Elítulýðræði

DSC_0105

Beint lýðræði felst í beinni og milliliðalausri þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um mál þeirra.  Efla má beint lýðræði með því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er þó ekki eina leiðin til þess.

Það er í anda beins lýðræðis að færa völdin nær borgurunum og fela þeim þannig meiri ábyrgð á samfélagi þeirra. Sú tilfærsla getur gerst með því að koma á fót svonefndu þriðja stjórnsýslustigi sem yrði þá á milli sveitarstjórna og ríkis. Einnig mætti færa völd nær þegnunum með því að fjölga verkefnum og stækka valdsvið sveitarstjórna.

Við gerum lýðræðið á hinn bóginn óbeinna með því að færa það fjær borgurunum og fjölga milliliðunum.  Með því að ganga í Evrópusambandið værum við t. d.  að færa völd héðan, frá borgurunum,  til Brüssel.

Ég held að þjóðfélagsleg meðvitund fólks slævist við það að færa ákvarðanatöku um líf þess fjær því. Það er ekki mitt draumasamfélag þar sem fólk lætur sér ekki annt um eigin hag en fær einhverja valdaelítu til að vasast í lýðræðinu. Græðir á daginn og grillar um helgar.

Oft gleymist að það er ekki einungis ábyrgðarhluti að taka að sér þjónustuhlutverk stjórnmálamannsins. Það er líka ábyrgð að vera borgari. Það aðhald, sem borgararnir eiga að veita stjórnmálamönnum sínum, er hluti af ábyrgð borgaranna.

Marga dreymir um elítulýðræði þar sem hópur útvalinna tekur þátt í lýðræðinu og tekur að sér að ákveða málin fyrir hina. Slíku fyrirkomulagi má koma á með mörgum hætti.

Það er hægt að setja þátttöku í lýðræðinu svo strangar skorður að stór hluti borgaranna verði útilokaður. Einnig má hafa fyrirkomulagið svo flókið að einungis fáir sjái sér fært að kjósa. Lítil og óvönduð umræða um málin er enn ein leið til að minnka  samfélagslegan áhuga og lýðræðisþátttöku fólks.

Margt í umræðunni um nýja stjórnarskrá virðist mér vera í anda elítulýðræðis. Tiltölulega fámennur hópur manna með mjög takmarkað umboð tekur að sér að semja stjórnarskrá fyrir okkur hin. Hópurinn bregst illa við gagnrýni á tillögur hans að þessu grundvallarskjali þjóðarinnar. Þess í stað fær þjóðin að svara örfáum sérvöldum og óljósum spurningum um tillögurnar. Eftir atkvæðagreiðsluna fær hópur sérfræðinga að fara yfir þær en hefur ekki leyfi til að gera nema lagatæknilegar athugasemdir við þær. Ekki er hlustað á gagnrýni annarra sérfræðinga þótt á meðal þeirra séu þeir fremstu á þessu sviði.

Þann 27. október síðastliðinn skrifaði einn fastra penna Fréttablaðsins pistil í blaðið. Umræðuefnið var kjörsóknin í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Pistlahöfundur tók dæmi af nýafstöðnum knattspyrnuleik íslenska kvennalandsliðsins á Laugardagsvelli. Hún skrifaði:

Aðeins þeir sem mæta eru taldir með, það eru bara þeirra raddir sem heyrast. Það er bara svo einfalt. Að nýta kosningaréttinn, ekki síður en að mæta á völlinn og styðja liðið sitt, er með betri aðferðum til að byrja að breyta heiminum.

Þegar nánar er skoðað er dæmið í ofangreindum pistli óheppilegt. Lýðræði er ekki í því fólgið að mæta á leikinn til að vera áhorfandi. Lýðræði er að taka þátt í leiknum. Hliðstæðurnar í líkingunni eru því ekki kjósendur annarsvegar og áhorfendur hinsvegar. Í virku lýðræði eru kjósendur leikmenn. Léleg kjörsókn er ekki sambærileg við þunnskipaðar stúkur.

Þegar fáir taka þátt í kosningu er það sambærilegt við að ekki nema hluti liðsins mæti til leiks.

En þannig virkar elítulýðræðið. Þar tekur fámennur hópur að sér að ákveða hlutina fyrir okkur hin sem fáum náðarsamlegast að kaupa okkur miða og fylgjast með úr áhorfendastúku á meðan elítan hefur vit fyrir okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Vel orðað Svavar, takk fyrir þessa góðu grein.  Ég get tekið undir skoðanir þínar er hér koma fram.

Bestu kveðjur,

Tómas Ibsen Halldórsson, 15.11.2012 kl. 11:24

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ég er sama sinnis og Tómas, góð grein.

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 16.11.2012 kl. 05:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband