20.6.2013 | 11:47
Þjóðremba og sjálfsfyrirlitning
Ljúf er vissan um að vera ekki eins og aðrir syndaselir þessa heims. Fátt er betra fyrir egóið en að staðfestast í þeirri trú að maður sé betri en hinir.
Og þegar ég hef verið með vesen get ég alltaf skákað í því skjóli að hinir séu ekkert skárri.
Oft er sjálfsálitið ekki burðugra en svo að við sjáum okkur ekki fært að hreykja okkur af eigin verðleikum. Veikleikar hinna eru stökkbrettið sem við notum til að lyfta okkur upp úr meðalmennskunni. Lestir annarra verða upphafning okkar.
Þetta er gjarnan vinnureglan í íslenskum stjórnmálum. Íslenskir stjórnmálamenn koma ekki til kjósenda sinna með einhverja framtíðarsýn. Þeir reyna ekki að höfða til okkar með einhverri stefnu.
Við eigum að kjósa þá vegna þess að hinir eru svo hræðilegir. Þeir vilja fá atkvæði til að hinir komist ekki að.
Við erum óörugg og óöryggi okkar lýsir sér í því að við felum bresti okkar með því að benda á yfirsjónir og galla annarra.
Sumir segja að það sé eitt einkenni á íslensku samfélagi að þar axli enginn ábyrgð og ef eitthvað fari úrskeiðis sé það helst aldrei neinum sérstökum að kenna. Við eigum erfitt með að taka gagnrýni bæði sem einstaklingar og samfélag. Ástæðurnar fyrir því gætu verið öryggisleysi, minnimáttarkennd og skert sjálfsmynd.
Íslenskt samfélag hefur ekki skýra sjálfsmynd. Það er ungt og viðkvæmt. Þetta litla samfélag þjáist af minnimáttarkennd.
Íslenska minnimáttarkenndin lýsir sér m. a. í þeirri trú að allt hljóti að vera betra í útlöndum en hér heima á Klakanum. Rök verði sjálfkrafa gild ef þau eru samin af erlendum sérfræðingum. Veðrið sé gott ef það er eins og í útlöndum.
Minnimáttarkennd er ekki ný á landi voru. Í gamla daga þótti t. d. fínt að sletta dönsku. Fyrirmenn kepptust við að gera nöfn sín útlenskuleg. Jafnvel uppnefni voru í góðu lagi ef þau voru ekki á íslensku.
Danahatrið og trúin á eigin yfirburði var af sama meiði minnimáttarkenndarinnar.
Minnimáttarkennd einstaklinga getur lýst sér í mikilmennskubrjálæði en þegar samfélög þjást af minnimáttarkennd getur hún brotist út í þjóðrembu.
Þannig eru bæði þjóðremban og sjálfsfyrirlitningin af sömu rótinni sprottin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.