Klukkutíminn hans afa

DSC_0419
Svavar afi minn vann í Slippnum. Ég mátti aldrei heimsækja hann á meðan hann var í dráttarbrautinni því hún var hættuleg börnum. Það breyttist þegar afi fór að vinna í málningunni þó að málningardolluhristarinn gæti verið varasamur en hann var fyrsta slíka skaðræðistækið í höfuðstað Norðurlands.

Afi kom alltaf heim til ömmu í hádeginu enda ekki langt að fara úr Slippnum í Norðurgötu 54.

Klukkutíminn sem hann hafði í mat var vel nýttur.

Hann byrjaði á að labba heim. Ég sá hann aldrei flýta sér. Síðan þvoði hann sér um hendurnar og andlitið í eldhúsvaskinum. Ef hann var mjög skítugur þurfti að nota ræstiduft og stífan bursta. Amma Emelía leið engan sóðaskap við eldhúsborðið. Það þurfti líka að hreinsa smurninguna undan nöglunum.

Síðan var borðaður besti matur í heimi, til dæmis steiktur steinbítur í brúnni lauksósu. Alltaf var fram borinn desert. Hræringur ef maður var óheppinn en Royal karamellubúðingur ef gæfan var hliðholl. 

Afastrákurinn gleymdist ekki. Ef hann vildi ekki borða hræringinn fékk hann að þreifa á upphandleggsvöðvum afans með fyrirheitum um að eignast þvílík búnt ef hann kláraði úr skálinni. Fyrir kom að afi staðfesti kraft hræringsins með því að lemja í borðið þannig að diskar, glös, hnífapör og föt skoppuðu og amma jesúsaði sig.

Þá þurfti nú ekki frekari vitnanna við.

Hlustað var á fréttirnar undir borðum. Ákveðinn hluti hins hversdagslega hádegishlés fór í viða að sér upplýsingum um aflabrögð, heyskap, helstu sigra og töp í Víetnamstríðinu, ástandið í pólitíkinni, skipakomur og framgang kalda stríðsins. Þulir Ríkisútvarpsins fengu tiltekinn hluta hádegisins til að halda liðinu meðvituðu.

Þegar afi var búinn að borða tvíréttað stóð hann upp frá borðinu og labbaði inn í svefnherbergi. Þar lagðist hann í dívaninn við hliðina á hjónarúminu. Ekki liðu nema nokkrar sekúndur þangað til hann byrjaði að hrjóta. Gormarnir í dívaninum víbruðu og rúðurnar í gluggunum nötruðu.

Á meðan fylgdist undirmeðvitund afa með veðurfréttum en Norðurgatan var svo tæknivædd að snúra lá úr útvarpinu í eldhúsinu í gegnum holið og í hátalara inni í svefnherbergi.

Þannig var hjónaherbergið í Norðurgötu 54 beintengt við Veðurstofu Íslands enda upplýsingaöldin að byrja.

Eftir að hafa meðtekið fregnir af skyggni og ölduhæð hætti afi að hrjóta jafn skyndilega og eðlilega og hann hafði byrjað. Hann reisti sig upp af beddanum og gekk fram í eldhús. Þar hellti hann kaffi úr hitabrúsa í bolla, tók sykurmola úr kari, braut hann í tvennt í þykkum lófa, stakk honum í munn sér og sötraði rjúkandi kaffið í gegnum óhollustuna.

Síðan stóð hann upp, gekk fram á stigapallinn, klæddi sig í skóna, setti á sig sixpensarann og hélt til móts við Slippinn sinn. Þar byrjuðu þeir að vinna klukkan eitt.

Svona drjúgur var klukkutími afanna í gamla daga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg mynd úr veröld sem var.

Þórir Jónsson (IP-tala skráð) 15.7.2013 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband