Heimskan og illskan

DSC_0034

Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer (1906 - 1945) hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Bonhoeffer var  heill, frjór og gagnrýninn jafnt í fræðastarfi sínu sem lífi. Hann er þekktur fyrir beinskeytta gagnrýni sína á trúarbrögðin þótt hann tæki trú sína á Jesú Krist mjög alvarlega.  

Bonhoeffer tilheyrði þeim armi evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi sem hafnaði nasismanum og tók einarða afstöðu gegn Hitler. Frá 1943 var hann fangi nasista og tveimur árum síðar hengdu þeir hann í Flossenburg fangabúðunum.

Bonhoeffer var afkastamikill rihöfundur. Auk guðfræðinnar orti hann ljóð. Að undanförnu hef ég verið að lesa ævisögu hans, ritaða af vini hans og samstarfsmanni, Eberhard Bethge. Þar rakst ég á texta sem Bonhoeffer ritaði um heimskuna. Mér þótti hann magnaður og eiga erindi til okkar þótt maður skilji hann kannski best í ljósi þess ástands sem ríkti í Þýskalandi nasismans.

Skrif sín um heimskuna byrjar Bonhoeffer á því að fullyrða að hún sé hættulegri gæskunni en illskan. Hann bendir á að hægt sé að efna til mótmæla gegn illskunni, hana megi afhjúpa og stöðva með ofbeldi.

Illskan skilji eftir sig ákveðin ónot hjá fólki sem geti vakið hjá því löngun að hrista hana af sér.

Bonhoeffer segir okkur mun varnarlausari gagnvart heimskunni. Mótmæli vinna ekki á henni og rök eru gagnslaus því heimskinginn er mjög gagnrýninn á staðreyndirnar ef þær eru í mótsögn við fordóma hans. Heimskinginn sannfærir sjálfan sig og efast ekki um sig - en það gerir illmennið þó stundum.

Bonhoeffer segir að til að sigrast á heimskunni verði maður að skilja eðli hennar. Hann heldur því fram að heimskan sé ekki fyrst og fremst vitsmunalegur galli. Menn geti verið heimskir þótt þeir séu gæddir miklum vitsmunum. Að sama skapi kveðst hann vita um fólk sem sé frekar tregt vitsmunalega en fjarri því að geta kallast heimskt. Niðurstaða Bonhoeffers er sú að heimskan sé bilun í manninum sjálfum.

Það er jafnframt kenning hans að heimskan sé ekki meðfædd. Menn eru ekki heimskir en verða það og hægt er að gera þá heimska. Heimskan er sennilega félagslegur vandi með sálrænum hliðarverkunum.

Alltaf þegar sterku valdi er beitt, hvort sem það er pólitískt eða trúarlegt, breiðir það út heimsku á meðal manna. Vald er óhugsandi án heimsku manna. Það hefur yfirbugandi áhrif á okkur og sviptir okkur innra sjálfstæði.

Þvermóðska heimskingjans sýnir ekki sjálfstæði hans. Þegar rætt er við hann kemur í ljós að í raun er ekki verið að tala við hann, ekki hann persónulega, heldur slagorðin og frasana sem náð hafa tökum á honum. Heimskinginn er í álögum. Hann hefur orðið fyrir misnotkun. Hann er viljalaust verkfæri, fær um að vinna hverskonar illvirki vegna þess að hann er of heimskur til að þekkja það illa.

Besta vopnið gegn heimskunni er ekki upplýsing heldur er eina leiðin til að sigrast á henni sú að frelsast frá henni, segir Bonhoeffer.

(Textann má lesa á frummálinu hér.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir þessu mætti segja trúarbrögð ákveðna heimsku og heimsku trúarbrögð. 1900 árum fyrr komst annar ágætur maður að svipaðri niðurstöðu,"fyrirgefið þeim því þeir vita ekki hvað þeri gjöra" en varð svo fyrir því að "heimskan" upphafði hann sjálfan til trúarbragða!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband