15.9.2012 | 00:00
Akureyrarborg
Er kominn tími til að líta á hina 150 ára gömlu, góðu Akureyri sem borg?
Dr. Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar, kveikti þá umræðu snemmsumars, með tölvupósti til yfirstjórnar Akureyrarbæjar og síðar með viðtali við vikublaðið Akureyri.
Á henni eru margir fletir og efalítið finnst sumum slíkar hugmyndir lýsa fordild og hégóma. Akureyri sé ekki nema ríflega 18.000 manna samfélag og eigi ekki nokkra heimtingu á borgarnafnbótinni.
Aðrir kynnu að segja að vandséð væri hvort hlutskiptið væri betra, að vera bær með mikilmennskubrjálæði eða borg með minnimáttarkennd.
Engin ein alþjóðleg skilgreining er til á þorpum, bæjum og borgum.
Þjóðverjar hafa bara þorp og borgir í mismunandi myndum og skilgreina Akureyri sem borg.
Á Norðurlöndum virðast menn ekki lengur gera neinn lögformlegan greinarmun á borgum og bæjum.
Bæði Bretar og Bandaríkjamenn láta mannfjöldann ekki ráða úrslitum um hvort byggðir teljast bæir eða borgir. Á Bretlandi eru samfélög með yfir 200.000 íbúa sem ekki teljast borgir, t. d. Luton. Í Bandaríkjunum fyrirfinnast á hinn bóginn borgir sem ekki eru fjölmennari en Tálknafjörður .
Mörg lönd hafa engar lagalega skilgreiningar á borgum meðan önnur setja borgum skýr skilyrði. Þannig segja Portúgalar að til þess að geta kallast borg verði að búa 8.000 kjósendur á staðnum og einnig skuli vera þar til staðar helmingur af eftirfarandi:
Sjúkrahús, lyfjabúð, slökkvistöð, leikhús/menningarhús, safn, bókasafn, skólar og framhaldsskólar, almenningssamgöngur og opinber garður.
Því virðist hæpið að telja að Akureyri geti ekki verið borg með þeim rökum að þar búi of fáir. Reyndar eru íbúar á Akureyri nú mun fleiri en voru í Reykjavík árið 1908, en þá var kosinn fyrsti borgarstjórinn í höfuðborg Íslands.
Munurinn á bæjum og borgum hlýtur líka að markast af aðstæðum í hverju landi. Ekkert þarf að vera óeðlilegt við það að borgir á Íslandi séu fámennari en í stærri löndum; engum dytti í hug að banna íslenskum sumrum að nefna sig þannig því þau séu mun kaldari en í heitari löndum.
En hvers vegna ætti Akureyri að fara að líta á sig sem borg? Rök Þórodds Bjarnasonar eru í fyrsta lagi þau, að Akureyri hafi ýmis einkenni lítillar borgar. Hún hafi gott sjúkrahús, tvo framhaldsskóla, háskóla, alþjóðaflugvöll, atvinnuleikhús, menningarhús, fjölbreyttan iðnað, stórt upptökusvæði" og fleira.
Þóroddur nefnir ennfremur byggðapólitísk rök fyrir borgvæðingu Akureyrar. Borgin Akureyri væri djarfur leikur í hinni ömurlega stöðnuðu umræðu um höfuðborg og landsbyggð.
Sóknarfæri og áskoranir borgarbyggðarinnar á Akureyri eru að mörgu leyti ólík því sem gerist í minni bæjum og dreifbýli annars staðar á landinu. Hún þarf að gera ákveðnar kröfur um margvíslegar nauðsynlegar undirstöður borgar sem aðrir staðir á landinu geta ekki gert tilkall til - og hún þarf að axla margvíslegar skyldur gagnvart öðrum íbúum Norðurlands og jafnvel Austurlands,
segir Þóroddur í áðurnefndu viðtali
Akureyringurinn dr. Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, flutti aðalræðuna á 150 ára afmælishátíð Akureyrar þann 1. september síðastliðinn.
Hann gerði sérstöðu Akureyrar einnig að umtalsefni. Hún felst meðal annars í því að Akureyri er höfuðstaður landsbyggðarinnar á Íslandi. Að mati Páls er sú sérstaða ekki nægilega virt. Allt það sem Akureyri hefur upp á að bjóða sannar að að það er ekki aðeins á Reykjavíkursvæðinu sem hlutirnir gerast" eins og Páll orðaði það.
Einhæfni og fábreytni ógna íslenskri menningu og við þurfum öflugt mótvægi við múgmenninguna á suðvesturhorninu. Þetta mótvægi getur Akureyri veitt vegna þess að hún hefur þá skapandi menningarhefð og þá efnahagslegu burði sem þarf til að helga sig því hlutverki að leiða uppbyggingarstarf á landsbyggðinni allri,
sagði hann ennfremur.
Páll tók ekki afstöðu til þess hvort nefna ætti Akureyri borg. Hann lagði áherslu á að samfélagið Akureyri hefði sínar meginskyldur við íbúa sín og þá ekki síst börn og unglinga.
Í þeim efnum sé ég ekki að það skipti neinu máli hvort Akureyri er bær eða borg.
Sé á hinn bóginn litið til þess hlutverks sem Akureyri gegnir fyrir landið allt má ef til vill segja að henni geti gengið betur að sinna því sem borg en bær og borgartitillinn kunni að efla Akureyri sem raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, er einn þeirra sem vill sjá Akureyrarborg rísa.
Hann bendir á að það styrki ímynd Reykjavíkur sem höfuðborgar sé hún ekki lengur eina borgin á Íslandi.
Við það má bæta að verði Akureyri borg verður Jón Gnarr ekki lengur eini borgarstjóri landsins. Sú einsemd hans er þá úr sögunni.
Í hátíðarræðu sinni benti Páll Skúlason á að Akureyri hefði þvílíka möguleika á að axla sína ábyrgð á öllum sviðum og í öllum greinum að það hálfa væri nóg" og bætti við:
Þess vegna er ég ekki hissa að hún skuli vera hugsi og jafnvel áhyggjufull á þessari afmælishátíð. Það ber vott um ábyrgð. Veit hún sjálf hvert hún stefnir? Hefur hún gert upp hug sinn og ákveðið að taka hiklaust á við það að verða sá höfuðstaður sem þjóðin þarfnast til viðbótar og til mótvægis við Reykjavík?
Þetta eru góðar spurningar fyrir Akureyri á afmælisári.
Myndin er tekin í Lystigarði Akureyrar nú í sumar.
Athugasemdir
"Hefur hún gert upp hug sinn og ákveðið að taka hiklaust á við það að verða sá höfuðstaður sem þjóðin þarfnast til viðbótar og til mótvægis við Reykjavík?"
Finnst fólki almennt að það sé þörf á tveimur höfuðborgum á Íslandi? Er þjóðin svo fjölmenn eða er verið að segja að norðlendingar séu önnur þjóð með allt aðra hagsmuni en sá mikli meirihluti þeirra sem landið byggja og búa sunnan heiða?
Erasmus (IP-tala skráð) 15.9.2012 kl. 11:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.