17.10.2012 | 00:15
Viðurkenndir klúðrarar
Við vorum ekki gömul þegar við klúðruðum einhverju í fyrsta skiptið. Síðan hafa mörg vötn klúðrast til sjávar. Enginn hefur tölu á öllum sínum klúðrum, mistökum, yfirsjónum, ósigrum og asnaskap. Við helltum niður mjólkinni, féllum á prófinu, duttum í kapphlaupinu, fórum yfir á tékkheftinu, klesstum bílinn, eyðilögðum sumarfríið, fengum ekki stöðuna sem við sóttum um, unnum ekki í lottóinu, vorum of sein á útsöluna og misstum stóra laxinn.
Það eru alltaf einhverjir aðrir en við sem eru pamfílar lukkunnar og ná árangri í megrun. En við erum lúserar.
Síðustu árin hafa Íslendingar verið einhverjir almestu grandlúserar í veröld víðri. Þjóðin er fórnarlamb siðlausra útrásarvíkinga, vanhæfra embættismanna og spilltra pólitíkusa, svo nokkuð sé nefnt. Hér er allt ómögulegt, veðrið, kerfið, stjórnarskráin, sem er dönsk, og krónan, sem er ekki dönsk.
Þjóðfélag sem byggist á síaukinni neyslu elur þegna sína markvisst upp í því að vera fórnarlömb. Sá kaupir sem telur sig skorta. Þess vegna er alltaf verið að minna okkur á að við séum þarfaverur. Á hverjum einasta degi dynur á okkur fjöldi allskonar auglýsinga, sem eiga að segja okkur hvað okkur vanti mikið og hvernig við getum satt allt okkar risastóra og útmálaða hungur.
Hinn frægi svissneski sálgreinir, Carl Gustav Jung, kallaði kapítalismann þarfaörvunarhagkerfi". Ein gagnrýni á það kerfi felst í því, að þar verði manneskjan fórnarlamb neysluþarfa sinna.
Það er því á margan hátt skiljanlegt, að sjálfsmynd okkar sé að stórum hluta búin til úr mynd fórnarlambsins og klúðrarans. Við erum okkur mjög vel meðvituð um hinn margháttaða skort okkar.
Þar við bætist, að fórnarlambshlutverkið getur á margan hátt verið þægilegt og þess vegna eru margir mjög uppteknir af því að vera fórnarlömb, meðvitað eða ómeðvitað. Ef þú ert fórnarlamb er ekki við þig að sakast um þá stöðu sem þú ert í. Fórnarlömbin hafa siðferðið sín megin en sökudólgarnir ekki. Sért þú fórnarlamb berðu eiginlega ekki ábyrgð á neinu vegna þess að þú ert svo mikið fórnarlamb. Fórnarlömb eiga heimtingu á samúð og skilningi. Reiða og hneykslaða fólkið á netinu telur sig í fullum rétti til að hella úr sér fúkyrðaflaumi og svívirðingum með skírskotun til fórnarlambsréttarins.
Sú sjálfsmynd sem byggist á meðvitundinni um skort og ófullkomleika lýsir sér líka á hinu trúarlega sviði. Mörgum finnst trú sín ekki nógu góð. Þeir Íslendingar sem segjast vera trúaðir hafa gjarnan á því rúma fyrirvara, eru ekkert ofboðslega trúaðir" eða eiga bara sína barnatrú".
Það álit virðist algengt, að trúin hljóti að felast í vitsmunalegri tileinkun á kennisetningum kirkjunnar. Ef mér gengur illa að skilja kenningarnar um þrenninguna eða meyfæðinguna, þá er trú mín varla nógu fín.
Er það kannski ein skýringin á því að ekki fleiri koma í messur? Getur verið að fólki finnist það ekki vera nógu trúað til að fara í kirkju?
Og kannski ættum við, sem vinnum fyrir kirkjuna, að skoða hvort það sé eitthvað í starfi kirkjunnar eða í því hvernig við tölum við fólk, sem gefur til kynna að kirkjan sé of fín fyrir það og það ekki nógu trúað fyrir kirkjuna.
Sá Jesús sem kirkjan boðar mætir okkur ekki með fordæmandi vísifingri heldur opnum faðmi. Hann setur ekki skilyrði fyrir viðurkenningu sinni, uppörvun og ást.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.