Hjólaferð um Mósel, 6. kafli

Engin vanþörf er á að nota tvo kafla í að lýsa heimsókninni til þeirra sómahjónanna Ingiríðar og Bertholds Oster, slíkar voru móttökurnar. Þau voru hápunktur ferðarinnar. Ingiríður hefur mikinn hug á að ferðast til Íslands en vegna anna við vínrækt og móttöku ferðamanna getur hún ekki brugðið sér af bæ nema yfir vetrartímann. Ég sagði henni að Ísland væri líka fallegt í snjó og frosti en við hjónin værum alveg til í að passa heimagistinguna og vínekruna fyrir þau einhverjar sumarvikur ef þau vildu.

PICT0179

Þegar Berthold hafði sýnt okkur vínræktina í hlíðunum ofan við Ürzig fór hann með okkur á annan stað. Þar var kryddjurtagarður bæjarins, til afnota fyrir veitingastaðina. Hér er hann staddur í garðinum. Stuttu áður hafði hann bent mér á að strjúka flötum lófa eftir einhverjum plöntum og þefa síðan af honum. Ég gerði það og komst í áramótaskap því plönturnar reyndust vera salvía sem er ómissandi á gamlárskvöldskalkúnann. Berthold sagði okkur að á svona kvöldum væri gott að setjast niður á bekk í angan garðsins með góða bók og eðalvín í glasi.

PICT0182

Á myndinn hér fyrir ofan eru hjólagarparnir Ortwin Pfläging, Bryndís Björnsdóttir, Svavar Alfreð Jónsson og Annette Pfläging (talið frá vinstri). Við erum í kryddjurtagarðinum og Berthold bóndi tók myndina af okkur. Eftir skoðunarferðina með honum fórum við heim til hans og þar var Ingiríður húsfreyja búin að grilla fyrir okkur heil ósköp af kræsingum. Berthold bóndi bar hróðugur í okkur afurðir sínar og gaf okkur að smakka. Hann var fullur eftirvæntingar að sjá hvernig okkur líkaði og hróðugur mjög af framleiðlsunni enda gat hann alveg verið það. Vænst þótti okkur samt um að þau hjónin skyldu gefa sér tíma til að sitja úti á verönd með okkur fram undir miðnætti og spjalla  um heima og geima.

PICT0184

Vel fer á því að enda þennan kafla með því að líta úr kryddjurtagarðinum niður með Móselánni en þangað lá fyrir að hjóla að morgni þegar við höfðum vaknað og snætt árbít hjá hinum elskulegu Oster-hjónum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband