4.3.2013 | 21:51
O tu, Akureyri, terra adorata
Vor Akureyri er öllum meiri, með útgerð, dráttarbraut og Sjallans paradís. Við höfum Lindu, við höfum KEA og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SíS," var einu sinni sungið.
Við Akureyringar þykjum vera barnslega hrifnir af heimabæ okkar og höfum af þeim sökum mátt þola háð og spott þess drjúga hluta veraldarbarna sem ekki er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera frá höfuðstað Norðurlands.
Þó hafa Akureyringar það sér til málsbóta að þeir eiga inni fyrir öllu þessu stolti, ólíkt flestum öðrum því þessi átthahagaást þekkist víðar en á Akureyri. Hún er heldur ekki séríslenskt fyrirbæri og alls ekki ný af nálinni. Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til," orti rómverska skáldið Óvíd skömmu fyrir Kristsburð.
Undanfarið hef ég verið að lesa stórskemmtilega sögu Ítalíu eftir sagnfræðinginn David Gilmour (sem er held ég ekki David Jon Gilmour úr hljómsveitinni Pink Floyd).
Ein helsta niðurstaða Gilmour er sú að Ítalía hafi í raun aldrei verið ein þjóð og tilraunin til að búa hana til hafi misheppnast. Hann segir ítalska þjóðarvitund fremur veika. Í stað hennar binst fólk átthögunum, héraðinu, borginni eða þorpinu. Það fyrirbæri nefnist campanilismo á ítölsku og er dregið af orðinu campanile, sem þýðir klukkuturn.
Kampanílismi er að vera hugfanginn af klukkuturninum sínum. Kampanílistum líður best þegar sá turn er sýnilegur. Kampanílismi er einskonar staðbundin föðurlandsást, átthagahyggja eða parókíalismi.
Akureysk átthagadýrkun smellpassar inn í þessa ítölsku skilgreiningu því turnar Akureyrarkirkju eru eitt helsta tákn bæjarins. Akureyringar tala gjarnan um aðkomumenn. Ítalskir kampanílistar eru eins þenkjandi og nota hugtakið forestiero um þau fyrirbæri.
Þetta heimabæjarblæti Akureyringa og Ítala er gjarnan talið fremur neikvætt og hvimleitt eins og það getur vissulega getur verið, með sínum fylgifiskum, þröngsýninni, hrokanum og fordómunum.
Gilmour sér þó margt jákvætt við kampanílisma og segir hann fólginn í tryggð við sögulegt og sjálfbært félagslegt form sem búið sé að þróa lengi í þeim tilgangi að það geti sinnt þörfum þegna sinna.
Helsta ástæða þess að í mörgum borgum Ítalíu er lögð mikil áhersla á að viðhalda mynd miðbæjanna er ekki einhver þáþrá eða nostalgía, heldur ábyrgðartilfinning íbúanna og vitund þeirra um sameiginlega sögu. Þótt Akureyri sé ekki nema ungbarn í samanburði við háan aldur flestra ítalskra bæja getur það ef til vill skýrt draum margra Akureyringa um að Ráðhústorgið komist aftur í sína gömlu mynd.
Það er ekki af þröngsýni einni saman sem íbúarnir í borginni Lucca taka hin gömlu kaffihús heimamanna fram yfir alþjóðlegar kaffihúsakeðjur heldur eru gömlu kaffihúsin hluti af lifandi hefð og sjálfsvitund borgaranna.
Sá misskilningur er útbreiddur að kampanílismi sé ávísun á einangrun og heimóttarskap. Í bók sinni segir Gilmour frá blaðamanninum Beppe Severgnini sem bjó um árabil í London og Washington, sagði stríðsfréttir frá Líbanon, lýsti íþróttaviðburðum frá Peking og er heiðursforseti knattspyrnufélags í Kabúl í Afganistan. Eftir allan sinn þvæling snéri hann heim til Crema, 33.000 manna smáborgar nálægt Mílanó. Nú býr hann í húsinu þar sem hann fæddist og er kvæntur konu sem ólst upp þar rétt hjá.
Gilmour vitnar í bók eftir Severgnini þar sem þessi víðförli Langbarði útskýrir af hverju hann flutti aftur heim til Crema. Þær útskýringar eru ágætis útlistun á þessu alþjóðlega fyrirbæri, campanilismo.
In a small town, we don´t just want a congenial barber and a well stocked news-stand. We want professionally made coffee and a proper pizza. We want a couple of streets to stroll down, an avenue to jog along, a pool to swim in and a cinema for a bit of entertainment. We want a functioning courthouse, a reassuring hospital, a consoling church and an unintimidating cemetery. We want a new university and an old theatre house. We want football fields and town councillors we can pester in the bar. We want to see the mountains beyond the level crossing when the weather´s good and the air is clear. We want footsteps on cobbled streets in the night, yellow lights to tinge the mist and bell towers we can recognize from a distance. We want doctors and lawyers who can translate abstract concepts into our dialect - my father can - and people with a kind word and a smile for everyone... We want all these things and in Crema we have them.
Og kannski má að sumu leyti líkja Evrópu nútímans við þá Ítalíu sem Gilmour segir að mistekist hafi að sameina?
Athugasemdir
Mér finnst mikið til í þessu. Takk fyrir þennan skemmtilega pistil.
Hólmfríður Pétursdóttir, 5.3.2013 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.