Harmahjal

DSC_0600

Í Ívars þætti Ingimundarsonar er sagt frá íslenskum manni sem átti vist hjá Eysteini kóngi. Naut Íslendingurinn velvilja hans og vináttu.

Þar var einnig bróðir Ívars, Þorfinnur. Þegar sá snéri aftur heim til Íslands bað Ívar bróður sinn að hann „skyldi þau orð bera Oddnýju Jóansdóttur að hún biði hans og giftist eigi".

Þegar Ívar fer síðan á eftir bróður sínum til Íslands kemst hann að því að Þorfinnur hefur sinnt erindi þessu á þann veg, að hann bað Oddnýjar sjálfur og tók hún bónorði hans.

Þetta varð Ívari skiljanlega mikið áfall. Hann „unir öngu", siglir til baka á konungs fund og er alveg í rusli. Það sér Eysteinn kóngur og spyr vin sinn hvað sé að angra hann. Ívar segist ekki geta sagt frá því en kóngur gefst ekki upp og spyr hvort einhverjir menn í hirðinni séu að angra hann. Því neitar Ívar.

Þá innir Eysteinn hinn dapra mann eftir því hvort honum sé ekki nóg virðing sýnd en Ívar neitar aftur.

Eysteinn kóngur gefst ekki upp heldur áfram að grafast fyrir um ástæður þessarar miklu ógleði Ívars. Þær tilraunir bera ekki árangur þangað til kóngi hugkvæmist að spyrja hinn íslenska mann hvort hann sakni konu á heimalandi sínu. Og því svarar Ívar játandi.

Þá býðst konungur til að útvega honum far heim til Íslands og nesta hann með innsigluðu konungsbréfi sem ætti að duga honum til að kvænast konunni. Ívar kvað það ófært og stynur loksins upp því sanna og sára í málinu:

Bróðir hans á konuna sem hann elskar.

Þá rann upp fyrir Eysteini kóngi að sú leið sem hann ætlaði að fara til hjálpar vini sínum væri ófær.

„Hverfum þar frá," segir hann og stingur upp á því að Ívar komi með sér á veislur eftir jól. Þar verði margir vænlegir kvenkostir. Ívar svarar því til að alltaf þegar hann sjái fallega konu minnist hann þessarar einu „og er æ því meiri minn harmur".

Þá býðst kóngur til að gefa Ívari eigur og lausafé en Ívar vill ekki þiggja.

„Vandast mér nú heldur því að eftir hefi eg nú leitað sem eg kann," segir Eysteinn kóngur þá. Síðan kemur lokatilboðið, svohljóðandi:

„Far þú nú hvern dag þá er borð eru uppi á fund minn og eg sit eigi um nauðsynjamálumog mun eg hjala við þig. Skulum við ræða um konu þessa alla vega þess er þú vilt og má í hug koma og mun eg gefa mér tóm til þessa því að það verður stundum að mönnum verður harms síns að léttara er um er rætt."

Er skemmst frá því að segja að þetta þiggur Ívar. Hittast þeir oft vinirnir og ræða um konuna og „bættist nú Ívari harms síns vonum bráðara".

Þessi gamla saga segir ótímanleg sannindi sem oft gleymast og verða aldrei of oft upp rifjuð.

Stundum er ekkert hægt að gera. Þá er vinur með hlustandi eyra og elskandi hjarta eina haldreipið og það að mega hjala við hann um harma sína dýrmætara en önnur heimsins auðæfi.

Pistillinn birtist áður á tru.is.

Myndin er af Súlum, bæjarfjalli Akureyringa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband