertu að hjóla langt á dag?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.7.2012 kl. 23:05

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir það, Rafn. Ég er reyndar kominn heim fyrir nokkru en við hjóluðum þetta 30 - 50 km á dag.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.7.2012 kl. 00:12

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Heill og sæll Svavar,

Bernkastel-Kues er að mínu mati einn fallegasti staðurinn hér við Mósel. Ég er of latur til að hjóla meðfram ánni en það er fátt meira afslappandi en að dóla á ferjunni frá Remich upp með ánni og njóta útsýnisins og Rieslingsins.

Bestu kveðjur frá Perl/Schengen.

Róbert Björnsson, 11.7.2012 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband