21.9.2012 | 21:44
Þrykkjarinn höggþungi og aðrir íþróttamenn
Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar hef ég verið að lesa Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason, sagnfræðing, vandað verk og skemmtilegt. Gaman er til dæmis að lesa um árdaga akureysks íþróttastarfs.
Þá voru menn ekki feimnir við að gefa íþróttafélögum tilkomumikil nöfn. Upp úr aldamótum störfuðu á Akureyri íþróttafélagið Grettir, glímufélagið Sveinninn, skotfélagið Þór og síðast en ekki síst sundfélagið Kjartan Ólafsson.
Gróskumest var þó Ungmennafélag Akureyrar, UMFA. Þar ríkti sannur ungmennafélagsandi. Félagsfundir hófust með því að sungin voru ættjarðarlög og lauk þeim með sama hætti.
Í ungmennafélögum létu menn ekki nægja að rækta líkamann heldur var líka vel hugsað um andann. Því til áréttingar birtir Jón í bók sinni dagskrá fundar UMFA annan sunnudag í nóvember árið 1913. Fyrsta atriðið var upplestur á Páskahreti Þorsteins Erlingssonar en því næst átti að flytja erindið Hvort er betra að vera giftur eða ógiftur? Þegar sá ræðumaður lét ekki sjá sig var flutt næsta erindi fundarins. Þar var fjallað um hvað væri skáldskapur og hvaða skáld Íslendingar hefðu átt best. Komst fyrirlesari að þeirri niðurstöðu að Sigurður Breiðfjörð væri fremstur íslenskra skálda. Ekki voru allir sammála því og tilnefndu fundarmenn einnig þá Jónas Hallgrímsson, Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson. Urðu umræður það langar að fresta varð síðasta erindinu sem flytja átti á fundinum. Titill þess var: Hverju eigum við að trúa?
Í Ungmennafélagi Akureyrar iðkuðu menn íþróttir sem Íslendingum nútímans kann að þykja nokkuð framandi. Meðal þeirra greina var grísk-rómversk glíma.
Ennfremur gátu meðlimir UMFA fengið tilsögn í hnefaleikum. Prentarinn Oddur Björnsson annaðist þá þjálfun en íþróttina hafði hann lært úti í Kaupmannahöfn.
Þess má geta að prentverk Odds Björnssonar varð með elstu prentsmiðjum þessa lands og lengi starfaði bókaforlag kennt við þennan akureyska hnefaleikakappa.
Jón Helgason, einn nemenda Odds, náði það langt í boxinu að keppa í greininni á íþróttasýningu í Magdeburg í Þýskalandi. Meðal andstæðinga hans þar var Bobby Dobbs, blámaðurinn frá Vesturheimi, sem talinn er mestur hnefaleikamaður í heimi," eins og það var orðað í Akureyrarblaðinu Norðurlandi þegar það loksins flutti fréttir af þeirri viðureign.
Árið 1907 kom hinn höggþungi þrykkjari Oddur Björnsson fram á fjölmennri árshátíð ungmennafélaga á Akureyri. Þar sýndi hann íþrótt sína íklæddur bleikrauðum, ermalausum jerseysamfestingi með mittisskýlu úr dökku, rauðbláu flaueli, skreyttri að neðan með marglitu kögri", segir Jón Hjaltason í riti sínu (Saga Akureyrar, III. Bindi, bls. 285).
Án efa hefur það verið tilkomumikil sjón þegar Oddur þannig skrýddur steig boxaradans um sviðið og barði frá sér út í loftið. Þó var það ekki hnefaleikamaðurinn sem vakti mesta hrifningu áhorfenda heldur hið bringusíða skegg hans sem hristist og skókst í allar hugsanlegar víddir við atganginn. Prentaraskeggið varð senuþjófur á þessari árshátíð. Eigandi þess þvertók þó fyrir að hlýða uppklappi enda sá hann ekki mikinn tilgang í að kynna fyrir Akureyringum frekari dásemdir boxiðkunarinnar. Þó tók hann fram, að ekki væri útilokað að hann efndi síðar til sérstakrar sýningar á hinu dáða skeggi sínu.
Árið 1915 stofnuðu Akureyringar Íþróttafélagið Þór og þrettán árum síðar bættu þeir um betur og ýttu úr vör Knattspyrnufélagi Akureyrar. Það gladdi mitt gulbláa KA-hjarta að lesa þá umsögn sérlegs sagnaritara höfuðstaðar Norðurlands, að stofnun KA hefði hleypt nýju blóði í íþróttalífið á Akureyri sem orðið var harla dauflegt.
Slíkur var krafturinn í KA-mönnum, að sama ár og þeir stofnuðu félagið, festu þeir kaup á fótknetti. Er óhætt að segja að stofnfélagar hafi ekki látið sitja við orðin tóm. Strax um sumarið gerðu þeir víðreist um nágrannasveitir með nýkeyptan boltann og skoruðu á heimamenn í knattspyrnu. Var þessi fyrsta keppnisferð KA-manna óslitin sigurganga. Eftir þá frægðarför um töldu KA-menn sig nógu forframaða í fótbolta til að bjóða til sín besta knattspyrnuliði Íslands, hinum reykvísku Víkingum. Bæjarstjórn hafði þá trú á sínum mönnum að hún veitti KA styrk til boðsins. Sama sumar komu Víkingar til Akureyrar, kepptu tvisvar við KA og unnu sunnanmennirnir í bæði skiptin.
Þrátt fyrir afhroðið voru KA-menn það brattir að árið eftir tilkynntu þeir þátttöku í Íslandsmótinu í knattspyrnu, fyrstir norðlenskra liða. Enga frægðarför fóru þeir þó á mótið, töpuðu öllum sínum leikjum, tókst aldrei að koma boltanum í mark andskota sinna og uppskáru heimkomnir háð og spott sveitunga sem uppnefndu klúbbinn KA-núll.
Heldur rættist úr fyrir KA á fyrsta sundmeistaramóti ÍSÍ sem haldið var á Akureyri árið 1934. Þar átti félagið mann sem varð í öðru sæti í þeirri göfugu grein stakkasundi.
Stuttu síðar var efnt til Norðurlandsmóts og þar varð hörkuspennandi einvígi í skriðsundi á milli Þórsarans Magnúsar Guðmundssonar og KA-mannsins Jóhannesar Snorrasonar. Var sá síðarnefndi sjónarmun á undan. Sigurinn var þó ekki ótvíræður því Jóhannes hafði klæðst mittisskýlu í sundinu ólíkt samherja sínum sem sigrað hafði stakkasundið. Þórsarinn hafði á hinn bóginn hagað sundklæðnaði sínum í samræmi við lög Íþróttasambandsins og synt í sundbol.
Ef til vill er þar komin skýringin á því að búningur Þórsara hefur alltaf minnt mig á sundboli.
Íþróttakennarinn Hermann Stefánsson á langan og merkilegan kafla í íþróttasögu Akureyrar. Hann kenndi Akureyringum m. a. þá grein skíðaíþróttarinnar sem nefndist slalom" áður en greinin hafði öðlast íslenskt nafn.
Það er mikil íþrótt að finna íslensk heiti á útlenskum fyrirbærum. Kennarar í Menntaskólanum á Akureyri voru snjallir orðsmiðir og lögðu m. a. til, að greinin yrði kölluð krókaskrið".
Hvað sem segja má um þá nafngift hljómar mun erfiðara að renna sér í krókaskriði en svigi. Og ólíkt er það nú tignarlegra að vera ólympíumeistari í risakrókaskriði en í risasvigi.
Aldrei hef ég þótt mikill dansari en verð samt að segja að enda þótt ég sé ekkert æstur í að dansa foxtrot myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég fúlsaði við boði í skaufhalaskokk, eins og mætur maður nefndi dansinn á íslensku.
Myndin: Þessar íþróttamannslegu konur eru efst í Grófargili og styttan er að mig minnir gjöf frá höfuðborg Íslands til höfuðstaðar Norðurlands.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.