21.11.2012 | 23:01
Mjaltakerfi neysluhyggjunnar
Einu sinni var aðventan hugsuð sem undirbúningur fyrir jólahátíðina. Hún var andlegur aðdragandi jóla sem meðal annars fólst í því að fólk dró úr neyslu enda heitir aðventan líka jólafasta.
Undanfarin ár hefur aðventan tekið miklum stakkaskiptum. Erill aðventunnar hefur ekki lengur þann megintilgang að undirbúa jólin, andlega og efnislega. Nú hefur aðventan gildi í sér sjálfri. Hún er ekki lengur undirbúningur, felst ekki lengur í þrálátri bið eða tómri tilhlökkun.
Nú er ekki ætlast til þess að fólk spari við sig í mat á aðventunni. Þvert á móti er mikill þrýstingur á að það noti jólaföstuna í að belgja sig út af allskonar kræsingum. Enginn er maður með mönnum nema hann fari á að minnsta kosti á eitt jólahlaðborð.
Nú er líka mikil gróska í aðventu- og jólatónleikum og óhætt að segja að slík menningarstarfsemi sé orðinn töluverður atvinnuvegur. Strax í byrjun nóvember fara jólalögin að hljóma á útvarpsstöðvunum. Um leið og aðventan gengur í garð hefst síðan mikil tónleikatörn í kirkjum og menningarhúsum landsins. Ég hef grun um að stór hluti landsmanna sé kominn með hálfgert ofnæmi fyrir helstu jólalögunum loksins þegar organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík slær fyrstu tónana í fyrsta jólasálmi útvarpsmessunnar kl. 18 á aðfangadagskvöld.
Mér finnst aðventan skemmtilegur tími og sé ekkert athugavert við það þótt fólk dúlli við sig í aðdraganda jóla. Það er samt fróðlegt að velta fyrir sér orsökinni á ofangreindum breytingum.
Í markaðssamfélaginu sýna menn mikla hugkvæmni þegar búa þarf til nýjar neysluvenjur. Egill Helgason bendir á að nú sé rekinn stífur áróður fyrir bjórdrykkju á aðventu og jólum. Jólabjórinn er ein af þessum tiltölulega nýju neysluvenjum. Eins og Egill bendir á í pistli sínum á þótti einu sinni við hæfi að gæta hófs í neyslu áfengra drykkja á jólunum. Hátíðin átti að vera barnanna. Nú er öldin önnur og þeir sakaðir um afturhald og forræðishyggju sem leyfa sér að setja spurningamerki við þennan nýja jólasið.
Sumum finnst mikil óhæfa að gagnrýna hið mikla mjaltakerfi neysluhyggjunnar þegar þar er leitað nýrra leiða til að ná nytinni úr mjólkurkúm þess. Það kerfi er samt ábyrgt fyrir stórum hluta þeirra breytinga sem eru að verða á jólamenningu landsmanna.
Og ef verið er að breyta jólunum og aðdraganda þeirra til þess fyrst og fremst að auka neyslu, efnishyggju og misskiptingu í þjóðfélaginu, ættum við kannski að ræða þær breytingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.