Að túlka kosningaúrslit er góð skemmtun

 DSC_0387

Skömmu eftir kosningar, þegar mesta spennan er farin úr fólki og fætingurinn hættur, ná gömlu eiginleikarnir yfirhöndinni. Íslendingar verða á ný Söguþjóðin. Skáld situr við hverja tölvu, frjótt ímyndunaraflið er virkjað og fram koma túlkanir á úrslitum sem bera vott um aðdáunarverða hugmyndaauðgi og skapandi hugsun.

Slíkar túlkanir eru þjóðaríþrótt á Íslandi. Nú er gaman að sjá íþróttamennina spreyta sig á kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs. Einn þeirra greinir niðurstöður þeirra þannig að þar hafi Íslendingar hafnað kvótakerfinu. „Þetta getur ekki orðið skýrar,"  segir hann. Annar heldur því fram í kosningunum hafi þjóðin hafi bæði hafnað Sjálfstæðisflokknum og Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þriðja túlkunin sem vakti athygli mína er á þá leið, að enda þótt drjúgur meirihluti þeirra landsmanna sem mætti á kjörstað hafi viljað hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, megi engu að síður draga þveröfuga ályktun af kosningunni og aðdraganda hennar. „Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti," segir í þeirri greiningu. Og ekki má gleyma framsóknar- og alþingiskonunni sem fékk það út að vel athuguðu máli, að í kosningunum megi sjá stuðning þjóðarinnar við stefnu Framsóknarflokksins. „Því er óhætt að fullyrða að niðurstaðan er ansi framsóknarleg," segir hún. Sem má vel til sanns vegar færa, ekki síst ef hafður er í huga dómur prófessors Sigurðar Líndals, sem sagði í Fréttablaði dagsins að úrslit kosninganna hefðu í för með sér opið og teygjanlegt lýðræðislegt umboð til stjórnvalda sem túlka megi „á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er".

Ein frumlegasta túlkunin kemur þó að minni hyggju frá lögmanninum Jón Magnússyni. Hann var einn margra sem hvatti fólk til þess að hafna tillögum stjórnlagaráðs. Þegar ljóst var að u. þ. b. 2/3 hlutar þeirra sem greiddu atkvæði höfðu þvert á vilja Jóns samþykkt tillögurnar skrifar hann:

Meiri hluti kjósenda hafnar tillögunum.

Ekki síður fannst mér fróðlegt að fylgjast með tilraunum stjórnlagaráðsmanna til að dásama kjörsóknina. Þrátt fyrir gríðarlega umfjöllun fjölmiðla vikurnar fyrir kosningar, áeggjan stjórnmálaflokka og kirkju um að nýta sér kosningaréttinn og staðhæfingar forystumanna ríkisstjórnarinnar um að kosningarnar væru að eindreginni kröfu þjóðarinnar, tókst með naumindum að draga helming kosningabærra manna að atkvæðakössunum.

Megn ánægja stjórnlagaráðsfólks með þátttöku þjóðarinnar í kosningunum verður enn undarlegri í ljósi þess, að í tillögunum sem um var kosið, er gert ráð fyrir tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti beðið um að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnlagaráð gefur m. a. þá skýringu á þeirri tillögu að hún sé til þess að „auka þátttöku og skilning kjósenda á þeim málum sem fjallað er um". Stjórnlagaráð fagnar með öðrum orðum lélegri þátttöku í kosningum um tillögur sem eiga að stuðla að aukinni þátttöku kjósenda.

Innan við 50% kjörsókn getur ekki talist góð og allra síst í landi þar sem hefð er fyrir góðri þátttöku í kosningum. Og það ber ekki mikinn vott um virðingu fyrir viðfangsefninu þegar menn segjast sætta sig við svo dræma kjörsókn og  svo lítinn áhuga borgaranna með þeim rökum, að fáir nenni líka að greiða atkvæði í Sviss. Þess má geta að næsta atkvæðagreiðsla í Sviss verður að mig minnir um varnir gegn pestum í dýrum. Hér á Íslandi var á hinn bóginn verið að kjósa um stjórnarskrá landsins.

Ekki get ég sagt skilið við þessa umfjöllun um túlkanir á kosningaúrslitum öðruvísi en að víkja athyglinni að þeim meirihluta kosningabærra manna á Íslandi sem ekki sá ástæðu til að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Sjálfur tilheyrði ég þeim hópi. Ekki vefst fyrir mönnum að túlka þá ákvörðun okkar. Einn þeirra túlkenda er rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson. Hann veit vel hvað við sem heima sátum vorum að hugsa og segir:  

Þau sem heima sátu voru ekki endilega að segja: Það á ekki að kjósa um þetta, heldur: Ég ætla ekki að kjósa um þetta; ég hef ekki vit/áhuga/skoðun á þessu.

Þegar fólk tekur ekki þátt í kosningum geta verið fyrir því margar ástæður og það hefur verið kannað. Þegar þessi hópur er jafn stór og raunin varð í kosningunum um helgina eru ástæðurnar ábyggilega mjög margar.

Ég fyrir mína parta sat ekki heima vegna þess að mér þættu tillögur stjórnlagaráðs ómögulegar. Mér þóttu spurningarnar óljósar og treysti mér ekki til að taka þátt í kosningu þar sem ég vissi ekki hvað já mín og nei þýddu.

Ekki er langt síðan tveir helstu ráðamenn þjóðarinnar gerðu það sama og rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar gerði nú um helgina. Jóhanna Sigurðardóttir nýtti sér ekki kosningaréttinn í þjóðaratkvæðagreiðslu og Steingrímur J. Sigfússon gaf sterklega til kynna að hann ætlaði einnig að sitja heima. Einhverjir áfelldust Jóhönnu fyrir þau áform - reyndar ekki þeir sömu og hnýta í okkur fyrir heimasetu í kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur haft sínar ástæður fyrir ákvörðun sinni á sínum tíma en ég leyfi mér að efast um hún hafi ekki haft vit, áhuga eða skoðun á málinu.

Að lokum kveð ég þann stóra hluta þjóðarinnar sem ekki tók þátt í nýafstöðnum kosningum með orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hún lét falla í þessu viðtali:

Það er hluti af lýðræðislegu vali líka að taka ekki þátt.

Myndin er af dómkirkjunni í Skálholti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Þetta er alveg rétt hjá þér.  Þú hefðir alveg mátt láta fljóta með kenningar og túlkanir forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Og svo ert þú líka góður í þessu að túlka orðin á kjörseðlinum og útslitin.

Kjartan Eggertsson, 23.10.2012 kl. 18:37

2 identicon

Þetta er besta túlkunin sem ég hef séð: (Sjálfstæðismaður á Moggablogginu).

„Niðurstaðan þó svo kjörsókn hafi verið langt undir væntingum og í raun léleg að þjóðin er sammála Sjálfstæðisflokknum að gera eigi breytingar á stjórnarskránni sem ég held að það sé í raun engin ósammála um.“

Láki (IP-tala skráð) 23.10.2012 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband