Margt býr í orði

DSC_0242 

Nýlega heyrði ég gamla konu rifja upp barnaskólagöngu sína. Hún kvaðst hafa verið lögð í einelti og bætti síðan við: 

„En þá var ekki búið að finna upp orðið."

Meira en sjötíu ár eru síðan þessi gamla kona var barn og minningarnar eru enn sárar. Einelti var til þá eins og nú. Munurinn er sá, að þá var ekki til orð yfir einelti. Það var ekki skilgreint. Það hafði ekki öðlast form.

Og þess vegna var ekki hægt að grípa til viðeigandi aðgerða gegn því.

Nú vitum við hvað einelti er. Við höfum gefið þessari hegðun heiti, skilgreint hana og rannsakað. Hún hefur form. Hún er orðin hugtak. Hún heitir eitthvað.

Þessa dagana er ég að lesa skýringarrit um Fyrstu Mósebók eftir Gerhard von Rad. Bókin var hluti af námsefni mínu þegar ég lærði guðfræði í Háskóla Íslands fyrir um það bil þrjátíu árum. Síðan þá hef ég haft dálæti á þessu vandaða riti.

Í öðrum kafla Fyrstu Mósebókar stendur:

Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera.

Í riti sínu beinir von Rad athyglinni að því samhengi á milli orðs og veruleika sem birtist í þessari sögu. Hann segir hana segja sitt um uppruna og eðli tungumálsins. Áherslan sé ekki á uppgötvun orðanna heldur þann hæfileika að finna samræmi á milli fyrirbæris og heitis þess.

Von Rad heldur því fram að með því að gefa fyrirbærunum nöfn sé manneskjan að ráðast gegn óreiðu tilverunnar, koma á hana böndum og búa til úr henni reglu. Hann bendir á að í Austurlöndum var sá sem gaf  einhverju nafn að taka sér vald. Það að vita nafn einhvers fól í sér ákveðin völd yfir honum. Nafngjafi var valdhafi.

Einu sinni hafði einelti ekkert nafn. Þegar maðurinn fór að nota ákveðið orð um þá hegðun var hann búinn að stíga fyrsta skrefið til að ná tökum á henni. Stundum erum við að gera grín að orðum sem einu sinni voru ekki til; áráttuþráhyggjuröskun, ofvirkni, einelti, lesblinda, athyglisbrestur, áfallahjálp, skuldavandi, greiðsluvilji, aflandsgengi og hrægammasjóðir.  Allt eru þetta nöfn sem maðurinn hefur gefið hinum ýmsu fyrirbærum í þeim tilgangi að skilja þau betur og ná á þeim tökum.

Og af því að nú eru kosningar framundan sýnir sá slagur oft að það að kalla hlutina nöfnum eða ónefnum getur gefið vald og slegið valdavopn úr höndum andstæðinga; náhirð, þjóðrembingur, útrásarvíkingur, helferðarstjórn, ísklafi og Kúba norðursins, svo nokkur séu nefnd.

Margt býr í orði og fleira en landslagið væri einskis virði ef það héti ekki neitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er góður pistill.  Vald orða, nafna og nafngjafa eins og þú réttilega nefnir er mun meira en margur hyggur.

Þess vegna snýst pólítísk barátta oft, ekki hvað síst, um merkingu hugtaka, því svo margir nota sömu, eða svipuð hugtök, en með mismunandi meiningu.

Svo er líka hitt, að þegar eitt heiti, eða hugtök er orðið þreytt og jafnvel komið með slæmt orðspor, eða ímynd.  Þá er búið til nýtt, orð, nýtt hugtak og haldið af stað í sama leiðangur, undir nýju slagorði, nýju hugtaki, en sama inntaki.

G. Tómas Gunnarsson, 11.4.2013 kl. 04:51

2 Smámynd: Elle_

Góður pistill og sammála ykkur.  Var líka að lesa orðið 'fluguvigtarmenn' frá Halldóri Jónssyni í fyrsta sinn núna fyrir skömmu.

Elle_, 11.4.2013 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband