27.8.2012 | 22:08
Málið eina
Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, um Ísland í Evrópu. Í sama blað skrifar Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, grein um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.
Í síðustu viku ritaði þingmaður Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, grein í Fréttablaðið um upptöku evru og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í sömu viku ritaði Árni Páll Árnason grein í sama blað um Ísland í Evrópu. Síðastliðin Fréttablaðsvika færði okkur ennfremur grein Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, um íslenska menningu og ESB auk greina Þórhildar Hagalín, ritstjóra Evrópuvefsins, um veiðar á lóu og spóa í Evrópusambandinu og stöðu íslenska refsins í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið .
Sé leitað lengra aftur í ágústmánuði í Fréttablaðinu má finna þar skrif Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins og eins samningamanns Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, um Ísland og ESB, Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um Ísland í Evrópu, Bolla Héðinssonar, hagfræðings og formanns Samtaka fjárfesta, um aðild Íslands að ESB, Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, um ESB aðild og öryggismál, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um aðildarumsókn Íslands að ESB, Þórhildar Hagalín, ritstjóra Evrópuvefsins, um ESB og innflutning lifandi dýra, tvær greinar í viðbót eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, um Ísland og ESB, enn eina eftir Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, um Ísland og ESB, og snotra grein Gunnars Alexanders Ólafssonar, starfsmanns velferðarráðuneytisins, um neytendur og aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Allar eiga þessar greinar það sammerkt að höfundar þeirra eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og að hafa birst í Fréttablaðinu í þessum mánuði.
Nú um helgina reit Egill Helgason bloggpistil um einsmálsfólk en þannig kallar hann þau sem halda að allt hverfist um þetta eina mál", aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þar er hann að vísu að meina þau sem eru andvíg aðild Íslands að ESB.
Líklega hefur Egill lesið þessa einu grein gegn aðild Íslands að ESB sem birtist í Fréttablaðinu á sama tímabili og allar ofangreindar.
Spuninn utan um aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu er ná metsnúningi. Fylgismenn þess keppast við að telja þjóðinni trú um að einungis sé verið að skoða í pakkann.
Ríkisstjórnin segist vera að endurreisa Ísland. Verkefni hennar er að leiða Ísland út úr einhverri verstu efnhagskreppu sem lýðveldið hefur lent í, vernda velferðarkerfið, slá skjaldborg um heimilin í landinu, auka jöfnuð og koma á meira réttlæti en áður tíðkaðist. Síðast en ekki síst ætlar ríkisstjórnin að forða þjóðinni frá því að vond öfl nái hér yfirhöndinni.
Drjúgur helmingur ríkisstjórnarinnar telur öll ofangreind verkefni þó ekki jafn mikilvæg og skoðunin" í pakka ESB og hótar því að fái menn ekki að halda henni áfram verði stjórnarsamstarfinu umsvifalaust slitið.
Þessi helmingur stjórnarinnar er með öðrum orðum tilbúinn að fórna öllum þeim brýnu verkefnum sem hann ætlaði að sinna fyrir þetta eina mál.
Þó er þar ekki nema um skoðun að ræða. Hún er mikilvægari en velferðarmálin, jöfnuðurinn, endurreisnin, skjaldborgin, heimilin og fólkið í landinu.
En talandi um einsmálsfólk, þá er því auðvitað ekki að neita að Eygló skrifaði grein.
Myndin er úr undurfögrum Héðinsfirði.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Svavar, þessi upptalning er mjög athyglisverð.
Tómas Ibsen Halldórsson, 28.8.2012 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.