Jónas og kristnu gildin

DSC_0213 

Ég er sammála þeim mikla meirihluta fulltrúa á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem sá að sér og felldi út einstrengingslegt og óheppilega orðað ákvæði um að öll lagasetning á Íslandi ætti að taka mið af kristnum gildum og hefðum.

Ég held að í þessum efnum gætu Sjálfstæðismenn fundið fyrirmyndir hjá skyldflokkum sínum. Kristilegir demókratar í Þýskalandi segja til dæmis að þeir spyrji sig spurninga um framtíðina út frá kristnum mannskilningi en leiti svara með opnum huga og vilji í þeirri leit styðjast við alla breiddina í hópi flokksmanna.

Hin upphaflega landsfundartillaga mætti mikilli andstöðu margra og vakti hörð viðbrögð. Þótt ég taki undir margt í þeirri gagnrýni er heldur ekki langt í öfgarnar á hinum vængnum þar sem ekkert samband má vera á milli trúarlegra gilda og lagasetningar.

Ég er þeirrar skoðunar að enda þótt hvorki sé heppilegt né í takti við tímana að kveða á um að öll lög eigi að taka mið af kristnum gildum sé stór hluti íslenskra laga engu að síður byggður á þeim. Það sama á reyndar við um allan okkar heimshluta.

Í nýrri verðlaunabók sinni, „Economics of Good and Evil. The Quest for Economic Meaning from Gilgamesh to Wall Street"  (Oxford, 2011 ISBN 978-0-19-976720-5) rekur tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlasek sögu hagfræðinnar. Þar segir hann:

As the most widespread religion in the Western civilization, Christianity has had a huge influence on the formation of the modern economy. This faith frequently had the decisive word, especially in normative questions (that which should be done). It would be hard to imagine our contemporary Western market democracy without it.

(Bls. 131) 

Og í niðurlagsorðum kaflans um kristindóminn segir Sedlasek:

Christianity is the leading religion of our Euro-American civilization. Most of our social and economic ideals come from Christianity or are derived from it.

(Bls 167) 

Á landsfundinum lét formaður Sjálfstæðisflokksins orð falla um Jónas Hallgrímsson þar sem því var haldið fram að Jónas hefði aðhyllst bæði nýtingu á náttúrunni og verndun hennar. Þau kveiktu blendnar tilfinningar hjá mörgum.

Ekki treysti ég mér til að svara því hvaða skoðun Jónas Hallgrímsson hafði á virkjunum eða álverum þótt slíkar vangaveltur gætu orðið að skemmtilegri ritdeilu orðkappa.  Jónas tjáði sig að því er ég best veit ekki um það. Hann hafði á hinn bóginn ýmislegt að segja um það hvernig menn nýttu náttúrugæði. Í prófræðu sinni í Bessastaðakirkju laugardaginn 30. maí árið 1829 segir skáldið:

... en hvergi er manninum þar fyrir bannað að brúka heiminn eftir þörfum, eða gleðja sig við hans gæði hóflega og með þakkargjörð, því sá er eflaust tilgangur þess algóða gjafara. 

(Jónas Hallgrímsson, Ljóðmæli, Reykjavík 1947, bls. 63 - 64)

Í ræðunni setur Jónas ýmis skilyrði fyrir brúkun heimsins gæða en hvað sem um viðhorf hans til þessara mála má segja er eitt nokkuð öruggt: Þau eru byggð á kristnum gildum.

Og hvort sem Jónas Hallgrímsson skoðaði náttúruna eða nýtti sér hana gerði hann það á grunni sömu gilda. Um náttúruvísindin segir hann:

Hyggileg skoðun náttúrunnar veitir oss hina fegurstu gleði og anda vorum sæluríka nautn, því þar er oss veitt að skoða drottins handaverk, er öll saman bera vitni um gæzku hans og almætti. Vér sjáum þar hvert dásemdarverkið öðru meira, lífið sýnir sig hvarvetna í ótölulega margbreyttum myndum og allri þessari margbreyttni hlutanna er þó harla vísdómslega niður raðað, eftir föstum og órjúfandi lögum, er allur heimur verður að hlýða.

(Sama bók, bls. 82)

Myndin er úr Eyjafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Ég er þeirrar skoðunar að enda þótt hvorki sé heppilegt né í takti við tímana að kveða á um að öll lög eigi að taka mið af kristnum gildum sé stór hluti íslenskra laga engu að síður byggður á þeim."

Svavar, myndirðu segja að það sama hafi átt við í kringum árið 1600? Það er að segja, að þá hafi stór hluti íslenskra laga líka byggst á þessum "kristnu gildum" (hver svo sem þau eru).

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.2.2013 kl. 14:52

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll Hjalti. Ég hef ekki kynnt mér íslensk lög frá því um 1600 en geri ráð fyrir að verulegur hluti þeirra byggi á kristnum gildum eins og menn túlkuðu þau á þeim tíma.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.2.2013 kl. 20:28

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar Jónas var uppi voru meira en 60 ár þangað til stórvirkjanir yrðu til og meira en öld þar til stór álver risu.

Nýting náttúrunnar, sem Jónas talar um, var að sjálfsögðu allt önnur þá en felst í þeim þúsundum megavatta og milljónum tonna af álframleiðslu sem Íslendingar eru svo sólgnir í.

Þegar tilvitnun Bjarna Benediktssonar í ljóðlínu Jónasar um "afl fossanna" er túlkuð sem ást Jónasar á megavöttum og samþykki fyrir stóriðjustefnunni og eyðileggingu náttúruverðmæta á Íslandi er það í besta falli broslegt, en raunar gráthlægilegt.

Ómar Ragnarsson, 25.2.2013 kl. 20:34

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir það, Ómar, auðvitað vitum við ekki hvað Jónasi gæti fundist um álver eða stórvirkjanir eins og ég segi reyndar í pistlinum. Hann var á hinn bóginn ekki skoðanalaus um nýtingu náttúrugæða en vildi setja þeim ákveðin skilyrði. Þau byggði hann meðal annars á kristnum gildum og ég er viss um að við getum ýmislegt lært af viðhorfum hans bæði til nýtingar og verndar á náttúrunni.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.2.2013 kl. 21:01

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Árið 1600 var nú nýbúið að setja lög, sem kölluð hafa verið Stóridómur (1563, staðfest af konungi 1564, giltu til 1838) og innleiddu það nýmæli að fórna hér mannslífum í hundraða tali fyrir sifjaspell og hórdóm. Ekki voru það kristileg lög, Svavar Alfreð! - sbr. Jóh.8.

Og ekki ferðu rétt með að orða þetta hér í byrjun: "öll lagasetning", því að bætt var við: "... þegar það á við." (Það á t.d. ekki við um lög um ljósleiðara!)

Þótt flokkur myndi samþykkja stefnuna, sem til stóð á landsfundinum á laugardegi, þá væri alls ekki verið að neyða samvizku allra landsmanna með því -- þeir kjósa slíkan flokk, sem það vilja.

Alveg hefði nú mátt sjást í þessum pistli þínum, prestur eins og þú ert, að sannarlega er það hryggilegt, að mörg ANDKRISTIN lög hafa verið samþykkt á Alþingi, m.a. með tilstuðlan þingmanna þessa flokks þíns, eða ertu nokkuð búinn að gleyma fósturdeyðingarlögunum frá 1975?

Ekki hefur ástandið í þessum efnum batnað á 21. öld, bara versnað, en þú tekur víst þátt í því, ekki satt?

Boltinn er greinilega kominn til þín! Blessaður.

Jón Valur Jensson, 26.2.2013 kl. 02:21

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Jón Valur. Það er ábyggilega fjölmargt í lögum og siðferðissamþykktum fyrri tíma sem ekki er kristilegt í okkar augum. Engu að síður getur þar verið um að ræða ákveðna túlkun þeirra tíma á kristnum gildum. Við þurfum ekki að samþykkja þá túlkun ekki frekar en við erum sammála um hvernig túlka beri kristin gildi þótt við séum samtímamenn og efalítið meira og minna sammála um hver helstu gildi kristninnar séu. Viðhorfið til fótureyðinga er eitt skýrt dæmi um að kristnum mönnum ber ekki saman um hvernig túlka beri kristin gildi. Viðhorfið til samkynhneigðar er anna dæmi.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.2.2013 kl. 08:18

7 Smámynd: Einar Karl

Kristin gildi í dag eru allt önnur en kristin gildi á 16. öld. Kristin gildi eru m.ö.o. allt ÖNNUR frá einum tíma til annars.

Kristin gildi eins manns eru líka allt önnur en kristin gildi annars manns. Guð forði okkur frá "kristnum gildum" Snorra Óskarssonar og Fíladelfíu, nú eða Votta Jehóva, Aðventista, "Catch the Fire", eða annarra ríkisstyrktra öfga-sértrúarsafnaða.

Þegar Sjálfstæðismenn voru að tala um "kristin gildi" á Landsfundi sínum voru þeir nú minnst að hugsa um Jesú Krist og kærleiksboðorðið, heldur meira svona smáborgaralegra einsleitni. Að við verðum hamingjusamara þjóðfélag ef allir hugsi og hagi sér eins.

Meira hér:

http://blogg.smugan.is/einarkarl/2013/02/24/hissa/

Einar Karl, 26.2.2013 kl. 11:10

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Einar Karl. Kannski er réttara að orða það þannig að túlkun kristinna gilda hafi breyst mikið í tímans rás? Ég efast um að gildin sjálf hafi tekið stórvægilegum breytingum. Sama máli gegnir um kristna menn í samtíð okkar. Þeir aðhyllast held ég flestir sömu grunngildin en greinir á um hvernig eigi að túlka þau, gera þau að veruleika og hver séu mikilvægust. Það er í góðu lagi því eins og þú segir, við verðum ekkert hamingjusamari þótt allir hugsi eins. Þakka þér skemmtilega athugasemd.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.2.2013 kl. 13:58

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Mér finnst ansi merkilegt að Jón Valur geti dæmt Stóradóm sem ókristileg einfaldlega af því að hann stangast á við hans túlkun á einni sögu í Nýja testamentinu (sem er reyndar síðari tíma viðbót). Ég er viss um að þeir sem sömdu Stóradóm gætu bent á önnur vers (og þá líklega upprunaleg) til að styðja þá skoðun sína að þetta hafi verið hákristileg lagasetning.

Svavar og Jón Valur geta kannski sagt mér hvort það sé ókristilegt eða ekki að banna aðra trú en þá réttu? Ég veit að uppáhaldsguðfræðingurinn hans Jóns Vals boðaði að trúvillinga skyldi taka af lífi og kirkjan hans var enn gegn trúfrelsi á síðari hluta 19. aldar. Er "umburðarlyndi" eitt af þessum glænýju kristnu gildum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.2.2013 kl. 14:44

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Umburðarlyndi, tolerance, er gamalt hugtak, il í fornlatínu en varð eiginlega fyrst að þjóðfélagslegu vandamáli í trúarlegu umróti 16. aldar. Þá þýddi umburðarlyndi það að ofsækja fólk ekki vegna trúarlegrar afstöðu eða siða. Fyrstu baráttumenn umburðarlyndisins börðust fyrir því að ríkisvaldið beitti ekki vopnuðu ofbeldi til að verja ríkjandi trúarbrögð.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.2.2013 kl. 16:09

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjalti Ómar hefur ekkert fyrir sér í því, að sagan af hórseku konunni í Jóh.8 sé ómarktæk sem "síðari tíma viðbót", sú saga er jafnmikið meðtekin af kirkjunni í trúarreglusafni hennar (kanón Nýja testamentisins, NT) eins og aðrir hlutar þess. Sagan hefði aldrei verið tekin inn nema af því að hún hafi verið talin upprunaleg, komin frá Kristi sjálfum, enda til í mörgum handritum frá fjórðu til sjöttu aldar og lengur, grískum, sýrlenzkum og latneskum.

Að sjálfsögðu var Stóridómur með hörku sinni ókristilegur, Vantrúar-maðurinn Hjalti getur hvergi fundið neitt hjá Kristi, sem styður Stóradóm. Erfikenning kirkjunnar var líka á þessu máli, og ekki var nein persóna tekin af lífi fyrir hórdóm eða sifjaspell að vilja né boði kaþólsku kirkjunnar á Íslandi til siðaskipta. Þar skipti algerlega um með siðaskiptunum; þau voru engin smá-"siðbreyting"!

Einar Karl er náttúrlega naumast umræðufær um þessi mál.

"Viðhorfið til fótureyðinga er eitt skýrt dæmi um að kristnum mönnum ber ekki saman um hvernig túlka beri kristin gildi," ritar þú hér, sr. Svavar. Nær væri þér að minna hér á samþykktir þinnar eigin Þjóðkirkju GEGN fósturdeyðingum. Líberalistar (lausungarhyggjumenn) 20. og 21. aldar eru ekki marktækir um kenningargrunn kristni. Nærtækara er að líta á fornritið Didache tón dodeka apostollón (Kenningu postulanna tólf) frá því um eða fyrir 100 e.Kr.; þar eru fósturdeyðingar fordæmdar og þar að auki sennilega sveigt (harkalega) að þeim í orðum NT um "physikoi".

"Viðhorfið til samkynhneigðar er annað dæmi," segir Svavar, en langfæstar kirkjur (og "kirkjudeildir") heims samþykkja mök samkynhneigðra, hvað þá að vígja þá saman í kirkju. Það eru nánast bara líberalistar í sumum kirkjum 21. aldar, sem samþykkja þetta, standandi þar ekki aðeins gegn miklum meirihluta kristinna manna nú, heldur nánast einum og sérhverjum í kirkjum heims á liðnum öldum og það sem meira er: standandi þar gegn skýrum orðum Nýja testamentisins, bæði Páls postula og Jesú Krists sjálfs.

Aumt er því hlutskipti nútímaprestanna í Þjóðkirkjunni, sem ögra jafnvel beinlínis með orðum sínum og gerðum sínum eigin kirkjuföður, Lúther.

Jón Valur Jensson, 27.2.2013 kl. 01:32

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

... enda til í mörgum handritum ...

Þar á ég við: í mörgum NT-handritum ...

Jón Valur Jensson, 27.2.2013 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband