Þér var nær að kaupa þér íbúð

DSC_0266 

Ég skil ekki fullkomlega hvernig Framsóknarmenn ætla að fara að því að lækka húsnæðislánin um 20%. Ég útiloka samt alls ekki að það sé hægt. Ábyggilega eru mörg góð rök til fyrir því að slík lækkun sé hagkvæm fyrir þjóðarbúið og heimilin.

Ég er heldur ekki alveg að fatta hvernig Sjálfstæðismenn ætla að ná fram svipaðri lækkun lána með skattaafslætti. Það skilningsleysi mitt þýðir þó alls ekki að hugmyndin þurfi að vera slæm.

Um það bil helmingur landsmanna virðist þó skilja rökin fyrir þessum leiðum nógu vel til að hyggjast kjósa ofangreinda tvo flokka í komandi kosninum, töluvert fleiri þann fyrrnefnda, enda gefur hann afdráttarlausari og skýrari fyrirheit í þessum efnum en hinn.

Enda þótt ég sé ekki nógu klár til að skilja lækkunarútreikninga þessara flokka til fulls get ég vel skilið þann stóra hóp íslenskra lánþega sem er orðinn hundþreyttur og sársvekktur á hlutskipti sínu og vill sjá róttækar breytingar.

Og jafnvel og ég skil örvæntingu þeirra fjölmörgu sem hamast við að greiða skilvíslega af útbólgnum húsnæðislánum sínum án þess að þau lækki, skil ég illa þá afstöðu sumra stjórnmálamanna sem segja að annað hvort sé ekkert hægt að gera fyrir skuldsett heimili í þessu landi eða ekkert þurfi að gera fyrir þau.

Ekki er langt síðan breskir ellilífeyrisþegar stóðu frammi fyrir því að hafa tapað peningunum sínum vegna þess að þeir lögðu þá inn í  íslenskan banka. Ég skil vel þau sem fundu til mikillar samúðar með þessu gamla fólki. Mörgum fannst ekki koma annað til greina en að íslenskir skattgreiðendur bættu því eignatapið.

Illskiljanlegra er að heyra sama fólk lýsa því yfir, að ekkert megi gera fyrir ungt fólk á Íslandi sem tapaði öllu því sem það átti í fasteignum sínum í Hruninu.

Einu sinni krafðist hópur Íslendinga þess, að íslenskir skattgreiðendur bættu tap þeirra sem ávöxtuðu peninga sína á Icesave-hávaxtareikningum hins einkarekna Landsbanka.

Nú má það sama fólk ekki til þess hugsa að þeir Íslendingar sem notuðu sparifé sitt til að kaupa sér þak yfir höfuðið fái það tap sitt á Hruninu að einhverju leyti bætt, því einhver kostnaður gæti lent á íslenskum skattgreiðendum.

Ég hef mikinn skilning á gildi samhjálpar. Þegar fólk tapar húsum sínum í náttúruhamförum finnst mér auðskiljanlegt samfélagið reyni að bæta missinn eins og það er hægt.

Ég hef síður skilning á þeirri framkomu, að þegar fólk missir húsin sín í efnahagslegum hamförum, þá eigi samfélagið helst að þvo hendur sínar og segja:

„Því miður. En þér var nær að kaupa þér íbúð."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Ég er heldur ekki alveg að fatta hvernig Sjálfstæðismenn ætla að ná fram svipaðri lækkun lána með skattaafslætti."

Þetta er hægt, og er mjög einfalt:

Þú lækkar bara skattana - sérstaklega neyzluskattana, eða hreinkega fellir þá alveg niður - og gerir það bara allt í einu án viðvörunar.

Þetta mun strax hafa í för með sér mestu verðhjöðnun sem sést hefur í heiminum frá upphafi.

Og þar sem við erum með verðtryggingu, mun það strax valda umtalsverðri lækkun á höfuðstól allralána.

Þannig virkar þetta. Og verður augljóslega aldrei framkvæmt, af mörgum ástæðum.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.4.2013 kl. 23:39

2 Smámynd: Elle_

Auðvitað var eðlilegt að hafa samúð með breskum ellilífeyrisþegum.  En þeir fengu tapið bætt.  Ekkert var hinsvegar eðlilegt við að ætla að gera börnin okkar og gamalmenni á Íslandi ábyrg fyrir ICESAVE.  Og kæra sig svo kollóttan þótt íslenskur almenningur tapi öllu.  Og þó landspítalinn og læknaþjónusta fari norður og niður í endalausum niðurskurði og læknar flýi land. 

Fjölmörg íslensk gamalmenni voru plötuð af glæpabönkunum til að færa peninga inn í óörugga sjóði og töpuðu svo ævisparnaðinum í sömu fallandi sjóðum.  En þeim var ætlað að borga ICESAVE.  Það vantar vit fólk sem hugsar svona.

Elle_, 4.4.2013 kl. 00:10

3 identicon

Tomas Jeffersson var að reyna að skýra þetta fyrir okkur.

http://www.herad.is/y04/1/2012-01-26-thomasjefferson.htm

http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/

Egilsstaðir, 04.04.2013 jg

Jonas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 4.4.2013 kl. 10:44

4 identicon

Og þú Svavar, ert þú ekki að selja fólki eilíft líf í lúxus eftir dauðann eða pyntingar fyrr að fylgja ekki því sem þú boðar, ég er ekki að fatta hvernig þú getur réttlætt það.. þú hefur ekkert fast sem styður við eitt né neitt af þessu sem þú boðar sé sannleikur, allt bendir til þess að þetta sé púra vitleysa og peningaplokk sem þú boðar, í reynd má segja að allt hljómi trúverðugra en það sem þú/trúarbrögðin eru að selja
:)

DoctorE (IP-tala skráð) 4.4.2013 kl. 14:58

5 identicon

ef við setjum okkur það markmið að leiðrétta skuldir heimilanna það er lánin sem hækkuðu um 40% frá hruni þá eigum við öll að taka höndum saman og gera það ,við getum deilt um leiðir en ekki markmið, ef leiðirnar koma okkur áleiðis að markmiðinu þá skiftir ekki máli hvaða leið við völdum eða hver kom fyrstur með hana, aðalatriðið er að árangurinn sé góður.

Ingi Bergþór Jónasson (IP-tala skráð) 4.4.2013 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband