12.4.2013 | 10:02
Leitin að fylgistapi Sjálfstæðisflokksins
Þessa dagana leita menn logandi ljósi að þeim kjósendum sem ekki ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum:
Hverjir eru þeir, hvað vilja þeir, hvert fóru þeir?
Ekki skortir svörin.
Sumir vilja meina að skýringin á að svona fáir ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sé sú, að hann hafi svipaða afstöðu til Evrópusambandsins og mikill meirihluti þjóðarinnar.
Aðrir segja að flokkurinn bjóði ekki nógu vel í aðstoð við skuldsett heimili.
Enn aðrir halda því fram að landsfundarsamþykktin sem ekki var samþykkt á landsfundinum, um að lög skyldu byggð á kristnum gildum, sé að þvælast fyrir flokknum.
Og síðan eru þeir sem benda á að sennilega hafi flokkurinn rangan formann.
Að ég tali nú ekki um það vinsæla viðkvæði í íslenskum stjórnmálum og allsherjarsmjörklípu, að þetta sé allt saman Davíð Oddssyni að kenna.
Skýringarnar á brotthvarfi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru ábyggilega margar en að mínu mati nefndi formaður flokksins þá mikilvægustu í hinu fræga sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Þar sagði Bjarni Benediktsson:
Ég held að okkur hafi, okkur Íslendingum, ekki tekist alveg nægilega vel að gera upp við Hrunið. Og ég skal alveg segja það fullum fetum að Sjálfstæðisflokknum hefur ekki heldur tekist að gera nægilega upp við Hrunið og það er á endanum nefnilega bara einn mælikvarði um þetta. Hann er ekki sá hvort að mér finnist að það hafi tekist nægilega vel. Hann er miklu frekar sá hvort að það er almenn tilfinning fólks að það hafi tekist nægilega vel.
Leiðtogar sem þannig tala gætu breytt leit að fylgistapi í leit að fylgisaukningu.
Athugasemdir
"Sumir vilja meina að skýringin á að svona fáir ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sé sú, að hann hafi svipaða afstöðu til Evrópusambandsins og mikill meirihluti þjóðarinnar."
mikill meirihluti þjóðarinnar
ekki kannast ég við að þessi fullyrðing sé rétt
Rafn Guðmundsson, 12.4.2013 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.