Til hamingju, Akureyri!

Nóvember við Eyjafjörð (10)

Í merkisafmælum er gjarnan bankað með teskeið í staup og síðan stendur sá sem bankaði upp úr sæti sínu og ávarpar afmælisbarnið. Þá er vinsælt að segja sögur af því. Það ætla ég að gera fyrir Akureyri á 150 ára afmæli hennar.

Ég get að vísu ekki sagt sögur af henni ungri. Akureyri var orðin 100 ára þegar ég man eftir henni. Ein fyrsta minningin er þegar ég týndist nokkurra ára gamall. Þá átti ég heima í þeirri fallegu götu Byggðavegi á Brekkunni en amma mín í Norðurgötu niðri á Eyri. Ég var fyrsta barnabarnið hennar og hún  gat aldrei fulllaunað mér þann heiður sem ég sýndi henni með því að gera hana að ömmu. Emelía amma dekraði svo við mig að ég bíð þess sennilega aldrei bætur.

Einn góðan veðurdag ákvað ég að ganga til ömmu en var hirtur upp á Glerárgötunni af lögreglu bæjarins enda ekki ætlast til að litlir snáðar væru að spígspora einir um strætin. Varð fátt um svör þegar lögreglumenn hófu yfirheyrslur. Ég vissi ekkert hvert ég var að fara eða hvaðan ég kom og gat varla sagt til nafns. Það eina sem lögreglumennirnir náðu upp úr mér var að ég væri að fara til hennar ömmu minnar. Var mér stungið í lögreglubílinn og farið með mig beint á lögreglustöðina sem þá var látlaust hús í námunda við ráðhús bæjarins. Það lét svo lítið yfir sér að það hefði eiginlega átt að vera leynilögreglustöð.

Ég man að þar var mér sýnt inn í rammgerðan fangaklefa með sverum og grafalvarlegum slagbröndum. Sennilega var það þó ekki gert til að hræða mig eða liðka á mér málbeinið því löggurnar voru hinar elskulegustu við mig. Síðan þá hefur mér alltaf þótt vænt um lögregluna og óhætt að segja að ég hafi frá barnsaldri verið góðkunningi hennar.

DSC_0588

Aðra minningu á ég frá því ég bjó í blokkinni úti í Þorpi. Við krakkarnir ákváðum að hlaupa uppi brunabíl sem var ekið á ofsahraða eftir ómalbikaðri Hörgárbrautinni með tilheyrandi væli og blikkandi ljósum. Ég hljóp og hljóp og sífellt dró í sundur með mér og bílnum og sprettharðari krökkunum. Að lokum gafst ég upp og horfði á eftir krakkaskaranum og eldrauðum brunabílnum hverfa í rykmekki miklum. Eftir öll hlaupin óaði mér við því hvað Akureyri væri rosalega stór. Ég efaðist um að það gæti verið rétt sem ég heyrði sagt, að Reykjavík væri enn stærri.

Fyrsti skólinn minn var vorskóli sem var til húsa í næstfallegasta húsi Akureyrar, Húsmæðraskólanum (Akureyrarkirkja er að sjálfsögðu enn fallegri). Þangað gekk ég úr Skarðshlíðinni, yfir Glerárbrúna og upp Þórunnarstrætið. Í Húsmæðraskólanum tók á móti okkur yndisleg gömul kona í peysufötum og kenndi okkur að lesa. Hún hét Sólveig. Það var mikil birta yfir henni og þessum vikum sem ég átti í kjallaranum í Húsmæðraskólanum.

Framundan var margra ára ferill minn innan akureyska skólakerfisins, fyrst í Oddeyrarskólanum, síðan í Barnaskóla Akureyrar (sem nefndur hefur verið Barnaskóli Íslands) og eftir það tveir vetur í unglingadeild Oddeyrarskólans. Landspróf tók ég í Gagganum og var síðan fjögur ár í Menntaskólanum. Kennara hafði ég marga og misjafna. Ég nenni ekki að muna eftir þeim sárafáu sem ekki voru starfi sínu vaxnir en hinna minnist ég með mikilli ánægju. Ég var aldrei kennarasleikja en er mjög þakklátur fyrir alla góðu kennarana sem Akureyri skaffaði mér. Þeir eiga stóran þátt í að ég er þó ekki verri en ég er. Mestan heiður af því eiga þó mamma mín og pabbi.

DSC_0340

Lengi var það ein mín helsta skemmtun að fara í þrjúbíó. Oft fjármagnaði amma á Eyrinni þær ferðir og stundum fannst afa nóg um hvað sú gamla var rausnarleg í fjárveitingum til hinna brýnu nammikaupa. Kvikmyndahús bæjarins voru tvö, Borgarbíó og Nýja bíó. Þá var hinn ungverskættaði Johnny Weissmuller enn að leika Tarzan fyrir krakka veraldarinnar og kúrekinn geðþekki Roy Rogers reið syngjandi um grundir á hinum óstressaða hesti sínum, Trigger. Mest fútt fannst mér samt að sjá teiknimyndirnar, Looney Tunes og Merrie Melodies.

Þrátt fyrir nafnið var Nýja bíó eldra en hitt bíóið. Þar var um tíma rottugangur sem gat bætt enn í stemninguna þegar hryllingsmyndir voru á tjaldinu en kom áhorfendum rómantískra mynda nokkuð úr stuði. Aldrei urðum við krakkarnir þó varir við þessi illa séðu nagdýr enda var hávaðinn í okkur óstjórnlegur á meðan við gengum í salinn. Þegar myndin loksins hófst varð svo allt gjörsamlega vitlaust og aumingjans gamla Nýja bíó með öllum sínum rottum nötraði af öskrum, lófaklappi og fótastappi.

Nýja bíó hafði meiri karakter en hitt bíóið. Þar var hægt að festa varirnar í pikkfrosnum rjómaís sem var til sölu í sælgætisdeild hússins. Nýja bíó státaði líka af Stjána í bíó  sem sá um að hleypa krakkaskaranum inn í dýrðina þegar sá tími kom. Þá reif hann af miðunum með allnokkrum þjósti og tók stundum nokkra í einu, enda margreyndur atvinnumaður í faginu. Varð stundum töluverður atgangur við inngöngudyr og Stjáni rauður í framan.

DSC_0232

 

Ég átti líka yndislega ömmu og afa í Innbænum, Aðalstræti 22. Stundum fór ég með ömmu minni í Höpfner, útibú kaupfélagsins í þessum elsta og virðulegast bæjarhluta Akureyrar. Þá komum við alltaf við hjá systur ömmu, Huldu, í Hafnarstrætinu. Hún var að eigin sögn göldrótt og sá í gegnum heilt, eins og hún orðaði það. Hulda gat látið í sér heyra en hún gaf manni oft fyrir Brynjuís. Sú búð var nánast á baklóðinni hjá henni.

Alli afi vann hjá Stjörnu Apóteki og hafði aðsetur undir kirkjutröppunum. Þar hafði hann meðal annars það starf að hella lýsi á flöskur. Það var vinsælt að heimsækja afa undir tröppunum. Hann splæsti alltaf apótekaralakkrís eða dró rauðan fimmkall upp úr veskinu sínu og gaf manni. Stundum fékk ég að vera samferða honum úr vinnunni inn í Aðalstræti. Þá leiddi hann mann inn í ríki sitt, Innbæinn. Þegar heim var komið bauð amma upp á kaffi,  kleinur, soðibrauð með rúllupylsu, tvíbökur og horn úr kaupfélagsbakaríinu, sem voru algjört hnossgæti. Afi hafði fyrir sið að hella kaffinu sínu á undirskálina og sötra það með miklu og innilegu smjatti svo ekki fór framhjá neinum hverskonar athöfn var um að ræða.

DSC_0281B

Svavar afi minn á Eyrinni vann í Slippnum. Þangað máttu krakkar helst ekki koma því Slippurinn gat verið varasamur. Ég dáðist að því hvað Svavar afi var hrikalega  skítugur um hendurnar þegar hann kom úr vinnunni. Hann þvoði þær í eldhúsinu og notaði ræstiduft til að ná af þeim smurningunni. Mig minnir að það hafi heitið Vim. Þetta þótti mér karlmannlega að verki staðið og aðfarir sem bragð var að.

Einu sinni var ég viðstaddur þegar afi kom snemma heim úr vinnunni því hann hafði dottið í sjóinn. Amma húðskammaði hann. Ég var hissa á ömmu þá en skil núna að afar eru svo dýrmætir að þeir verða að passa sig.

Mikið matlíf var hjá þessum ömmum mínum. Á báðum heimilum var ætíð borið fram kvöldkaffi áður en fólk fór að sofa og maður belgdi sig út af smurðu og sætu til að fara ekki svangur af stað inn í draumalandið.  Amma á Eyrinni eldaði það besta hrossagúllas sem ég hef smakkað og munnvatnskirtlarnir í mér freyða þegar ég rifja upp bragðið af steinbítnum hennar í brúnu lauksósunni. Á laugardögum bar hún fram grjónagraut og normalbrauð með gaffalbitum frá niðursuðu K. Jónsson en amma vann einmitt þar. Ég átti mér þann draum að vinna á niðursuðunni eins og amma og til vara ætlaði ég að verða forseti.

DSC_0802

Ég sakna margs frá gömlu Akureyri. Ég sakna til dæmis allra búðanna. Þegar amma á Eyrinni sendi mig í kaupfélagsútibúið í Ránargötunni gat ég komið við í útibúi frá Kristjánsbakaríi í sömu götu. Lengi var smábúð nokkrum skrefum ofar, á horninu á Norðurgötu og Eyrarvegi. Ef ekki var hægt að fá neitt í þeim búðum var stutt í Eyrarbúðina á horni Norðurgötu og Eiðsvallagötu. Skammt þar fyrir ofan var önnur kaupfélagsbúð og örlítið sunnar í Norðurgötunni hin magnaða verslun Esja. Enn sunnar, í Strandgötunni, var hægt að útvega sér nýlenduvörur hjá gamla góða Kaupfélagi verkamanna. Fyrir óforbetranlega samvinnumenn var þriðja KEA-útibúið á Eyrinni auðvitað fýsilegri kostur. Mig minnir að það hafi verið kallað Alaska.

Ég sakna Sana, Vallasins eldappelsínugula og hins gáskafulla Jolly Cola. Og hver getur gleymt Cream Soda, með myndinni af köllunum hlæjandi? Nú drekka menn rauðvín með nautakjöti en Cream Soda átti alveg einstaklega vel við köld svið. Ég sakna súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu og ekki síður Akra-karamellanna, bláu og brúnu. Ófá akureysk börn höfðu fórnað fyllingum úr tönnum sínum í viðureign sinni við það bráðholla ljúfmeti. Tannlæknastétt bæjarins stendur í mikilli þakkarskuld við Akra. Og talandi um tennur: Ég sakna Kópral-tannkremsins. Ég sakna Iðunnar-fótboltaskónna og Heklu-gallabuxnanna. Ég sakna Amaró og lyftunnar, herradeildarinnar og rúllustigans, teríunnar og snitselsins, Sigga Gúmm og Corgi Toys, bókabúðarinnar Eddu og Árna Bjarna, bókabúðarinnar Huldar og Huldar, bóka- og blaðasölunnar og Kobba, blaðavagnsins og Pálma, Filmuhússins og Baldurs, Cesars og Kóka og Véla- og raftækjasölunnar og Tona frænda.

Og hét hann ekki Kósímó, grænmetissalinn ítalski, sem seldi vörur sínar á Ráðhústorgi? Ég sakna hans og torgsins.

Guði sé lof að ég þarf hvorki að sakna JMJ né Hafnarbúðarinnar. Þær gamalgrónu Akureyrarbúðir hafa staðið af sér öll efnahagsleg illviðri og starfa enn, sú síðarnefndar reyndar undir nafninu Hólabúðin.

DSC_0620

Mest sakna ég þó fólksins sem nú er horfið af götum bæjarins, úr kvikmyndahúsunum eða af hlaði Barnaskólans þegar Lilja og Björgvin höfðu látið okkur jafna bilin, fólksins sem ýmist er flutt suður eða úr landi eða komið yfir móðuna miklu handan allra heiða og fjalla. Þetta fólk var hluti þeirrar Akureyrar sem ég ólst upp við.

Nú er komið nýtt fólk og nýr bær og þótt mér sé gamla Akureyri kær þykir mér líka vænt um þá nýju.

Þegar ég komst til vits og bjó annars staðar en á milli Vaðlaheiðar og Súlna gerði ég mér grein fyrir að Akureyri er ekki fullkomin. Ég varð þess einnig áskynja að Akureyri er minni en Reykjavík. Ég er fyrir löngu búinn að fyrirgefa henni það. Ég elska hana eins og hún var og eins og hún er og vil gjarnan gera mitt til að hún verði enn betri.

Til hamingju, elsku heimabærinn minn og hafðu þökk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Megir þú lifa vel og lengi og bjóða öllum þínum íbúum og gestum skjól og yndi.

Að lokum er hér örlítið ljóð sem heitir Bærinn minn. Ef menn kæra sig um má raula það við þetta lag.

 

Þar sem áin svo lygn breiðir silfur á sand

benda Súlurnar himins til,

þar sem öldurnar kyssa sitt langþráða land

og litirnir dansa í Pollsins hyl,

þar er móðir mín jörð með sinn fegursta fjörð,

henni flyt ég þakkargjörð.

Hann er sólinni kær þessi blessaði bær

eins og blóm sem á eyrinni grær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir séra minn. Ég held ég hafi hreinlega tárast. Ég sé Stjána í bíó enn fyrir mér eftir lesturinn, eldrauðan og frekar ósáttan við hlutskipti sitt.

Svavar Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 09:22

2 identicon

Séra Svavar Alfreð Jónsson.

Gott er fyrir heimabæ okkar, Akureyri, að hafa svona góða málsvara (innfædda, aðflutta, brottflutta eða velviljaða), eins og þig séra minn. Við erum greinilega ekki bara sveitungar heldur forðum, jafnvel samtímis nágrannar, þó að ég muni ekki eftir þér þann hálfan annan áratug ár sem ég ólst upp á Akureyri enda ertu aðeins eldri en ég af lýsingum þínum að dæma um bæjarbraginn; margt kannast ég þó vel við, einkum þegar þú rifjar það svo skemmtilega upp.

Takk, séra Svavar Alfreð, fyrir góða hugvekju í tilefni 150 ára afmælisins, skemmtilega skrifaða, vel til fundna og fallega myndskreytta.

Sjáumst vonandi á afmælishátíðinni eða síðar.

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 10:34

3 identicon

Frábært - takk fyrir þetta Svavar!

Þorgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 11:27

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Takk Svavar

Jón Ingi Cæsarsson, 29.8.2012 kl. 12:30

5 identicon

Skemmtilegur pistill, þetta rifjar upp gamlar og góðar minningar. Takk kærlega fyrir.

Árni Stefánsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 14:29

6 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég er einn þeirra sem nenna ekki að lesa löng blogg. En þegar ég byrjaði að lesa þetta blogg þá gat ég bara ekki hætt.

Sigurður I B Guðmundsson, 29.8.2012 kl. 15:19

7 identicon

Þakka þér kærlega Svavar fyrir frábæran og einlægan pistil. Þetta einmitt Akureyri sem maður minnist úr æskunni.

Enn og aftur takk.

Ólafur Örn Haraldsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 15:26

8 identicon

Þessi fortíðarsýn þín er þess eðlis að maður stökk aftur á bak um áratugi. Takk fyrir falleg orð í garð Akureyrar.

Carl Daníel Tulinius (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 17:00

9 identicon

Kæri vinur. Þetta er fallegur og góður pistill.  Ég var staddur á Akureyri afmælisdaginn fyrir 50 árum það var ævintýralegt að sjá hvað allt var fallegt á Akureyri þar sem ég fæddist í húsi á Lækjargötunni fyrir ofan Brynju ísbúð allra ísbúða. 

Var í heimsókn  hjá afa og ömmu í Aðalstræti 17 þennan fallega afmælisdag og kostaði einn ís tvær krónur ef ég man rétt. Fékk líka fyrsta smókinn á bak við hesthúsið sem var skáhalt á móti húsi þeirra, kamel eða sjesterfíld veit ekki hvað pakkinn kostaði. En þetta voru yndislegir dagar.

Karl V. Matthíasson

Karl V. Matthíasson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 19:10

10 identicon

Dásamleg grein.

Ída (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 19:30

11 identicon

Fallega og skemmtilega skrifað:) Já maður saknar margs, átti dásamlega æsku í þessum fallega bæ, finn enn lyktina við nammiborðið í Amaro, man allt dótið í dótadeildinni en þangað fékk ég stundum að fara og kaupa mér einn pakka af litlum húsgögnum og fleiru skemmtilegu sem ég safnaði og passaði eins og gull, fallegu útstillingarnar í gluggunum, rúllustiginn í KEA o.s.frv. og o.s.frv. Hér hefur þetta allt verið talið upp af Svavari:)

Takk fyrir þessa grein, var eigilnlega bara aðeins meir við lesturinn.

kv. Brynja

Brynja Agnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 22:01

12 identicon

Alveg fyrirtaks pistill==eg var tharna fyrir 50 'arum, tha nystudent fra MA==o hvad  tessi baer er alltaf dasamlegur.  Takka ter kaerlega fyrir skrifid.

J'ona Hammer (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 23:29

13 identicon

En hvað þetta er skemmtileg grein og vel skrifuð. Maður fær smá flash back og man eitt og annað skemmtilegt. Ég man samt ekkert eftir þessum grænmetissala á torginu! Hvenær sirka skyldi hann hafa verið þarna? Þetta var það eina sem ég kannaðist ekki við í þessari endurminningu svo kannski er minnið bara betra en ég held að það sé!! Ég man til dæmis eftir "Verslun Eyja" þar sem allt mögulegt fékkst. Hún var í Hafnarstrætinu rétt sunnan við Passion hárgreiðslustofu ca no. 90. Þar fengust 10 aura kúlur í öllum regnbogans litum eða voru þær kannski bara rauðar, bláar og hvítar? en alveg svakalega góðar og voru afgreiddar í pappírskramarhúsi. 

Takk fyrir þessa skemmtilegu grein.

Kveðja Margrét Ragúels

Margrét Ragúels (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 16:11

14 identicon

Hjartans þakkir fyrir pistilinn Svavar - mér vöknaði um augu við lesturinn þrátt fyrir að vera ríflega áratug yngri en þú. Margt rifjaðist upp við lesturinn, ekki síst ljúfar minningar um gott fólk. Takk.

:)

Árný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 20:32

15 identicon

yndislegur pistill hjá þér séra minn, takk..

annaben (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 13:50

16 identicon

Já maður man Svavar, allavega mest af þessu og mér þótt vænt um afa þinn og nafna í Furulundinum, yndislegur maður. Takk fyrir Svavar.

Guðjón Stefánsson (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 22:39

17 identicon

Hafðu hjartans þökk minn kæri....ég man......:)

Anna Ringsted (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband