Þjóðin spurð um ESB

DSC_0630 

Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast hefði verið að leita álits þjóðarinnar áður en íslensk stjórnvöld sóttu um aðild að Evrópusambandinu á sínum tíma. Ég tel að verði aðildarferlið sett af stað á ný eigi ekki að gera sömu mistökin.

Það á að spyrja þjóðina fyrst.

Ég er hlynntur beinu lýðræði en geri mér samt grein fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur má hæglega misnota. Þeim má beita til að blekkja fólk. Það sýna nýleg dæmi.

Eigi þjóðin í auknum mæli að taka ákvarðanir milliliðalaust um ágreiningsmál verður hún að vita hvað sé í húfi. Í þjóðaratkvæðagreiðslum þarf fólk að standa frammi fyrir skýrum valkostum. Spurningar þurfa að vera vel orðaðar og gera þarf kjósendum grein fyrir hvaða afleiðingar atkvæði þeirra hafi.

Íslendingar skiptast í tvær meginfylkingar þegar tekist er á um afstöðuna til aðildarumsóknarinnar.

Annarsvegar eru þeir sem segja að ekki sé hægt að taka upplýsta afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu nema fyrir liggi aðildarsamningur. Þeir líta svo á að Íslandi standi til boða ýmsar undanþágur frá lagabálki Evrópusambandsins og sérlausnir. Um það allt þurfi að semja og því sé ekkert hægt að segja um hvað felist í aðild að Evrópusambandinu nema fyrir liggi fullgerður samningur. Þess vegna sé ekki ástæða til að spyrja þjóðina fyrr en búið sé að semja.

Í þessari fylkingu eru til dæmis fyrrverandi stjórnarflokkar - sem hafa reyndar báðir tekið afstöðu til aðildar, annar með en hinn á móti, þótt enginn sé samingurinn.

Ýmsir fjölmiðlar á Íslandi virðast líka tilheyra þessari fylkingu. Sumir vilja meina að Ríkisútvarpið sé þar á meðal.

Hinsvegar eru þeir sem segja að aðildarferlið felist í því að umsóknarríkið sýni fram á hvernig og hvenær það lagi sig að regluverki Evrópusambandsins. Ríki sæki ekki um til að skoða í pakkann eða sjá hvað sé í boði, heldur sé umsóknin eindregin ósk um inngöngu og yfirlýsing um vilja til aðlögunar að lagabálki Evrópusambandsins, öllum 100.000 síðum hans, sem sé óumsemjanlegur.

Besta leiðin til að taka upplýsta afstöðu til aðildar Íslands að sambandinu sé því að kynna sér þennan óumsemjanlega lagabálk sem Ísland þurfi að taka upp og innleiða ef það vill verða hluti af sambandinu.

Í þessari fylkingu er til dæmis Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sem m. a. hefur gefið út bækling til að útskýra hvernig aðildarferlið gengur fyrir sig (en þaðan eru ofangreind skilyrði fengin) og ráðherraráð Evrópusambandsins sem fyrir hálfu ári og ekki að tilefnislausu hefur ítrekað, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagbálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið.

Síðast en ekki síst hefur Evrópusambandið sjálft þá eindregnu skoðun á aðildarferlinu, að þar sé ekki verið að skoða í pakka og virða fyrir sér úrvalið í tilboðshillunum, heldur feli það í sér vilja til inngöngu, eða eins og Þorsteinn Pálsson orðar það í sinni nýjustu grein:

Í öðru lagi fólst í aðildarumsókninni að Ísland stefndi að aðild. Ella sækja ríki ekki um.

Þegar að því kemur að þjóðin verður spurð um hvort halda eigi áfram aðildarferli Íslands að ESB skulum við hafa spurninguna skýra, hafa ofagreind orð Þorsteins í huga um að ríki sæki ekki um nema þau stefni að aðild og láta spurninguna hljóða:

Vilt þú að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?

Myndin er úr berjamó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Svavar verði þér að góðu. Þau verða fín með rjóma út á!

Eyjólfur G Svavarsson, 19.8.2013 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband