4.2.2013 | 13:53
Eftir EFTA
Eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu sáum við utanríkisráðherra Íslands skælbrosandi í faðmlögum við Tim Ward, aðallögfræðing Íslands í málinu.
Forsætisráðherra landsins brast í dans.
Varla hafði hláturinn hljóðnað og dansinn hætt að duna þegar þau tilmæli voru út gefin, að þjóðin ætti að stilla öllum fagnaðarlátum í hóf. Áttu margir fullt í fangi með að kæfa hlátrana, skiluðu kampavíninu og fengu sér í staðinn frambærilegt freyðivín eins og einhver orðaði það í útvarpinu.
Jafnframt bárust þau boð frá hæstu embættum landsins að nú væri ekki tíminn til að leita sökudólga.
Að því sögðu hófu sömu ráðamenn vísifingur á loft og tóku að benda á sökudólga; Davíð (varð einhver hissa?), eigendur Landsbankans gamla, fyrri ríkisstjórn, Árna Matt, Geir Haarde, Breta, Hollendinga, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og síðast en ekki síst Norðurlandaþjóðirnar eða eins og það er orðað í Fréttablaði dagsins:
Icesave-málið var þeim að kenna sem stóðu fyrir rangri stefnu í stjórmálum.
Undanfarin ár hefur umræðan um Icesave á löngum tímabilum tröllriðið fjölmiðlum og fyllt netsíður. Þingmenn töluðu sig raddlausa um málið. Í tvígang hefur verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um það.
Frá upphafi hefur verið fjallað um Icesave með allskonar pólitískum spuna, blekkingum og stundum tandurhreinni lygi. Þannig mál verða kannski alltaf óskýr og erfitt að greina kjarnann frá hisminu.
Þó held ég að menn séu dálítið að vanmeta vitsmuni og skynsemi íslensku þjóðarinnar þegar sú speki er borin á borð fyrir hana, að aldrei hefði þurft að koma til þessara vandræða ef Icesave hefði ekki verið stofnað eða ef bankarnir hefðu aldrei verið einkavæddir.
Það er svona svipað og að segja, að bílarnir hefðu jú aldrei lent í árekstri ef menn hefðu látið ógert að framleiða þá eða byggja verksmiðjurnar þar sem bílarnir voru búnir til.
Þegar Landsbankinn stofnaði Icesave-reikningana, fyrst í Bretlandi en síðan í Hollandi korter fyrir Hrun, vakti það aðdáun og hrifningu margra. Vorið 2008 tók fjármálaeftirlitið íslenska þátt í auglýsingapésa um Icesave, sama ár valdi Moneyfacts ein öflugasta og vinsælasta fjármálavefsíðan í Bretlandi" Icesave-reikninga Landsbankans bestu netreikningana og árinu áður hafði Landsbankinn verið útnefndur Markaðsfyrirtæki ársins" af ÍMARK, félagi íslensks markaðsfólks.
Ekki minnist ég þess að álitsgjafar, fjölmiðlar, stjórnvöld, eða fræðimenn hafi gert háværar athugasemdir við alla þá gæðastimpla sem búið var að gefa þessu framtaki.
Ég efast um að hægt sé að ætlast til þess með nokkurri sanngirni að almenningur hafi haft forsendur til að beita sér gegn því að Icesave hafði orðið til.
Tilurð Icesave-reikninga Landsbankans og einkavæðing íslensku bankanna eru mál sem eru vel skoðunar virði. EFTA-dómstóllinn var samt ekki að fjalla um þau. Þar voru til umfjöllunar þær ásakanir Breta, Hollendinga og Evrópusambandsins, að íslenska ríkið hefði brugðist rangt við gjaldþroti Landsbankans, það hefði brotið reglur um innistæðutryggingar og mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni.
Dómurinn sýknaði Ísland af öllum þeim ákærum.
Íslenskra ríkinu bar ekki lagaleg skylda til þess að greiða þessar kröfur. Þær voru með öðrum orðum ólöglegar. Ekki bætir það framferðið að þeim fylgdu hótanir sem ógnuðu efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.
Í skugga þessara hótana er að sjálfsögðu ekki hægt að gera lítið úr þeirri þröngu stöðu sem íslensk stjórnvöld voru í eftir fall bankanna. Ekki hefur verið öfundsvert að takast á við þann nöturlega veruleika. Ég efast ekki um góðan vilja ráðamanna, bæði í fyrri ríkisstjórn og í þeirri sem nú situr. Ég er heldur ekki í vafa um að báðum urðu á mistök.
Mistök núverandi stjórnvalda eru meðal annars þau, að taka undir óréttmætar kröfur á íslensku þjóðina og taka þátt í að þvinga hana til að greiða skuldir sem ekki voru hennar.
Mistök stjórnvalda voru þau að hafa stóran hluta þjóðarinnar fyrir rangri sök; því var haldið fram að þau sem ekki vildu greiða þessar kröfur væru óheiðarlegt fólk því það vildi ekki greiða skuldir sínar. Því var jafnvel haldið fram að kenna þyrfti fólki siðferðilega lexíu með því að skerða lífskjör þess og næstu kynslóða.
Og enn heyrist sagt, að þau sem höfnuðu Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslunum hafi verið á móti því að reyna að semja um málið. Þá er litið framhjá því, að enda þótt samningsvilji geti verið til staðar þýðir það ekki að fólk samþykki afarkosti.
Síðan Hrunið varð á Íslandi hafa ríkisstjórnir sinnt viðamiklu björgunarstarfi. Það er risavaxið verkefni. Margt hefur áunnist en björgunarsveitir geta líka gert herfileg mistök.
Þá nægir ekki að afsaka sig með því að benda á þann sem henti frá sér logandi sígarettunni og kveikti skógareldinn.
Athugasemdir
Svavar excellent útskýring á þessu IceSave ferli, en vonadi förum við að hætta að tala um það, en sennillega verður leiksýningum framlengt í það minsta til kosningana í vor.
Svo verður klapplið sem vill halda áfram leiksýningum og koma JóGrímu fyrir dóm fyrir afglöp í starfi.
Say tuned for that episode.
Kveðja frá Las Vegas.
Jóhann Kristinsson, 9.2.2013 kl. 03:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.