27.1.2013 | 21:14
Róbotar eiga engan hvíldardag
Þessa dagana er ég að lesa stórmerkilega bók, Economics of Good and Evil. The Quest for Economic Meaning from Gilgamesh to Wall Street" (Oxford, 2011 ISBN 978-0-19-976720-5) eftir tékkneska hagfræðinginn Tomas Sedlacek. Hún er skemmtilega skrifuð ferðalýsing um hagsögu mannsins sem gefur lesandanum fullt af aha!"-augnablikum.
Í dag er sunnudagur, líka nefndur drottinsdagur eða jafnvel hvíldardagur, því alla vega fyrr á tímum var ætlast til þess að fólk hvíldi sig á þeim degi. Nú á dögum er hvíldin hálfgert olnbogabarn í menningunni.
Í bókinni rifjar Sedlacek upp að alþjóðlega heitið á vélmenni, róbot, er komið úr móðurtungu hans, tékknesku. Þar þýðir robota" vinna". Maður sem einungis er vinnuafl er róbot.
Tilvera róbotanna er hvíldardagslaus. Sedlacek bendir líka á að hvíld sabbatsins, hins gyðinglega hvíldardags og forvera sunnudags kristinna manna, á ekki að vera vörn gegn einhvers konar ofhitnun. Hvíldardagshvíldin er ekki hugsuð út frá forsendum vinnunnar. Hvíldardagurinn er ekki tæki til að auka og bæta afköst. Í Biblíunni er manneskjan ekki vél. Hvíldardagurinn var stofnaður mannanna vegna en ekki vinnunnar.
Hvíldardagurinn er verufræðilegt hlé". Sjálfur hvíldist Guð hinn sjöunda dag, ekki af því að hann væri þreyttur eða til að hlaða sig orku. Hann hvíldist vegna þess að verki hans var lokið og nú vildi hann njóta þess og gleðjast yfir því.
Tilgangur hvíldardagsins er ánægjan og nautnin. Sex daga höfum við til að vinna til að eiga í okkur og á. Sex daga tók að skapa þessa tilveru og sex daga í hverri viku fáum við til að halda áfram að skapa.
Eftir þá sex daga kemur síðan einn þar sem við eigum ekki að vinna heldur reyna að njóta alls þess góða sem þessi ófullkomna sköpun hefur upp á að bjóða.
Sedlacek segir:
When I met one of my current friends, I asked what he does, as is common in conversation. He answered me with a smile: "Nothing. I´ve got it all done." And he wasn´t even a millionaire or a gentleman of means. I´ve been thinking about that ever since. Our hurrying, the economy of our civilization, has no goal at which it may rest. When do we say: "We´re done"?
(Tomas Sedlacek, Economics of Good and Evil, Oxford 2011, bls. 89 - 90)
Myndin er af Glæsibæjarkirkju í Kræklingahlíð.
Athugasemdir
Ég veit ekki betur en að lögð sé sterk áhersla á að lúta yfirvaldi, vinna og greiða skatta í NT. Þessu er nuddað inn hvar sem tilefni gefst. Þrælahald er sjálfsagt og viðurkennt og auðmýkt hömruð inn.
Finnst þetta ekki fara heim og saman við niðurstöður þessa manns. Nt er Rómversk smíð af öllu að sjá og andgyðinglegt í flestu samhengi.
GT segir Guð hafa hvilst á sjöunda degi og það gefið sem fordæmi fyrir menn. Hvers vegna svo voldugt fyrirbrigði sem almættið þarf að hvílast er óskiljanlegt í samhenginu og einnig vantar skýringu á því hvað almættið gerði að lokinni þessari hvíld. Hélt hamm regluna þegar hann lét rigna í 40 daga og nætur?
Rauði Ráðurimn er umdirgefni við yfirvald og óttinn við það. "Gerðu eins og þér er sagt eða hafðu verra af."
Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2013 kl. 21:41
Takk fyrir fína grein Svavar, þarf að muna eftir þessari bók.
Að hvíldardagurinn er fyrir manninn til að hvílast kemur fram í NT svo ég sé ekki hvernig Jón Steinar fær þessa neikvæðu sýn; á NT held að þessi sýn segi meira um Jón Steinar en um NT. Auðmýkt er að mínu mati af hinu góða; er hvatning til umburðarlyndis og að koma vel fram við aðra. Hefðu kannski postularnir átt að hvetja til vopnaðrar baráttu gegn þrælahaldi rómverja eins og Spartacus? Mér finnst það engan veginn passa við boðskap Krists sem snýst um að breyta hugarfari fólks, það er besta aðferðin til að fá betra samfélag að mínu mati. Að segja að NT er rómversk smíð er ekki hægt að taka alvarlega og ég efast um að það sé til einn einasti fræðingur í GT eða NT sem tæki undir þá fullyrðingu.
Mofi, 28.1.2013 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.