Bara fyrir börn ríkra?

DSC_0702
Sé starf íþróttafélaga faglegt og þannig framkvæmt að það stuðli að heilbrigðri sjálfsmynd ungmenna má halda því fram að það geti verið liður í forvörnum gegn vímuefnaneyslu eins og annað uppbyggilegt æskulýðsstarf.

Árlega fá íþróttafélögin nokkrar fjárhæðir frá skattborgurum til að sinna því mikilvæga starfi sínu. Þeim peningum er svo sannarlega vel varið á meðan þeir verða æsku landsins til blessunar.

Þó eru ekki allir sem geta nýtt sér þessa þjónustu íþróttafélaganna. Nýverið spjallaði ég við einstæða móður. Sonur hennar hefur æft knattspyrnu. Æfingagjöldin nema tugum þúsunda á ári. Þar að auki þarf að kaupa íþróttaföt og annan búnað auk þess sem ferðakostnaður hefur aukist jafnt og þétt þau ár sem drengurinn hefur verið í boltanum.

Nú er svo komið að móðirin hefur ekki lengur efni á að leyfa drengnum að sinna þessu hugðarefni sínu. Það urðu honum mikil og sár vonbrigði að fá þann úrskurð. Þó að hann hafi verið allur að vilja gerður til að skilja þessa þungbæru ákvörðun móðurinnar er erfitt að vera lítill drengur og horfa upp á alla vinina fara á fótboltaæfingar en verða sjálfur að sitja heima.

Þegar svo er komið að stór hluti íslenskra barna getur ekki tekið þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi er kominn tími til að staldra við og hugleiða á hvaða leið við séum.

Viljum við samfélag þar sem aðeins börn úr þokkalega stöndugum fjölskyldum geta iðkað íþróttir?

Íþróttastarf sem aðeins er fyrir ríka stuðlar ekki að heilbrigðri sjálfsmynd ungmenna. Það brýtur þá krakka niður sem ekki fá að taka þátt í íþróttunum og veldur sárum á sálum þeirra sem ef til vill gróa aldrei.

Og þá er starf íþróttafélaganna ekki lengur uppbyggilegt heldur niðurbrjótandi.

Myndin er frá fermingarskóla Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni í Aðaldal. Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir ræðir við börnin.




 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Svavar ég er svo innilega sammála þér.þessu þarf að kippa í liðinn, Það er ekki hægt að mismuna börnum með þátttöku í íþróttum vegna skorts á peningum. Fátt er betur verkandi en íþróttir til að halda börnum frá óreglu og slæmum félagsskap, fyrir utan hvað það er þroskandi og heilsusamlegt!

Eyjólfur G Svavarsson, 6.9.2013 kl. 15:14

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka þér Svavar fyrir þessa grein. Það er fráleit stefna sem fylgt hefur verið undanfarin ár að gera íþróttaævingar barna að slíkum útgjaldalið sem nú er orðið. Maður heggur óneitanlega eftir því að stærstu kostnaðarliðir ævinganna eru ýmsir útanáhlaðnir þættir eins og dýrir íþtóttagallar, ferðakostnaður og fleiri þættir sem auðvelt ætti að vera að hverfa frá með einfandara skipulagi. Ég á mér þann draum að skipuleggjendur barnastarfs íþróttafélaganna finni börnunum ódýrari ævingaskipulag, þar sem ALLIR geti verið með, eins og var hér fyrr á árum.

Guðbjörn Jónsson, 6.9.2013 kl. 21:50

3 identicon

Svo ekki sé talað um barnmargar fjölskyldur. Þar gætu nú æfingagjöld hlaupið á hundruðum þúsunda yfir árið sé allt til talið. 

Þórdís Hrönn Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2013 kl. 23:20

4 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Íþróttahreifingin er ekki rekin í dag nema fyrir Peninga,og aðeins fyrir Hefðarfólk..

Vilhjálmur Stefánsson, 8.9.2013 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband