Þögnin um fátækt á Íslandi

DSC_0303 

Eins og bókaflóð bendir á nánd jóla er fartölvuflóðið fyrirboði þess að skólastarf sé að hefjast eftir sumarfrí.

Ekki fá öll börnin tölvur fyrir skólann en þurfa samt eitt og annað til að fara ekki í skólaköttinn, þar á meðal ritföng, bækur, skólatöskur og ný föt.

Alltof margar íslenskar fjölskyldur eiga mjög erfitt með að veita börnunum ofangreint. Sum þeirra verða að hefja skólagöngu sína án þess alls. Á mörgum heimilum eru heldur ekki peningar til að leyfa börnunum að taka þátt í tómstundastarfi.

Nýlega talaði ég við einstæða móður sem hafði ekki efni á bíómiðum handa börnunum sínum allan síðasta vetur. Hún sér fram á enn verra ástand á komandi vetri. Hún hefur ekki nema örfáa tugi þúsunda á mánuði til að framfleyta sér og þremur börnum. Þessi duglega og stolta kona safnar stundum flöskum og fer með í endurvinnsluna til að eiga fyrir mat.

Sumir hópar í þessu ríka landi búa við skammarleg kjör. Skrýtin þögn ríkir um aðstæður þessa fólks. Ein orsök þess er kannski sú, að fátækt fólk á Íslandi hefur gjarnan verið notað sem barefli í pólitískri umræðu. Menn hafa nýtt sér kröpp kjör þess til að koma höggi á stjórnvöld. Stjórnvöld vilja á hinn bóginn helst sem minnsta umræðu um fátækt í landinu því það er ekki góð auglýsing og allra síst þegar stutt er í kosningar.  

Þá er betra að kalla út talnaspekinga og áróðursmeistara sem telja landslýð trú um að allt sé í besta lagi. Þeir sem minna á ömurleg skilyrði lítilmagna eru sakaðir um neikvæðni og fjandskap við ríkisstjórnina.

Umræða sem ekki nær lengra og ekki ristir dýpra mun ekki breyta þessu ástandi.

Í gær heyrði ég í einstæðri  móður sem ekki á fyrir mat. Bankinn hennar neitaði henni um 10.000 króna yfirdrátt til að hún gæti skrimt fram að mánaðamótum.

Ég er sammála þeim sem bent hafa á siðleysi okurlána. Þó vantar inn í umræðuna, að slík starfsemi hefur ekki einungis peningagræðgi lánveitendanna að forsendu heldur einnig neyð þess sem grípur til öþrifaráða frekar en að horfa upp á börn sín svelta.

Í síðasta mánuði kom fram að frá Hruni hefði  Íslandsbanki afskrifað og leiðrétt skuldir hjá 18.200 einstaklingum og 3.000 fyrirtækjum, samtals um 370 milljarða króna. Ég þekki ekki upphæðirnar hjá hinum bönkunum en spyr:

Hvert hafa allar þessar afskriftir og leiðréttingar farið? Af hverju er sama þögnin um þær og ömurleg kjör alltof margra Íslendinga sem ekki geta einu sinni fengið 10.000 kall í yfirdrátt?

Myndin er tekin á Súlutindi og horft fram í Glerárdal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk elskulegur fyrir að benda á þetta. Ég hef verið atvinnulaus, meira og minna í 3 ár og á son. Hef farið í Mæðrastyrksnefnd og tekið smálán til að "merja" mánaðarmótin, en er ekki fýkill eða dópisti. ÉG hef 140.000kr á mánuði í bætur, sem atvinnulaus einstæð móðir og hef þraukað í 3 ár.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.8.2012 kl. 04:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband