15.1.2013 | 22:52
Siðferði hægri og vinstri manna
Jonathan Haidt er prófessor í sálfræði við New York háskólann í Bandaríkjunum. Kenningar hans um sálfræði siðferðisins eru umtalaðar. Haidt heldur því fram að siðferði sé meðfætt og hluti af eðli mannsins. Hvert nýfætt barn hefur í sér siðferðilegan grundvöll. Hið meðfædda siðferði okkar er ekki óumbreytanlegt og hægt er að byggja við og ofan á þennan grunn sem hverri manneskju er gefinn.
Fræðimenn eru ekki allir sáttir við þessar kenningar Haidts. Sumir saka hann um að hafa of vélræna sýn til siðferðislífs mannsins og gera lítið úr getu hans til að taka siðferðilegar ákvarðanir byggðar á skynsamlegri yfirvegun. Haidt telur að þáttur skynseminnar í því hafi verið ofmetinn. Siðferði mannsins byggist að hans mati fyrst og fremst á tilfinningum og innsæi.
Hægt er að finna samsvaranir við þessar kenningar Haids í kristni þar sem litið er þannig á að hæfileikinn til að greina á milli góðs og ills sé meðfæddur. Lögmál Guðs er í hjörtum mannanna. Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér," segir í Sálmum Davíðs (40, 9) og í Hebreabréfinu stendur: Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau." (10, 16)
Í fyrra sendi Haidt frá sér bókina The Righteous Mind". Þar gerir hann grein fyrir þessum siðferðisgrunni mannsins og notar hann til að skýra muninn á pólitískri hugmyndafræði á okkar tímum. Haidt heldur því fram að sá grunnur samanstandi af sex siðrænum gildum; umhyggju, sanngirni, frelsi, tryggð, stjórnvaldi og hreinleika.
Haidt segir að þeir sem flokki sig til vinstri í stjórnmálum einbeiti sér að fyrstu þremur gildunum en hafi tilhneigingu til að vanrækja hin. Hinir sem aðhyllast íhaldssamari stjórnmálaskoðanir eigi auðveldara með að nýta sér öll gildin sex. Þar með byggi þeir á breiðari siðrænum grunni en hinir. (Hér má sjá ágæta umfjöllun um bókina.)
Í viðtali sem ég las við Haidt í þýska tímaritinu Der Spiegel (Nr. 2 7. 1. 13 bls. 114 - 118) skilgreinir hann sig sem miðjumann. Hann er demókrati, ekki repúblikani og kaus Obama. Á námsárunum var hann vinstrisinnaður eins og hinir og þekkti enga hægri menn.
Í rannsóknum sínum segist hann hafa komist að því að siðferði hægrisinnaðra sé ekki lakara en vinstrimanna. Báðir hóparnir vilji vinna að betra samfélagi, hvor með sínum aðferðum og áherslum.
Haidt lýkur viðtalinu með því að benda á að siðferðilega stöðugt þjóðfélag þurfi bæði vinstri og hægri áherslur. Þær séu eins og jin og jang. Umhugsunarvert sé þegar andstæðurnar skerpist svo í stjórnmálunum að fylkingarnar hætti að sýna hvor annarri virðingu og skilning.
Á síðustu tólf árum hafi öfgar aukist í Bandaríkjunum. Þeim fari fækkandi sem staðsetja sig á miðjunni. Þingmenn hagi sér eins og meðlimir í gengjum. Sú þróun sé hættuleg - ekki síst á krepputímum.
Er þetta kannski líka þróunin á Íslandi?
Athugasemdir
Sæll Svavar
Þakka áhygaverða umfjöllun. Ég hef ekki sjálfur lesið Haidt en er fyrirfram sammála því að munurinn á vinstri- og hægrimönnum sé að miklu leyti meðfæddur, einnig að það sé munur á siðferðiskennd þessara tveggja hópa. Ekki þannig að annar sé verri en hinn og einmitt þess vegna eru báðar stefnur nauðsynlegar heilbrigðu samfélagi.
Hins vegar þótti mér sex-þætting siðferðisgrunnsins í fyrstu nokkuð dularfullur. Fyrstu þættirnir þrír eru svo sem í góðu lagi, allir geta verið sammála um þá (umhyggju, sanngirni, frelsi) en síðari þættirnir nokkuð loðnari (tryggð, stjórnvaldi og hreinleika). Hvaða siðferðisgildi geta kallast "stjórnvald" eða "hreinleiki"?
Einnig þótti mér varasöm sú niðurstaða hans að vinstri menn séu sterkari á fyrstu þremur en hægri menn jafnvígir á öll sex. En það má svo sem vera rétt, fyrstu þrjú gildin eru að mínu mati mun mikilvægari en hin þrjú (enda er ég vinstri maður).
Stundum hefur verið sagt að vinstri/hægri sé spurning um einstakling vs. samfélag. Undirliggjandi er þá sú hugsun að vinstri menn hugsi um samfélagið en hægri menn um einstaklinginn. En í rauninni er þetta ekki svo einfalt. Fyrstu þrjú gildin sem hér um ræðir eru einstaklingsgildi frekar en samfélagsgildi, þ.e. þau snúast um "mannréttindi", einstaklingsins, hamingju einstaklingsins.
Það eru gildi 4 og 5 sem eru samfélagsleg, "tryggð" og "stjórnvald" eins og þú kallar þau. Ég kíkti á grein um Haidt á Wikipedia og fékk aðeins betri innsýn í hvað þessi hugtök merkja. "Tryggð" er kannski mælikvarði á hópfestu, tryggð við hópinn (en ekki við t.d. einstaklinga). "Stjórnvald" er svo mælikvarði á hlýðni við yfirvald, viðurkenningu á nauðsyn og réttmæti yfirvalds.
Síðasta hugtakið, "hreinleiki", er einnig athyglisvert: Þetta virðist tengjast helgun, að afmarka það sem hreint er. Andstætt getunni/viljanum til að þola hið óhreina, hið ógeðfellda. Samkvæmt grein sem ég sá á New Scientist fyrir nokkru þá var þetta víst einmitt einkenni á hægri mönnum umfram vinistri menn: Þeir fundu fyrr fyrir "ógeði" á því sem var óhreint, ófullkomið.
Samfélagið þarfnast samspils þessara þátta, samspils einstaklingshyggju og samfélagshyggju. En hefðbundin skipting þessara þátta milli vinstri og hægri manna er kannski ekki svo augljós.
Annars þykir mér fyndið hvað óhlýðni og ofvaxin réttlætiskennd er algeng meðal vinstri manna (og fer hrikalega í taugarnar á hægri mönnum) á meðan foringjahlýðni og hóphlýðni er algeng meðal hægri manna (og er vinstri mönnum óskiljanleg). Sést vel þegar VG/SF eru borin saman við Sjálfstæðisflokk!
Allt í allt mjög athyglisvert, skemmtileg pæling svona í morgunsárið.
Brynjólfur Þorvarðsson, 17.1.2013 kl. 07:10
Bestu þakkir fyrir frábærar athugasemdir, Brynjólfur.
Ég er nú enginn sérfræðingur í þessum kenningum Haidts en finnst margt áhugavert í þeim. Ekki er ég viss um að hann haldi því fram að hægri menn séu „jafnvígir” á allan þennan sexfalda siðræna grunn mannsins. Hann útskýrir þetta nokkuð vel í viðtalinu í Spiegel sem ég vitna í. Þar segir hann að kenningin um siðferðisgrunninn sé lýsandi (deskriptív) en ekki leiðbeinandi (normatív). Hann geri ekki upp á milli þessara sex siðrænu gilda eða raði þeim upp í stigveldisröð.
Haidt heldur því fram að hægri menn séu ófeimnari en vinstri menn við að skírskota til allra gildanna sex, líka tryggðar, stjórnvalds og hreinleika. Það geti stundum skýrt velgengni þeirra í kosningum – og þá held ég að Haidt sé kannski ekki síst með forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í huga.
Auðvitað hafa öll þessi gildi verið misnotuð og þá ekki síst þrjú síðastnefndu og þá er skammt til öfga í báðar áttir. Varðandi stjórnvaldið höfum við til dæmis annarsvegar alræðisríki þar sem krafist er blindrar hlýðni við yfirvöld og hins vegar ringulreið bananalýðveldisins þar sem lög og regla er að engu höfð.
Hreinleiki getur átt við hreina kenningu eða hreina þjóð – og dæmin sýna að þennan þátt í okkur er mjög auðvelt að misnota. Ég er samt ekki frá því að hann sé til staðar, einhver hreinleikaþrá. Það er til dæmis mjög auðvelt að tala við börn um gildi hreinnar náttúru. Í þeim málaflokki eru margir vinstri menn mjög ófeimnir við að skírskota til hreinleikans. Annað dæmi sem Haidt nefnir er áherslan á hrein matvæli – sem verður held ég sífellt algengari og þá ekki síður meðal vinstri en hægri manna.
Varðandi tryggðina er þetta kannski spurning um hverju menn eigi að sýna tryggð. Ekki mæli ég foringjadýrkun sumra hægri manna bót, en er ekki verið að flæma Jón Bjarnason úr VG vegna þess að hann sýnir hvorki stjórnarsáttmálanum né leiðtogum flokksins nægilega tryggð?
Svavar Alfreð Jónsson, 17.1.2013 kl. 11:40
Jú víst er það að öfgarnir geta verið hættulegir. Það er einnig mjög misjafnt hvað menn flokka undir vinstri og hægri - t.d. er VG á vissan hátt "geðklofa" flokkur þar sem vinstri stefna (t.d. verkalýðshreyfing, tekjudreifing) og umhverfisvernd eiga á yfirborðinu lítt sameiginlegt. Undir niðri höfða þær kannski til þátta sem eru sameiginlegir "vinstri" mönnum.
Pælingarn um "hreinleikann" ættu að ég held að ná inn undir marga af hinum þáttunum. Minnir mig á Kierkegaard, eins og ég skildi kallinn, þ.e.a.s. nautnaseggurin í andstöðu við fagurkerann. Við sækjumst öll eftir og njótum fegurðar í sem víðastri merkingu - nokkurs konar hreinleika tilverunnar - sem getur krafist þess að við afneitum eða takmörkum fullnægingu annarra nautna.
Persónulega held ég að fegurðarskyn, tilfinningin fyrir "hreinleika", liggi undir mjög miklu af tilfinningum okkar og hegðun.
það sem mér finnst þó merkilegast við Haidt og pistilinn frá þér er einmitt þessi hugsun: Vinstrimenn og hægrimenn eru hvorir tveggja nauðsynlegir og "jafngóðir". Heilbrigt samfélag krefst þessara tveggja póla í heilbrigðri togstreitu um hina sameiginlegu miðju.
Á vissan hátt hefur sannfæring mín um að þannig sé málum háttað leyft mér að verða mun róttækari í málflutningi - ég veit að ég er á jaðrinum og mér finnst það allt í lagi af því að ég veit að það eru nógu margir í miðjunni til að rétta samfélagið af, sía öfgarnar frá jöðrunum og tryggja hina bestu stefnu þegar upp er staðið.
En allt er þetta grundvallað á frjálsum og opnum skoðanaskiptum, málfrelsi, hugsanafrelsi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þar eru mikilvægustu "siðferðisgildi" samfélagsins, allt annað kemur sjálfkrafa í kjölfarið.
Brynjólfur Þorvarðsson, 17.1.2013 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.