11.5.2013 | 19:44
Öfgafull og villandi ESB-umræða
Opinberri umræðu hættir til að pólaríserast", færast til beggja öfga, verða svarthvít og annaðhvort eða, þar sem ekkert pláss er fyrir litbrigði eða stig á milli hinna tveggja póla.
Það hefur til dæmis gerst með hina svonefndu upplýstu" umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þar höfum við annars vegar froðufellandi landráðamenn sem sjá engan löst hjá Sambandinu og vilja fórna fullveldi og auðlindum til að geta komist til fyrirheitna landsins - og eygja jafnvel von um þægilega innivinnu í Brussel.
Á hinum pólnum er þröngsýn hagsmunagæsluklíka á sauðskinnsskóm sem hatar Evrópu og er haldin útlendingafóbíu. Fólk sem vill einangra landið og jafnvel banna söngvakeppnina - sé mark takandi á prófessor í Háskóla Íslands.
En nú þykir mér ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggja hafi nakkvað síns máls," sagði Þorgeir Ljósvetningagoða í frægri þingræðu fyrir margt löngu þegar hér var deilt um hvort Ísland ætti að gerast kristið eður ei.
Nú þegar tekist er á um hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB hafa þeir að mestu ráðið er mest vilja í gegn gangast. Sjónarmiðin yst til beggja öfga stjórna að miklu leyti umræðunni. Þó er sennilega ekki nema örlítill hluti þjóðarinnar sem getur gert þau sjónarmið að sínum. Flestir eru einhvers staðar nær miðjunni á skoðanarófinu, kannski örlítið nær því að vera hlynntir aðild en mótfallnir eða öfugt.
Ég þekki til dæmis nokkra aðildarsinna sem eru ekkert ofboðslega hrifnir af Evrópusambandinu og telja að þar þurfi ótalmargt að breytast. Engu að síður vilja þeir að Ísland gangi í sambandið, m. a. til að taka þátt í þróun þess.
Vinur minn sem er þýskur eðalkrati og eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins varar okkur Íslendinga á hinn bóginn við því að ganga í ESB. Til þess þyrftum við að hans mati að fórna miklu en fengjum lítið í staðinn.
Það stenst ekki að þeir sem efast um að Ísland eigi erindi í ESB séu þar með andevrópusinnar. Ég er mikill aðdáandi og unnandi Evrópu, bjó um tíma á meginlandi álfunnar, sótti mér þangað menntun, á þar góða vini og ferðast oft um Evrópulönd. Ég vil endilega að Ísland hafi góð tengsl við Evrópu. Maður má alveg vera Evrópusinnaður þótt maður sé ekki í ESB.
Síðan fyrirfinnast þeir sem meta Evrópusambandið mikils og framlag þess í þágu friðar og stöðugleika í álfunni. Þó er ekki þar með sagt að þeir þurfi endilega að vera meðmæltir því að Ísland verði hluti þess ágæta sambands.
Ég veit líka um fólk sem er frekar hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu en telur ástandið innan þess mjög óstöðugt og vill bíða átekta og sjá hver framvindan verður áður en frekari skref til aðildar verða stigin.
Flestir eru held ég sammála um að Evrópusambandið hafi sennilega aldrei staðið á jafn miklum tímamótum og nú. Evrópusambandið er að liðast í sundur í kjarnanum," segir Joschka Fischer, utanríkisráðherra og varakanslari Þýskalands á árunum 1998 - 2005, í grein í Morgunblaðinu þann 4. maí síðastliðinn og heldur áfram:
Það er orðin almenn vitneskja í Evrópu að áframhaldandi fjármálakreppa muni annaðhvort tortíma Evrópusambandinu eða leiða af sér stjórnmálalegt bandalag og að án samstöðu um lausn á núverandi skuldavanda og án skrefa í átt til sameiginlegrar útgáfu nýrra skuldabréfa, verður evrunni ekki bjargað. Slík skref munu hafa í för með sér að víðtæk tilfærsla á fullveldi verður óhjákvæmileg.
Ekki bara andstæðingar aðildar telja skynsamlegt að hinkra og sjá hvaða stefnu Evrópusambandið tekur til að það sé skýrt í hvaða samband eigi að ganga - eða ekki.
Nú eru fjögur ár síðan Ísland hóf aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það segir sína sögu um stöðuna í þessu máli að þrátt fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild stendur aðildarferlið enn yfir.
Þjóðin er illa að sér um í hverju þessar viðræður eru fólgnar, þvert á þá kröfu Evrópusambandsins að þegnum umsóknarríkja sé haldið vel upplýstum um þær efnhagslegu og pólitísku breytingar sem ríkin þurfa að ráðast í og eru hluti aðildarferlisins.
Ef leita á álits þjóðarinnar um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram verður að byrja á því að upplýsa fólk um hvernig þær gangi fyrir sig og hvers eðlis þær séu.
Myndin: Snjóþungt er í Fljótum en óvíða er sumarfegurra en þar. Þessa mynd tók ég í fyrra.
Athugasemdir
Hvað er EES og ESB að skipta sér af því, hvort við viljum gott viðskiptasamband við Evrópuþjóðirnar?
Það er eitthvað mikið rangt við allt þetta ferli, sem ekki er enn ljóst og skiljanlegt.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.5.2013 kl. 22:07
Það er Evrópusambandið sem er öfgafullt
Hvað, kæri Svafar, fær þig til að halda að það sé endalaust hægt að biðja um "upplýsta umræðu" um það sem aldrei verður upplýst. Og enn fremur biðja um "upplýsta umræðu" um það sem enginn kjósandi í Evrópu hefur nokkru sinni beðið um. Og sem aldrei hefur verið upplýstur um hvorki sjálfa tilurð og hvatana að stofnun Evrópusambandsins, þróun þess, vansköpun þess og svo framvegis.
Evrópusambandið er elitært fyrirbæri. Óskabarn elítunnar sem ekkert vill með kjósendur hafa að gera, enda þarf hún ekki á þeim að halda. Hún styðst við useful idiots í aðildarlöndunum. Og hún aðstoðar þá við að halda völdum. Aðstoðar þá við nokkurs konar samsæri beggja aðila gegn kjósendum.
Þetta var til dæmis hin upplýsta umræða í Danmörku
Nefnum hér til dæmis bara eitt atriði af ótal mörgum um hina "upplýstu umræðu" í Evrópu
Með slagorðinu "Evrópusambandið er steindautt" sem hugmynd, mælti þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, Poul Schlüter, með "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni um "EF-pakkann" í Danmörku árið 1986. Þá var verið að búa til hinn svokallaða "innri markað". Hinn innri markaður er ennþá kenning á blaði. Þessi ímyndaði innri markaður hefur aldrei virkað hið minnsta umfram það sem heimsvæðingin hefur haft í för með sér hjá flestum löndum
Poul Schlüter róaði þarna óttaslegna Dani með slagorðinu "sambandið er steindautt" (danska: "Unionen er stendød"). Danir voru nefnilega mjög svo áhyggjufullir yfir að það væri hugsanlega verið að tæla þá inn í eitthvað sem gæti endað í líkingu við "The European Union" eða "EF-Unionen". Að EF gæti endað með tilurð "Evrópusambandsin" ef þeir segðu já í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi fullvissa Poul Schlüters um að það yrði aldrei til neitt Evrópusamband gerði það að verkum að Dönum varð rórra í þjóðarsálinni. Þeir létu því til leiðast og kusu "já"
25. febrúar 1986
"Evrópusambandið er steindautt þegar við kjósum já á fimmtudaginn", sagði Poul Schlüter forsætisráðherra Danmerkur í kosningakappræðum danska ríkissjónvarpsins, tveim dögum fyrir kosningadag. Úrslit kosninganna tóku mið af þessu. Danir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að Efnahagsbandalag Evrópu (EF) myndi þróast í eitthvað sem gæti orðið Evrópusambandið (Union). Því sögðu 56,2% kjósenda já. Þeir sem sögðu nei voru 43,8% kjósenda
Tikk takk, tikk takk, það líða 8 ár
1994: Poul Schlüter hinn fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur tekur sér sæti sem þingmaður á þingi þess Evrópusambands sem hann aðeins 8 árum áður hafði lýst sem verandi steindautt og sem myndi aldrei verða til. Hann lofaði Dönum því að gamla Efnahagsbandalag Evrópu myndi aldrei þróast í það að verða The European Union (Evrópusambandið), eða neitt sem myndi líkjast því. Þessvegna var Dönum alveg óhætt að kjósa "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni um EF pakkann
Eurosclerosis
Meira að segja ég horfði á manninn hann Schlüter segja þetta og ég trúði honum því ég var hlynntur þáverandi EF. En þá var ég líka álíka auðtrúa og Jón Baldvin Hannibalsson. En ég þroskaðist. Það gerði Jón Baldvin Hannibalsson hins vegar ekki. Sjúkdómur Jóns Baldvins er oft nefndur Eurosclerosis - og er ólæknandi. Öll Samfylkingin er núna smituð. Að minnsta kosti allir þeir hrunálfar sem búa vel á efstu hæð álfhóls Samfylkingarinnar
Yfirdrátturinn
Allt í sambandi við Evrópusambandið fer svona fram. Kosningar eftir kosningar er kjósendum boðið uppá að samþykkja þann yfirdrátt sem fram fór á undanförnum árum vegna nútíðar og framtíðar sem stjórnmálamenn í litlum löndum ráða engu um. Kjósa um það sem búið er að gera í leyfisleysi, en sem er ekki hægt að vinda ofan af. Það er því aldrei raunverulegur meirihluti fyrir neinu því það er alltaf búið að fara fram úr því sem ESB hafði umboð til að verða í þínu landi. Þetta er kallað að samþykkja yfirdráttinn á bankamáli. Þú segir bara við bankann þinn að þú getir ekki borgað og því verði að hækka yfirdráttinn
Svo koma sárindin, eins og til dæmis þegar Berlingske Tidende skrifaði um þá Gallup-könnun sem nú sýnir að Danir eru mjög illilega sárir yfir að ESB dómstólinn er búinn að ógilda lög danska þingsins um það hverjir meiga verða ríkisborgarar í landi þeirra eða ekki. Þessu ræður ESB núna. Danir ráða ekki lengur yfir landi sínu. "ESB-sérfæðingur" Berlingske gerði greiningu (úttekt) á því hver réði mestu í Danmörku. Niðurstaðan var: ESB ræður næstum því öllu í Danmörku: Analyse:Analyse: EU bestemmer det meste i Danmark
Að kjósa sig til auðlinda annarra
Allsstaðar þar sem kjósendum er gefinn kostur á að kjósa sig til auðæfa annarra þar gera þeir einmitt það. Evrópusambandið getur ekki haldið áfram að vera eins og það er í dag því núna er það krypplingur (misfóstur) sem virkar alls ekki. Það vinnur meiri skaða á þjóðfélögum þess en það gerir gagn. Evrópusambandið getur einfaldlega ekki haldið áfram að vera eins og það er núna. Það verður annaðhvort að fara áfram, eða afturábak. Og nýja stjórnarskráin átti að bjarga ESB. Það tók sjö ár að nauðga henni í gegnum þjóðþing 27 ríkja. Enginn borgari fékk að segja sitt álit. Með nýju stjórnarskránni er leiðin til samhæfingar skatta og sameinilegra fjárlaga opnuð. Já EF breyttist hratt og Evrópusambandið breytist mjög hratt. Þetta er jú hin uppl´syta umræða um það sem borgar landa Evrópusambandsins geta nú lesið sér til um að sé orðið það sem þeir héldu einu sinni að þeir væru að ganga í. Þetta er eins og að selja gömul landakort af Evrópu
Nánar: Evrópusambandið er steindautt
Ég held að það sé kominn tími til að vakna upp og fara að veita bæði hinu stóra sem smáa letri verðskuldaða athygli. Pay some attentions. Það er lágmarskrafa. Því ekki hér heldur munu neinir himnar opanst til henda staðreyndum í lýðinn.
Þú þarft að trúa til að skilja
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 11.5.2013 kl. 23:04
Og þakkir til þín Svavar; fyrir myndina af Hraunum í Fljótum, úti á Tröllaskaga. Góðar minningar vakna.
Miklavatnið er fagurt. Það er frá upphafi skapað fyrir tenóra til að syngja út yfir það
Gunnar Rögnvaldsson, 11.5.2013 kl. 23:31
Ég er einlæglega á móti því að við íslendingar gangi í ESB. Ég hef þá skoðun eftir að hafa lesið allt sem ég hef komist yfir um sambandið. Ástandið innan þess og móralinn sem ríkir innan þess.
Ég hef alls ekkert á móti Evrópu sem slíkri (Því í ósköpunum ætti mér að vera það)
Ég er hlynntur samstarfi Evrópu þjóða en alfarið á móti þessu yfirþjóðlega valdi og lævísa samrunaferli og sameiginlegu mynt sem er hreint og beint flop og virkar alls ekki fyrir nema fá ríki.
Hin evru ríkin geta hreinlega ekki brauðfært sig vegna þess að gengið er kolrangt .
http://www.youtube.com/watch?v=muw0DGI_DIs
Ég skora á alla þá sem eru tvístígandi að horfa og hlusta vel.
Snorri Hansson, 12.5.2013 kl. 03:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.