Kerfi sem éta menn

DSC_0239b 

Eitt af því sem sameinar flest trúarbrögð heimsins er sá skilningur þeirra á manninum, að hann sé andleg vera og hafi andlegar þarfir. Í öllum trúarbrögðum eru einhverskonar hátíðir. Á hátíðum er brugðið út af vananum og lífið er með öðrum hætti en aðra daga. Stundum geta hátíðir verið líkamlega krefjandi. Þá er til dæmis bæði borðað mikið. Oft er dansað. Hátíðir trúarbragðanna hafa þó langflestar það hlutverk, að minna manninn á andlegt eðli hans og gefa honum kost á að sinna andlegum þörfum sínum.

Sunnudagurinn er til sama brúks. Þá hvílist maðurinn og gerir hlé á brauðstriti sínu. Vikulega er maðurinn minntur á eðli sitt og sínar andlegu þarfir og honum skapaðar aðstæður til að hann fái ræktað sinn innri mann. Sunnudagurinn er vikuviss áminning til mannsins um að hann sé annað og meira en vinnudýr og samfélag hans ekki verbúðir.

Í Biblíunni eru ástæðurnar fyrir helgi hvíldardagsins þó ekki aðeins andlegar. Þar er líka á ferðinni sú hugsun, að vistkerfið allt þoli ekki endalaust að af því sé tekið heldur þurfi það hvíld. Samkvæmt Gamla testamentinu átti til dæmis að hvíla akrana sjöunda hvert ár og gefa þeim færi á að endurnýja sig.

Sex ár skaltu sá í akur þinn og sex ár skaltu klippa víngarð þinn og hirða afrakstur hans. En sjöunda árið skal landið hvílast algjörlega. Það er hvíld Drottni til dýrðar. Þá skaltu hvorki sá akur þinn né klippa víngarð þinn.

(3. Mósebók, 25, 3-4)

Sömu lögmál gilda um manninn. Hann þarf hvíld. Hvíldin er manninum svo nauðsynleg, að utan um hana hefur verið búið til kerfi. Kerfi hvíldardagsins felst í því að hafa einn dag vikunnar öðruvísi en alla hina og banna brauðstrit á þeim degi.

Enginn vandi er að hafa horn í síðu hvíldardagskerfisins. Til dæmis má benda á að manninum sé engin lífsnauðsyn á að hafa slíkt kerfi. Hann sé fullfær um það sjálfur að finna besta tímann til þess að hvíla sig eða sinna andlegum þörfum sínum. Einnig má halda því fram, að maðurinn hafi í raun engar andlegar þarfir og geti þess vegna unnið alla daga vikunnar ef hann vilji án þess að skaðast af því.

Sunnudagurinn og frídagarnir eiga líka undir högg að sækja. Sé heimurinn undirseldur miskunnarlausum markaðslögmálum og öll önnur lögmál látin víkja fyrir þeim, er ekki mikið pláss fyrir frídaga og hátíðir. Þá höfum við einfaldlega allar búðir opnar og allar verksmiður í gangi á meðan það borgar sig. Fólk kaupir sér kótilettur og rabarbarasultu alla daga ársins og engin ástæða til að banna neitt sé unnt að græða á því.

Vel má kalla þá afstöðu öfgafulla, að vilja helst ekki hafa neina lögskipaða frídaga en öfgarnar er líka að finna í hina áttina. Stundum höfum við svo mikla trú á hvíldardagskerfinu, að það sjálft er farið að vera í aðalhlutverki en upphaflegur tilgangur þess er gleymdur og týndur. Sé það tilgangur hátíða og frídaga að fólk endurnæri sig til sálar og líkama, getur fólk farið margar leiðir að því markmiði. Sumir fara til dæmis að heiman til að halda hátíðir eða njóta hvíldar. Ferðafólk þarf að geta keypt sér nauðsynjar og þjónustu þar sem það er. Það hættir ekki að þurfa að borða þótt kominn sé hvítasunna.

Þannig getur raunar farið fyrir öllum kerfum. Upphaflega eru þau eru sett saman til að mæta ákveðnum mannlegum þörfum og þjóna fólki, en fara svo gjarnan smám saman að snúast um sig sjálf og öðlast þá fyrst og fremst þann tilgang, að viðhalda sér sjálfum. Ekki hef ég vit til að dæma um hið nýja bókhaldskerfi ríkisins, sem að undanförnu hefur verið í fréttum, en margir vilja meina að örlög þess hafi verið á þeim nótum sem að ofan er lýst. Kerfið, sem átti að þjóna notendum sínum, er orðið að kerfi sem mjólkar notendurna.

Og sú hætta bíður ótalmargra annarra kerfa sem við höfum búið okkur til í mannsins þágu: Skólarnir þjóna ekki lengur nemendunum en fara að snúast í kringum þarfir kennaranna. Söfnuðurinn verður aukaatriði í því kerfi sem kirkjan er en prestarnir aðalmálið. Stjórnmálin hætta að ganga út á þarfir og hagsmuni borgaranna heldur fara hagsmunir flokka, stjórnmálamanna og valdaklíka samfélagsins að skipta höfuðmáli. Það sést til dæmis stundum í umræðunni um fátækt á Íslandi: Engin ríkisstjórn vill kannast við að hún láti viðgangast að hér sé fátækt vandamál og það er líka sama hvaða stjórnarandstöðu við höfum, hún notar fátæklingana til að berja á ríkisstjórninni. Þannig komast fátæklingarnir sjálfir í raun og veru aldrei í sviðsljósið heldur verða bitbein stjórnmálamanna og vopn í pólkitískri baráttu, sem hefur fremur þann tilgang að tryggja valdhöfum völd en að beita því þegnunum til heilla.

Sú saga er alltaf að endurtaka sig, að kerfin hætta að vera fyrir manninn en þess í stað er manninum ætlað að vera til í þágu kerfanna.

Myndin: Þessi lauf eru hluti af vistkerfi Lystigarðs Akureyrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Þetta er góð og þörf ábending hjá þér, Svavar, sem er afar mikilvægt að minna á reglulega þar sem hætta er á "að kerfin hætta að vera fyrir manninn en ... manninum ætlað að vera til í þágu kerfanna".

Kristinn Snævar Jónsson, 1.10.2012 kl. 11:54

2 identicon

Sá svolítið athyglisvert, eignað Dalai Lama.

"Það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga.

Svo fórnar hann peningum til að ná aftur heilsu sinni.

Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins.

Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð.

Og hann lifir eins og hann muni aldrei deyja - og svo deyr hann án þess að hafa lifað".

Mér þótti þetta svolítið áhugavert.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.10.2012 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband