11.10.2012 | 00:00
Set þig ekki í hefðarsæti
Ein þeirra spurninga sem kjósendur geta svarað í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október næstkomandi hljóðar þannig:
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Biskup Íslands og helstu valdastofnanir þjóðkirkjunnar hafa hvatt fólk til þess að svara þessari spurningu játandi. Rökin fyrir því eru meðal annars þau, að kirkjan sé samofin sögu og menningu íslensku þjóðarinnar og hún veiti mikilvæga þjónustu um land allt.
Aðrir eru eindregið þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Á tímum fjölhyggju og sívaxandi fjölbreytileika í trúarflóru landsmanna sé ekki réttlætanlegt að gera einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum.
Ég get vel skilið rökin að baki jái og neii við þessari spurningu.
Þó efast ég um að það sé kirkjunni til framdráttar að biðja þjóðina um að kjósa sig inn í stjórnarskrána.
Hefði kannski verið betra að láta nægja að segja, að ef þjóðin vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, þá sé kirkjan tilbúin að axla þá miklu ábyrgð sem því fylgir?
Þessi hvatning kirkjunnar verður að mínu mati enn óheppilegri í ljósi þess, að hvergi kemur fram hvernig þetta stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju eigi að vera. Það er eins og það skipti ekki máli, aðalatriðið sé að sjá nafnið sitt í skjalinu. Sumir gætu kallað slíka afstöðu brjóstumkennanlega.
Kirkjan getur alveg haldið áfram að vera þjóðkirkja þótt ekkert verði um hana að finna í stjórnarskrá Íslands. Stjórnarskrárákvæði um hana er ekki skilyrði fyrir því að hún sé opin og umburðarlynd kirkja sem þjónar Guði og náunganum - en einhvernveginn þannig held ég að eigi að skilgreina þjóðkirkju.
Ég held að þjóðkirkja Íslands geti haft mikilvægu hlutverki að gegna á þessu landi. Áður en kirkjan pantar sér pláss í stjórnarskránni ætti hún ef til vill að efna til víðtækrar umræðu um það hvernig hún geti orðið þjóð sinni til gagns og blessunar. Hlusta á þjóðina sem hún vill kenna sig við, heyra væntingar hennar og kanna hvað landsmenn telja að helst þurfi að laga í kirkjunni.
Ég endurtek að ég er ekki á móti því að ákvæði sé um þjóðkirkju í stjórnarskránni. Slíkt ákvæði er þó ekkert skilyrði fyrir starfi Þjóðkirkjunnar - ekki frekar en fyrir þjónustu hinna óhemju mikilvægu stofnana Landspítalans og Ríkisútvarpsins, svo dæmi séu tekin.
Sjálfur segi ég hvorki já ég nei því ég mun ekki taka þátt í þessari kosningu. Í henni er kjósendum sýnd sú vanvirðing, að þeir eru beðnir að játa eða hafna ákvæði sem þeir vita ekki hvernig hljóðar. Þeir eru látnir svara spurningum sem eru svo óskýrar að erfitt er að sjá hvað svörin við þeim þýða.
Viðbrögð höfunda tillagnanna við gagnrýni á þessa kosningu hafa því miður stundum einkennst af dónaskap. Það eykur ekki löngun mína til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Myndin: Nýlega kom Malavíbúinn Innocent Kaphinde í heimsókn til fermingarbarna í Akureyrarkirkju. Hann sagði þeim frá lífinu í heimalandi sínu og þróunarhjálp. Auk þess spilaði hann og söng fyrir börnin. Innocent er hér á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.