2.10.2013 | 22:13
Óskalög sjúklinga
Þegar ég var strákur hlustaði ég á þrjá tónlistarþætti í hinu íslenska ríkisútvarpi. Þar voru spiluð allskonar óskalög með tilheyrandi kveðjum.
Þættirnir hétu Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og Óskalög sjúklinga.
Þrír þjóðfélagshópar nutu þeirra forréttinda að fá fastan tíma í einu útvarpsstöð landsmanna þar sem spiluð var tónlist að þeirra óskum.
Á milli laganna bárust ástar- og saknaðarkveðjur frá sjúkrabeðum og úr káetum inn á heimilin.
Þessir þrír þjóðfélagshópar nutu sérstakrar velvildar landsmanna: Unga fólkið vegna þess að þar er framtíðin. Sjómennirnir vegna þess að þeir drógu björg í bú við hættulegar aðstæður. Sjúklingarnir vegna þess að þeir voru veikir og við höfðum samúð með þeim.
Hóparnir þrír höfðu líka skattalega sérstöðu. Unga fólkið byrjaði ekki að borga skatt fyrr en við 16 ára aldurinn. Sjómenn fengu sérstakan sjómannaafslátt.
Og hingað til hefur ekki þótt við hæfi að þau sem eiga dvöl á sjúkrahúsum landsins séu krafin um sérstakan skatt vegna þeirrar sérstöðu sinnar.
Það er að vísu alls ekki rétt að heilbrigðisþjónusta sé ókeypis á Íslandi. Hún kostar pening og er flóra íslenskra sjúklingaskatta nokkuð fjölskrúðug. Greiða þarf fyrir komur á heilsugæslustöðvar og til heimilislæknis, rukkað er fyrir læknisvitjanir, sérstök gjöld eru lögð á rannsóknir og mælingar og ekki er hægt að fara á slysadeild eða til sérfræðinga án þess að opna veskið.
Árið 2011 var ástandið orðið þannig að tæp 7% lágtekjufólks á Íslandi hafði ekki efni á nauðsynlegri læknisþjónustu.
Þar að auki er lyfjakostnaður íslenskra sjúklinga oft verulegur.
Allir þessir sjúklingaskattar hafa komist á tiltölulegu átakalítið. Íslendingar hafa umborið að sjúklingar séu látnir punga út peningum við afgreiðsluborð lyfjabúða og í móttökum heilsugæslustöðva.
Þjóðin segir á hinn bóginn stopp þegar á að fara rukka þau sem eru rúmliggjandi inni á spítölum.
Bent hefur verið á að sumir hafi alveg efni á að borga fyrir hvern sólarhring inni á spítala, að fólk þurfi að borða heima hjá sér þar og spari sér þann kostnað sé spítalavistin ókeypis. Einnig hefur verið til þess vísað að spítalaskatturinn tíðkist í útlöndum, til dæmis í Svíþjóð.
Þessi rök virðast ekki duga.
Þegar manneskja er það veik að hún þarf á spítalavist að halda er stór hluti þjóðarinnar þeirrar skoðunar að samfélagið eigi að umvefja hana og sýna henni stuðning í verki.
Því sé ekki við hæfi að rukka fólk í rúmum inni á sjúkrastofnunum sérstaklega fyrir mat og aðra þjónustu, jafnvel þótt það hafi efni á því.
Ég tek undir með þessum stóra hluta þjóðarinnar og hvet stjórnvöld til að endurskoða áform sín um þessa sjúklingaskatta.
Auk þess geri ég það að tillögu minni að óskalagaþættir komist aftur á dagskrá Ríkisútvarpsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.