Allt nema sannleikann

DSC_0303 

Um árabil hafa nánast daglega birst greinar um Evrópusambandið í víðlesnasta dagblaði Íslands sem borið er ókeypis inn á stóran hluta heimila landsins.

Bæði í Reykjavík og á Akureyri starfrækir ESB Evrópustofu með fimm starfsmönnum sem hafa það hlutverk að miðla „hlutlægum upplýsingum um Evrópusambandið".  

Sendinefnd ESB á Íslandi heldur úti fræðslu- og upplýsingastarfi fyrir Íslendinga. Á heimasíðu nefndarinnar má meðal annars finna krækju á sérstakan vef með nýjustu upplýsingum um umsókn Íslands að ESB.

Evrópusamtökin íslensku standa fyrir upplýsingastarfi um ESB og evrópska samvinnu.

Evrópufræðum er sinnt við íslenska háskóla, t. d. í hinu átta ára gamla Evrópufræðasetri Háskólans á Bifröst.

Mörg undanfarin ár hafa fá mál verið fyrirferðarmeiri í íslenskum fjölmiðlum, spjallþáttum, fréttum og fréttaskýringum en Evrópumál.

Aragrúi bóka hefur verið ritaður um Evrópusambandið og enginn kæmist yfir að lesa öll þau ósköp sem finna má um Evrópusambandið á netinu.

Þrátt fyrir allt þetta er hamrað á því að Íslendingar hafi engar forsendur til að taka „upplýsta ákvörðun" um það hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið.

Þrátt fyrir allt þetta upplýsingastarf, alla þekkinguna sem búið er að gera aðgengilega fyrir þjóðina, er henni sagt að hún hafi hvorki vit né forsendur til að hafa skoðun á því hvort hún hafi áhuga á að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Margt má finna að Evrópusambandinu. Tæpast verður því þó haldið fram með nokkurri sanngirni að ESB sé leyniregla. Nóg er til af upplýsingum um það. Lagabálkur þess er öllum aðgengilegur, sjálf frumheimildin um starf og eðli ESB, hvorki fleiri né færri en 100.000 blaðsíður.

Því er haldið fram að til að geta haft skoðun á aðild Íslands að ESB þurfi að liggja fyrir aðildarsamningur. Í raun sé ekkert að marka öll framantalin gögn og heimildir um ESB. Aðildarsamningurinn geti breytt því öllu.

Íslendingar, 300.000 manna þjóð, sóttu um aðild að Evrópusambandinu, samfélagi 500 milljóna manna,  undir því yfirskini að verið væri að kanna hvernig þeir gætu lagað þetta risavaxna fyrirbæri að þörfum sínum.

Ísland er sennilega fyrsta ríkið sem sótti um aðild að ESB án þess að vilja endilega aðild að ESB heldur til að kanna málið, skoða í pakkann og afla upplýsinga.

Ísland er trúlega fyrsta þjóðin sem sótti um aðild að Evrópusambandinu á þeim forsendum að hún fái að velja það sem henni hentar úr þessum 100.000 síðum lagabálks sem þetta 500 milljóna manna samfélag hefur komið sér saman um.

Var einhver að tala um þjóðrembu?

Og talandi um hana: Þegar því er haldið fram að aðildarferli ríkja að ESB felist í að semja um undanþágur og sérlausnir telja menn sig vita betur en ESB hvernig það gengur fyrir sig.

Það hefur verið margítrekað af ESB, að ríki sem sækja um aðild að sambandinu verði að samþykkja og innleiða allan lagabálkinn. Síðast fyrir um það bil mánuði sá ráðherraráð ESB ástæðu til að árétta það sérstaklega við Ísland.

Kostir og gallar aðildar að Evrópusambandinu liggja fyrir í öllum meginantriðum. Lagabálkurinn, allar 100.000 síðurnar, er óumsemjanlegur. Aðildarferlið felst ekki því að semja sig frá honum heldur þvert á móti, sýna fram á hvernig og hvenær umsóknarríkið ætlar að taka hann upp og innleiða.

Ranghugmyndir Íslendinga um það hvernig ríki fá aðild að Evrópusambandinu eru ekki sambandinu að kenna. Þar er við aðra að sakast. Evrópusambandið hefur aldrei reynt að fela hvernig það ferli lítur út sem til aðildar leiðir. Sambandið hefur meðal annars gefið út bækling til að skýra það út fyrir almenningi. Sá bæklingur nefnist Understanding Enlargement og er aðgengilegur á netinu. Þar segir á bls. 9:

Accession negotiations concern the candidate's ability to take on the obligations of membership. The term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 100,000 pages of them. And these rules (also known as the acquis, French for "that which has been agreed") are not negotiable.

Á sömu síðu er þessu ferli lýst nánar:

Negotiations are conducted between the EU Member States and each individual candidate country and the pace depends on each country's progress in meeting the requirements. Candidates consequently have an incentive to implement the necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country's political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. Support from civil society is essential in this process.

Enginn hörgull er á upplýsingum um Evrópusambandið og kosti og galla aðildar Íslands að því. Evrópusambandið er engin leyniregla. Lönd sem vilja þangað inn verða að taka upp og innleiða lagabálk Evrópusambandsins sem það segir sjálft að sé óumsemjanlegur. Sú innleiðing hefur stundum í för með sér verulegar og erfiðar breytingar á stjórnmála- og efnahagskerfi umsóknarríkjanna.

Evrópusambandið segir það skyldu stjórnvalda að útskýra ástæður þeirrra breytinga fyrir borgurum sínum. Stuðningur þeirra sé kjarnaatriði í þessu ferli.

Íslensk stjórnvöld virðast vera ósammála Evrópusambandinu um hvernig þetta gengur fyrir sig. Þau halda því fram aðildarferlið sé fyrst og fremst könnun.

Varla er hægt að ætlast til þess af íslenskum stjórnvöldum að þau sinni þeirri skyldu sinni að upplýsa okkur borgarana um ástæður þeirra oft verulegu og erfiðu breytinga á stjórnmála- og efnahagskerfi okkar sem aðildarferlinu fylgja. Til þess að geta það þyrftu þau að byrja á því að viðurkenna að eitthvað slíkt ætti sér stað.

Og íslensk stjórnvöld vita, að til þess að hafa stuðning þjóðar sinnar við ferlið  má segja henni allt um það - nema kannski sannleikann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þennan pistil orð í tíma töluð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2013 kl. 13:58

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Tek undir það.

Helga Kristjánsdóttir, 21.1.2013 kl. 21:59

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Trikkið er náttúrlega information overflow. Þ.e. Að hafa gnógt af stofnanatorfi frammi og svo misvísandi að engar reiður verða hafðar á. Kansellínmálið látið bjóða upp á víðtækar túlkanir sem hljóma þveröfugt við lestur en fyrir dómstólum.

Helsta áróðursbragð þessa öfgatrúarbragða er að sannfæra fólk um að það sé ekki á sveit setjandi og geti ekki ráðið sér sjálft, búi í þjóðleysu með ónýtan gjaldmiðil. Þetta virkaði til að ná herslumuninum í Svíþjóð árið 1994-5. Það er fyrirmyndin. Koma inn sjálfsfyrirlitningu og sjálfsafneitun þjóðarinnar og ræna hana sjálfsvirðingunni í orði.

Ekki ósvipað og Kristindómurinn leggur hlutina upp. Er það ekki?

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2013 kl. 07:43

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir mjög góðan og vandaðan pistil Svavar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2013 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband