Sjómenn

DSC_0305 

Fyrstu níu prestskaparár mín bjó ég á þeim indæla stað Ólafsfirði. Í dag hugsa ég þangað því þar er alltaf heilmikið um að vera þessa helgi. Hinn ólafsfirski sjómannadagur var mikil hátíð.        

Ég gleymi því aldrei einu sinni þegar hringt var í mig að kvöldi sjómannadagsins. Sjómaður átti erindi við mig, var að skemmta sér með félögum sínum og þeir ætluðu að bregða sér á ball inn á Akureyri. Bílstjóra vantaði og einhverra hluta vegna fannst þeim enginn líklegri til að geta sinnt því starfi þetta tiltekna kvöld en sóknarpresturinn. Ég hefði ekki hikað við að skutla þeim hingað inn eftir hefði ég átt heimangengt því þetta var þeirra dagur.

Á sjómannadegi auðsýnum við þeirri stétt virðingu sem vinnur hættuleg störf fjarri fjölskyldum og heimilum í okkar þágu, oft við erfiðar aðstæður. Sjómannadagurinn á að tjá þakklæti okkar til þessarar starfsstéttar fyrir hennar mikilvæga framlag. Sjómannadagurinn er bæn fyrir þeim sem bjóða óblíðum náttúruöflum birginn og eru umluktir hinum ótal hættum hafsins.

Þegar við tölum um sjávarútveg dettur okkur ýmislegt í hug, svo sem kvótakerfið, helsti atvinnuvegur þjóðarinnar og stór skip. Sjómennirnir voru ekki dags daglega mjög sýnilegir í útgerðarbænum Ólafsfirði - enda voru þeir yfirleitt úti á sjó. Túrarnir voru langir, ekki síst eftir að frystitogararnir komu til sögunnar. Þegar þeir komu í land kom fyrir að gleymdist að leggja á borð fyrir þá á þeirra eigin heimilum.

En á sjómannadeginum sá maður sjómennina. Þeir urði sífellt sýnilegri í bænum eftir því sem nær dró hátíðinni. Suma sá maður eiginlega ekki nema þá. Og þá varð landkrabbanum ljóst að sjávarútvegurinn er meira en kvótakerfi, skip og veiðiheimildir, hann er meira en hugtök og hagfræðistærðir. Sjávarútvegurinn er fyrst og fremst fólk. Hann stendur og fellur með sjómönnum og á sjómannadegi höldum við hátíð fyrir og með því fólki.

Sjómannadagurinn gerði meira en að birta manni sjómennina. Hann dró fram í dagsljósið menningu sjómannanna. Það gleymist nefnilega oft að menningin er ekki bundið við listasöfn, leikhús og slíkar menningarstofnanir. Sjómannalögin eru áberandi hluti af menningu sjómanna en hún er líka fólgin í sögum - oft harla ótrúlegum - og málfari - gjarnan hispurslausu, svo dæmi séu tekin.

Sjómannadagurinn var líka haldinn til að auka samstöðu sjómanna og efla stéttarvitund þeirra. Ólafsfirskur sjómaður á sjómannadagi var stoltur maður. Hann naut virðingar og aðdáunar. Strákunum fannst eftirsóknarvert að feta í fótspor þeirra. Einn þekkti ég sem var með mynd af öllum heimatogurunum yfir rúminu sínu. Sá gat ekki beðið eftir því að komast á sjóinn eins og pabbi og afi. Þetta voru sjómennn sem voru sjómenn af lífi og sál. Þeir hugsuðu sjómannsstarfið ekki sem fyrirkomulag til bráðabirgða. Þeir höfðu ekki í hyggju að skreppa í nokkra túra til að ná sér í pening. Nei. Þeir ætluðu að verða sjómenn. Það var þeirra köllun.

Og nú á dögum er stétt sjómanna ekki lengur einvörðungu skipuð körlum. Þar eru líka frábærir sjókvenmenn sem eru körlunum engir eftirbátar.

Til hamingju með daginn, sjómenn. Og til hamingju með sjómennina, Ísland.

Myndin: Mígindisfoss í Ólafsfjarðarmúla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband