Bankar sinni líknarmálum

DSC_0479 

Vítt og breitt um heiminn starfrækja kirkjur spítala einar og sér eða í góðri samvinnu við ríki, um árabil var aðalspítali Íslands rekinn af kaþólsku kirkjunni og þar að auki reistur fyrir söfnunarfé frá Evrópu, Landspítalinn í Reykjavík var ennfremur að hluta byggður fyrir fjármuni sem íslenskar konur söfnuðu, stór hluti tækjakosts á íslenskum sjúkrastofnunum er keyptur fyrir gjafafé og íslenska heilbrigðiskerfið væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki notið gjafmildi, örlætis og fórnfýsi hinna ýmsu líknarfélaga sem á landinu starfa.

Hér á landi starfrækir Þjóðkirkjan eina öflugustu hjálparstofnun þjóðarinnar, Hjálparstarf kirkjunnar, sem einnig sinnir líknarstarfi í útlöndum.

Í nýársprédikun sinni ræddi biskup Íslands hið bágborna ástand sem er á tækjakosti stærstu og mikilvægustu sjúkrastofnunar okkar. Hún sagði kirkjuna vilja „taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans".

Það er ekki nema gott og blessað að menn hafi skoðanir á þessum hugmyndum biskupsins og skiptist á þeim. Við skulum endilega ræða hvort það sé hlutverk kirkjunnar að standa í svona löguðu.

Tvö undanfarin ár hefur verið efnt til landssöfnunarinnar „Á allra vörum". Í fyrra var það sem safnaðist nýtt til að koma á stuðningsmiðstöð fyrir langveik börn með sjaldgæfa og ólæknandi sjúkdóma. Söfnunin gekk mjög vel og söfnuðust um 100 milljónir króna.

Bakhjarl söfnunarinnar var Landsbanki Íslands.

Nú er Landsbanki Íslands ekki líknarfélag en samt minnist ég ekki umræðna um hvort það væri í verkahring bankans að standa í svona söfnun.

Ég minnist þess heldur ekki að forráðamenn bankans hafi verið sakaðir um það af ráðamönnum þjóðarinnar að þeir væru að básúna eigin góðmennsku  með því að leggja söfnuninni lið eða að þingmenn hafi talað um að með því væri bankinn að taka pólitíska afstöðu.

Þaðan af síður minnist ég þess að Ríkisútvarpið hafi séð ástæðu til að fjalla um það í fréttaskýringarþætti  hvort bankinn væri ef til vill að nýta sér málstaðinn til að bæta ímynd sína.

Ef mig misminnir ekki fór engin umræða fram um það í fyrra hvort það ætti ekki einfaldlega að vera hlutverk ríkisins að sinna þörfum langveikra barna með ólæknandi sjúkdóma og því ætti ekki að „útvista verkefninu" til Landsbankans eða hvort bankinn gæti ekki alveg eins efnt „til söfnunar til að endurnýja ljósritunarvélar í stjórnarráðinu"  - eða hvort ekki mætti bara setja upp bauka í Hörpunni „undir frjáls framlög fyrir gleðipillur handa Mannanafnanefnd".

Það er líka ágætt að menn ræði um það hvort líta beri á Þjóðkirkjuna sem ríkisstofnun þótt hún sé sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og hvort það sé þá við hæfi að ríkisstofnun standi í svona söfnunum.

Ég er samt nokkuð viss um að ekki var rekið upp bofs um slíkt í fyrra - þó að Landsbankinn sé ríkisbanki.

Ekki hef ég á móti því að bankar styðji góð málefni og gleðst þegar þeim gengur vel á því sviði.

Það er samt umhugsunarvert ef það er þannig á Íslandi að þar sé sjálfsagðara að bankar sinni líknarmálum en líknarfélög.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur hitt naglann þráðbeint á höfuðið kæri Svavar, ég trúi ekki öðru en rykið fari að setjast og að allir eigi eftir að samgleðjast yfir góðri hugmynd Agnesar.

Kristín S. Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 23:51

2 identicon

Nú spyr sá sem ekki veit. Hvað lagði Landsbankinn sjálfur mikið fé í umrædda söfnun sem bakhjarl hennar?

Já og, hvað ætlar (þjóð)kirkjan að leggja sjálf mikið af mörkum?

Þá meina ég fyrir utan kostnað við almannatengla, sem varla ættu að fá borgað fyrir þessa slæmu hugmynd.

Andrés Kári (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 03:00

3 identicon

Sæll Svavar.

Þetta er athyglisverð færsla hjá þér og vert að velta fyrir sér.

Nú spyr sá sem ekki veit, fær Landsbankinn einhver framlög af fjárlögum ríkisins, líkt og Þjóðkirkjan?

Landsbankinn er fyrirtæki og fjölmörg fyrirtæki í þessum bransa standa að alls kyns söfnunum eða eru kostunaraðilar að hinu og þessu. Íslandsbanki er t.d. helsti bakhjarl Reykjavíkurmaraþons.
Ég lít ekki á Þjóðkirkjuna sem fyrirtæki, líkt og Landsbankinn er fyrirtæki. Í mínum huga er Þjóðkirkjan stofnun og jafnframt tel ég að líta megi að á hana sem opinbera stofnun þar sem hún er rekin fyrir almannafé, er ríkisstyrkt.

Ég tel gagnrýni umrædds þingsmanns, Sigríðar Ingibjargar alveg réttmæta og þess virði að velta fyrir sér. Er ekki óeðlilegt að stofnun sem að er ríkisstyrkt (og hefur farið fram á aukafjárveitingar) standi að söfnun fyrir aðra ríkisstofnun?
Glíma ekki allar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús á landinu við fjárskort? Hvers vegna að einblína á Landsspítlann?
Komið hefur ákall frá öryrkjum á facebook síðu Biskups. Ætlar kirkjan næst að beita sér fyrir bættum kjörum öryrkja?

Kristján (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 12:10

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll Kristján og þakka þér athugasemdina. Það er athyglisverð kenning að stofnanir sem fá framlög frá ríkinu megi ekki safna peningum til að bæta tækjakost ríkisrekinna sjúkrahúsa. Þá er t. d. búið að dæma úr leik Ríkisútvarpið en fáar stofnanir hafa lagt landssöfnunum allskonar meira lið en sú ágæta ríkisstofnun. Mér finnst að kirkjan eigi að taka málstað allra sem undir högg eiga að sækja, m. a. öryrkja. Þeir eru meðal þeirra þjóðfélagshópa sem farið hafa mjög illa út úr kreppunni. Bestu kveðjur

Svavar Alfreð Jónsson, 6.1.2013 kl. 12:54

5 identicon

Sæll aftur Svavar og þakkir fyrir áhugavert innlegg, sem er ekki síður vert að velta fyrir sér.

Með samanburðinn við ríkisútvarpið, myndi það ekki vekja athygli og jafnvel valda fjaðrafoki ef útvarpsstjóri myndi greina frá í ávarpi sínu (sem hann flytur þó ekki lengur) að ríkíssútvarpið ætlaði að setja af stað söfnun fyrir einhverja aðra ríkisstofnun? Alveg eins og gerðist núna með ávarps biskups?

Ef til vill gerir maður ósjálfrátt meiri kröfur á kirkjuna, ég veit það ekki. Og það kann að skýra að einhverju leyti þá umræðu sem hefur átt sér stað varðandi þetta mál og þá gagnrýni sem fram hefur komið. Kirkjan er ekki bara "einhver" stofnun, ef þannig má að taka til orða. Satt best að segja veit ég ekki hvernig á að koma orðum að því. Lengi vel leit ég á kirkjuna sem eitthvað fyrirbæri sem ætti að vera hornsteinn siðgæðis og siðferðis í samfélaginu, eitthvað sem væri hreint og beint. Mér fannst kirkjan bregðast því hlutverki sínu með málefni fyrrverandi biskups.

Í mínum huga er staða og hlutverk kirkjunnar eitthvað sem er afar vandmeðfarið og því er ég beggja blands varðandi orð biskups um söfnun fyrir Landsspítalann. En þetta er gott framtak og án efa sett fram af góðum og heilum hug en þetta vekur mann engu að síður til umhugsunar. Á kirkjan að taka svona afstöðu og vera í forsvari fyrir svona söfnun? Hvað næst? Fleiri safnanir fyrir aðrar stofnanir eða þjóðfélagshópa sem minna mega sín?

Svo má líka velta fyrir sér hvort kirkjan standi á einhverjum tímamótum og hvort hugsanlega séu breyttir tímar í vændum og hvort kirkjan ætli sér annað hlutverk í okkar samfélagi; að vera meira í brennidepli, vera meira í daglegri umræðu - ég veit það ekki.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála.

Takk aftur fyrir áhugaverðan pistill.
Bestu kveðjur til þín sömuleiðis.

Kristján (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 13:53

6 identicon

Íslensku kirkjuna hefur skort leiðsögn, sýn og virðingu síðan Herra Sigurbjörn lét af störfum.

Frú Agnes hafði ágætt tækifæri til að verða ANDLEGUR leiðtogi þjóðkirkjunnar. Þar var þörfin sannarlega brýn. Fyrstu mánuðina eða árin var nauðsyn að sýna að hún væri embættisins verð, og leiða kirkjuna á andans vegum upp úr dalnum dimma.

Að fyrsta verk hennar sem vekur athygli, sé að nota kirkjuna til að safna PENINGUM, er átakanlegt.

Þjóðin hrópaði og vonaði að nýr biskup tendraði ljós sem leiddi út úr niðurlægingu og kreppu undanfarinna ára. Færði kirkjunni fyrra hlutverk.

Svarið var: SÖFNUM PENINGUM. Hugmyndaskorturinn, skammsýnin og niðurlægingin verður ekki öllu átakanlegri.

.

Ekki skal hinsvegar gert lítið úr þörf Landsspítalans á betri búnaði, en hvers eiga t.d. Sjúkrahúsin í Vestmannaeyjum eða Húsavík að gjalda.

Standa þau fjær nýju peningaljósi kirkjunnar?

Víðir (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 17:05

7 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Takk Víðir og Kristján fyrir málefnaleg innlegg

Erna Bjarnadóttir, 7.1.2013 kl. 09:54

8 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar og gleðilegt nýtt ár.
Hver er þín skoðun á þessu máli þjóðkirkjunnar ?
Ég sé auðvitað að þú verð þetta, enda verður varla aftur snúið með þetta, en finnst þér að það hefði átt að fara aðra leið í ímyndarátaki kirkjunnar eða var þetta besta leiðin? Sérðu þetta fyrir þér sem framtíðarverkefni að safna fé til líknarmála?
Leggur þú að jöfnu Landsbankann, RÚV og Þjóðkirkjuna ? 
Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.1.2013 kl. 11:37

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæl, Kolla.

Þau sem halda að það séu einhver nýmæli eða hluti af skyndilegu ímyndarátaki að Þjóðkirkjan safni fé til líknarmála eru ekki vel að sér um starfsemi Þjóðkirkjunnar.

Um áratuga skeið hefur Þjóðkirkjan starfrækt eina öflugustu líknarstofnun landsins, Hjálparstarf kirkjunnar. Verkefni þess eru bæði hér innanlands og utan. Þau eru m. a. fjármögnuð með peningum úr söfnunum, t. d. árlegri landssöfnun sem fram fer á aðventunni.

Í nóvember ár hvert ganga unglingar í fermingarfræðslu kirkjunnar í hús um land allt til að safna peningum til líknarmála.

Í mínum söfnuði höfum við nú um tveggja ára skeið safnað peningum í guðsþjónustum fyrir vinasöfnuð okkar í Kenýu sem vantar þak á kirkjuna sína.

Þar er ennfremur starfandi líknarsjóðurinn Ljósberinn sem styrkir bágstadda hér í bænum. Hann er fjármagnaður með frjálsum framlögum og peningum sem safnað er á árlegum styrktartónleikum þar sem allir gefa vinnu sína.

Í desember síðastliðnum áttum við gott samstarf við Mæðrastyrksnefnd, Rauða krossinn og Hjálpræðisherinn um aðstoð við illa statt fólk í jólamánuðinum. Sú hjálp var engin auglýsingamennska, hvorki af hálfu Þjóðkirkjunnar né hinna líknarfélaganna, þori ég að fullyrða.

Þjóðkirkjan hefur því svo sannarlega safnað fé til líknarmála um mun án efa halda áfram að gera það á meðan þörf er fyrir slíkt starf.

Ég legg ekki að jöfnu Þjóðkirkjuna, RÚV og Landsbankann. Þessar stofnanir eiga það þó sameiginlegt að hafa safnað fé til líknarmála. Mér finnst það ekki standa Þjóðkirkjunni fjær en hinum stofnunum að vinna að slíkum verkefnum.

Bestu kveðjur,

Svavar Alfreð

Svavar Alfreð Jónsson, 7.1.2013 kl. 13:16

10 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar og takk fyrir svarið..og fyrir að birta kommentið. Það er rétt hjá þér að ég er ekki sérfróð um kirkjuna þó ég hafi þjónað henni í kórstarfi langt á þriðja áratug og verið í henni í fyrir 60 ár. Ég veit þó eins og allir um Hjálparstarf kirkjunnar og tel það fremst á meðal jafningja þ.e. hún ber af í því starfi vegna framsýni í framkvæmd fátækraaðstoðar. Þar skarar Vilborg Oddsdóttir langt yfir aðra í sinni skeleggu framgöngu. Söfnun fyrir svöng börn og þaklausar kirkjur eru líka svona " ímyndarverkefni" sem er vel við eigandi, hafandi í huga boðskap Krists. Ég er samt þeirrar skoðunar að nýjasta verkefnið,Rísispítalinn, sé meira markaðsátak í ljósi hrakfara kirkjunnar í rekstri hennar síðastliðin ár. Tel að þetta sé frekar verkefni fyrir Lionshreyfingu eða Kiwanis oþh samtaka enda spítalarnir lengi verið farvegur fyrir góðverk þeirra. Þetta minnir meira á athyglisþörf en góðvilja, þó málefnið sé nauðsynlegt. En ég er viss um að þetta gengur vel. Við erum helst tilbúin að gefa Íslendingar þegar við græðum mest á því sjálf ;)...Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 11.1.2013 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband