1.8.2012 | 23:16
Peningasaga
Rætur peninganna eru þrennskonar: Í fyrsta lagi þær efnislegu, jarðnæði, korn, búfénaður eða málmar. Í öðru lagi yfirvöld eða samfélag sem innleiðir peninginn og ábyrgist virði hans. Í þriðja lagi eru peningar af trúarlegum toga, í fórninni, þar sem komið var með fórnargjafir handa guðunum í helgidóminn.
Eitt sinn voru flestir gjaldmiðlar á svonefndum gullfæti en þá voru þeir tryggðir með gullforða. Á sjöunda áratug síðustu aldar var endanlega búið að kippa gullfætinum undan flestum myntum heimsins. Þá runnu upp tímar fjármálamarkaðakapítalismans. Í þeirri tegund kapítalisma urðu fjármálastofnanir, hlutabréfamarkaðir, fjárfestingasjóðir og matsfyritæki helstu áhrifavaldar efnahagslífsins með þeirri afleiðingu, að það fjármagn sem nú streymir um heiminn, er aðeins að hluta til grundvallað á raunverulegum verðmætum.
Verðmæti gullsins á sér trúarlegar skýringar. Í Babýlon reiknuðu menn út virði góðmálma með hliðsjón af helgum lögmálum. Gullið hafði á sér lit sólarinnar en silfrið mánans. Eftir að prestarnir höfðu skoðað gang himintunglanna ákváðu þeir að gull skyldi vera 13 og 1/3 dýrara en silfur. Sú regla var í gildi fram á miðaldir og að nokkru leyti fram undir okkar tíma. Verðmæti gullsins á sér því himneskan uppruna og gullfóturinn stendur að hluta í heimi trúarinnar.
Upphaflega voru peningar nátengdir hinni trúarlegu fórn. Peningurinn kom í stað fórnargjafarinnar. Í fórninni gafst þú hluta af þér sjálfum. Þú brenndir korni sem þú hefðir getað bakað úr brauð eða slátraðir dýri sem hefði nýst þér lifandi eða til fæðu. Hver fórn var ákveðin sjálfsfórn. Þannig hugsuðu menn peningana líka. Hver greiddur eyrir var fórn. Þar neitaðir þú þér um einhver ákveðin gæði og afhentir öðrum hluta af þér sjálfum. Í gamla daga var nautið einhver dýrasta fórn sem hægt var að færa. Nautið varð því tákn fórnarinnar.
Enn má sjá nautstáknið á helstu gjaldmiðlum heimsins. Strikin tvö í merkjum dollarans, jensins, pundsins og evrunnar, eru nautshorn. Þau minna á þá hugsun að hver peningur sé fórn, þar séu á ferðinni ákveðin gæði og verðmæti, sem fólk munar um.
Margt bendir til þess að peningar okkar tíma hafi aftengst öllum raunverulegum verðmætum. Þeirra er ekki aflað með fórnum, með því að gefa af sjálfum sér, tíma sínum, kröftum eða gæðum. Nú á dögum eignast menn peninga eftir öðrum leiðum. Þeir eru búnir til úr engu, eru samsafn af núllum" 1).
Undanfarin misseri höfum við Íslendingar orðið vitni að stórkostlegum skuldauppgjöfum. Líklega var megnið af þeim peningum aldrei til í rauninni heldur hluti af bóluhagkerfi. Menn ætluðu að verða ríkir á peningum sem aldrei voru til. Ætli sé ekki auðveldara að afskrifa þannig skuldir en skuldir sem til var stofnað vegna raunverulegra verðmæta?
Christina von Braun, prófessor í menningarvísindum við Humboldt Háskólann í Berlín, sendi nýlega frá sér sögu peninganna. Þessi stutta samantekt er byggð á viðtali við hana í þýska tímaritinu Der Spiegel (nr. 26 / 25. 6. 12 bls. 128 - 130) sem tekið var í tilefni af útkomu bókarinnar.
1) eine Anhäufung von Nullen" eins og von Braun orðar það í viðtalinu.
Myndin er tekin í friðlandi Svarfdæla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.