24.9.2012 | 21:28
Lifi Ríkisútvarpið!
Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta stofnun þessa samfélags og atburðir síðustu ára hafa sannað gildi þess. Í stað þess að gæla við þá hugmynd að leggja það niður eigum við að velta fyrir okkur hvernig við getum eflt það.
Í okkar heimshluta eru mestu völdin annarsvegar hjá stjórnmálamönnum og hinsvegar þeim sem eiga peninga. Fjölmiðlar geta illa sinnt því hlutverki sínu að veita valdinu aðhald ef þeir eru annaðhvort í eigu auðmannanna eða undir stjórn pólitíkusanna.
Þannig er það hér á landi. Stór hluti einkarekinna fjölmiðla er í eigu tiltölulega fárra auðmanna, fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Ríkisútvarpið er bitbein stjórnmálaflokkanna sem ýmist líta á það sem hvutta sinn eða saka stofnunina um að gelta fyrir hina.
Hér þarf að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum til að varna því að fáir menn geti eignast það stóran hluta af íslenskum fjölmiðlum að þeir geti stjórnað umræðunni og upplýsingagjöf til almennings.
Það er held ég ekki góð þróun ef þjóðmálaumræðan fer fram í magnpósti sem auðhringir sjá sér hag í að dreifa inn á íslensk heimili.
Þá þarf að frelsa Ríkisútvarpið úr spennitreyju stjórnmálaflokkanna og gera það að þeirri þjóðareign sem það á að vera. Ein leið til þess gæti verið sú að allar íslenskar fjöldahreyfingar eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.
Einnig er aðkallandi að efla fjölmiðla úti á landi, bæði einkarekna og í eigu þess opinbera.
Bæta þarf menntun og starfsaðstöðu blaðamanna. Einnig er löngu tímabært að hefja kennslu í fjölmiðlalæsi í skólum landsins. Íslenska fjölmiðla vantar ekki einungis betri blaðamenn heldur líka myndugri notendur sem kunna að taka þátt í lýðræðislegri umræðu.
Myndin: Í heilbrigðum samfélögum endurspegla fjölmiðlar litskrúðuga skoðanaflóru.
Athugasemdir
Við lendum fljótt í umboðsvanda ef við ætlum að færa valdið yfir Ríkisútvarpinu frá stjórnmálamönnunum, þ.e.a.s. frá Alþingi. Alþingi (ekki einstakir alþingismenn) hefur umboð þjóðarinnar. Í því umboði hefur Alþingi skipað Útvarpsráð, síðar stjórn Ríkisútvarpsins ohf.
Fjöldahreyfingar hafa ekki þetta umboð, þótt þær gjarnan vilji telja sig hafa ríkt umboð. T.d. hefur Alþýðusambandið eðaq einstök aðildarfélög þess ekki þjóðarumboð, þaðan af sííður áhugamannafélög um eitt eða annað.
Mér finnst erfitt að sjá réttlætingu þess að taka stjórn Ríkisútvarpsins frá þeim sem sannarlega hafa umboð þjóðarinnar og færa þeim sem hafa það ekki. Nær væri að mínu mati að gera ákveðnari kröfur um meðferð Alþingis á þessu umboði sínu og um stjórnun og stjórnunarhætti hjá Ríkisútvarpinu, þar er mörgu ábótavant.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 24.9.2012 kl. 22:41
Þetta vefst nú ekki fyrir Þjóðverjum, Þórhallur, sem láta sín útvarpsráð (Rundfunkraete) vera skipuð fulltrúm hópa og félaga enda er þeim umhugað um að þverskurður þjóðarinnar komi að stjórnun þessara mikilvægu stofnana. Um það má lesa hér http://de.wikipedia.org/wiki/Rundfunkrat . Ég veit ekki hvernig þetta er hjá BBC en þýska kerfið er byggt á því breska.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.9.2012 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.