27.2.2007 | 11:19
Einelti fyrir að þiggja ekki stuðning?
Allnokkur umræða hefur verið um Vinaleið Þjóðkirkjunnar. Enn er Vinaleið aðeins í boði í einhverjum skólum syðra þannig að ég þekki ef til vill ekki nógu vel framkvæmdina, en mér skilst að Vinaleið sé tilboð um sálgæslu og stuðning í grunnskólum, veitt af þjónum kirkjunnar, en á forsendum skólanna. Er þjónustan veitt með persónulegum viðtölum. Gagnrýnendur Vinaleiðar hafa m. a. notað þau rök, að þau börn sem ekki vilji eða megi nýta sér þessa þjónustu, gætu hugsanlega orðið fyrir einelti. Mér finnst þetta forvitnilegur málflutningur. Verða börn virkilega fyrir einelti í skólum vilji þau ekki þiggja stuðning fagfólks, t. d. á borð við sálfræðinga? Eru þau lögð í einelti vegna þess að sum börn þurfa á slíkri þjónustu að halda en þau ekki? Og ef svo væri, ætti þá að hætta að bjóða upp á slíka þjónustu? Væri þá ekki nær að grípa til aðgerða gegn sjálfum vandanum, nefnilega eineltinu? Telja menn það í raun og veru bestu trygginguna gegn einelti að hafa alla eins? Er ekki vænlegra að rækta með börnunum vitund og virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Fjölbreytileika sem er í því fólginn að ekki eru öll börn eins, þau hafa ekki öll sömu þarfir eða sama menningarlega bakgrunn.
Mér finnst merkilegt að svona sjónarmið heyrist á sama tíma og rætt er um mikilvægi einstaklingsbundinnar námsskrár, þar sem viðurkennt er sníða eigi skólastarfið að mismunandi þörfum og getu einstaklinganna.
Athugasemdir
Sæll Svavar... Gaman að rekast á þig með blogg hér og hlakka ég til að lesa það sem þú hefur að segja ... Sjálf lenti ég í erviðu einelti sem barn hér á akuryeir og það hefur fylgt mér upp til fullorðins áranna.. þannig að ég er fillilega sammála þér að það þarf að taka á rót vandans og það ekki seinna en í dag. Mér hvíður fyrir því að senda barnið mitt í skóla á næsta ári vitandi hvernig þessi heimur er orðinn þótt að ég hafi mína reynslu þá veit ég að það eru mörg börn í dag sem upplifa það mun verra og þeim börnum óska ég að Guð styrki þau og síni ljósið því þetta er hræðilega lífsreinsla hvað þá að burðast með allt lífið.
Guð geymi þig... Kveðja Margrét.
Margrét Ingibjörg Lindquist, 27.2.2007 kl. 11:32
Þakka þér góðar kveðjur og óskir. Við þurfum að vera vakandi fyri því hvernig börnum okkar líður í skólanum og grípa strax inn í ef okkur sýnist ástæða til. Vera í góðu sambandi við kennarana, en nóg er af góðu fagfólki í íslenskum skólum, ekki síður hér á Akureyri en annars staðar. Kennarar vilja langflestir eiga gott og náið samstarf við foreldra. Ég held að þú þurfir ekki að kvíða því að senda barnið þitt í skóla. Frekar að taka þátt í tilhlökkun þess og vera á varðbergi, eins og ég veit að þú gerir.
Gangi þér vel í öllu þínu,
Svavar
Svavar Alfreð Jónsson, 27.2.2007 kl. 14:43
" Verða börn virkilega fyrir einelti í skólum vilji þau ekki þiggja stuðning fagfólks, t. d. á borð við sálfræðinga?"
Þjónusta sálfræðinga er algjörlega óháð trúarskoðunum barna eða foreldra þeirra.
Sérðu ekki hættuna á því að ef börn mega ekki nota þjónustu prests, vegna þess að foreldrar þeirra eru trúlaus, sé þar með komin hætta á einelti?
Af hverju viljum við gera upp á milli barna í skólum útfrá trúarskoðunum foreldra þeirra?
Fyrir stuttu ræddi ég við tvær ungar stúlkur sem urðu fyrir aðskasti í grunnskóla vegna þess að þær vildu ekki fara í kirkju um jólin. Þær urðu fyrir áreiti sem ég get ekki túlkað öðruvísi en einelti, bæði frá nemendum og nokkrum kennurum.
Biskupinn er búinn að segja að Vinaleið sé þjónustu fyrir börn sem eru í Þjóðkirkjunni. Það er ljóst að slíkt stangast á við grunnskólalög og Þjóðskrá.
Af hverju eiga mín börn að líða fyrir það að ég er trúlaus? Af hverju á ég að þurfa að láta setja þau til hliðar og þar með opinbera trúarskoðanir mínar og þeirra, í opinberum grunnskólum?
Svavar, þú hlýtur að geta séð að þarna er verið að búa til vandamál og hættu á einelti.
Matthías Ásgeirsson
ps. vertu heiðarlegur og hundsaðu fordæmi kollega þinna sem eyða öllum óþægilegum athugasemdum. Ég vista þessa athugasemd hjá mér.
Matti (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 20:12
"Það er ljóst að slíkt stangast á við grunnskólalög og Þjóðskrá."
Hér átti að sjálfsögðu að standa Stjórnarskrá en ekki Þjóðskrá :)
Matti (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 20:28
Nei, ég tel ekki mikla hættu á að þau börn lendi í einelti, sem ekki mega eða vilja þiggja þjónustu sálfræðinga eða starfsfólks vinaleiðar þjóðkirkjunnar. Hættan er held ég meiri að börnin sem þjónustuna þurfa og þiggja geti orðið fyrir aðkasti. Grunnskólinn hefur langa reynslu af því að veita börnum með mismunandi trúarskoðanir þjónustu. Ég held að þar á bæ leggi menn sig fram við að koma fram við öll börn af virðingu og nærgætni. Frá því geta verið undantekningar, eins og dæmið sem þú vísar til. Það er vissulega sorglegt. Verði börn fyrir aðkasti vegna trúarskoðana tel ég réttu leiðina að takast á við eineltið, rækta með börnunum vitund fyrir því að þau eru ekki öll eins og kenna þeim að höndla fjölbreytnina, eins og ég sagði í pistlinum. Hvort sem börn verða fyrir einelti vegna þess að þau þiggja þjónustu sálfræðings eða mega ekki þiggja hana tel ég til dæmis réttara að taka á slíku viðhorfi frekar en að afnema þjónustuna.
PS Ég eyði hikstalaust öllum athugasemdum sem hafa að geyma óviðeigandi ummæli eða meiðandi aðdróttanir í garð einstaklinga og hópa. Athugasemd þín fær að standa þrátt fyrir þá aðdróttun þína að kollega mínir eyði "öllum óþægilegum athugasemdum". Ég held að við vitum báðir að það er ekki satt.
Svavar Alfreð Jónsson, 3.3.2007 kl. 21:40
"Nei, ég tel ekki mikla hættu á að þau börn lendi í einelti, sem ekki mega eða vilja þiggja þjónustu sálfræðinga eða starfsfólks vinaleiðar þjóðkirkjunnar."
Telur þú einhverja hættu á því að starfssemi í skólum sem gengur meðal annars út á að aðgreina börn vegna trúarskoðana þeirra eða foreldra þeirra geti valdið því að börn lendi í einelti?
Ekki mikla hættu, heldur einhverja hættu? Finnst þér ástæða til þess að halda úti þjónustu í grunnskólum sem einungis beinist að börnum sem eru í ákveðnu trúfélagi?
Nú hefur komið fram að a) Vinaleið er fyrir börn í Þjóðkirkjunni og b) að Vinaleið er boðun (Jóna Hrönn Bolladóttir á málþingi í Garðabæ á fimmtudag). Eiga grunnskólar ekki að vera án aðgreiningar?
ps. Ég alhæfði ekki um alla kollega þína, en sumir þeirra gera það sem ég talaði um.
Matthías Ásgeirsson
Matti (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 21:56
Rauðhærð, lélegur í fótbolta, mamma hennar er prestur, útskeifur, klár, pabbi hans er trúlaus, fermist ekki, stamar, bróðir hennar er hommi, bólugrafinn, seinþroska, snemmþroska...
Allt eru þetta hugsanlegar ástæður eineltis og eins og ég sagði er rétta leiðin til að takast á við eineltið ekki sú að gera alla eins, heldur sú að kenna börnunum að meta fjölbreytileikann og lifa með honum.
Við verðum sjálfsagt seint sammála um Vinaleiðina, Matti, og um hana gildir sama og um flest annað: Það má finna rök með og á móti.
Ég hef það mikla trú á grunnskólanum og því fólki sem þar starfar að ég trúi því ekki að það byði Vinaleiðina velkomna ef þar væri um að ræða trúboðs- og áróðurstæki trúfélags og heilaþvottur á börnum.
Nýlegar kannanir leiða í ljós að stór hluti íslenskra barna þjáist af einsemd. Það vita fáir betur en þeir sem starfa með börnunum í grunnskólunum. Vinaleiðin er að minnu hyggju eitt tæki til að bregðast við þessari einsemd íslenskra skólabarna. Það að Þjóðkirkjunni er treyst af skólunum til að vinna slíkt starf segir e. t. v. sitt um reynslu grunnskólans af samvinnu við kirkjuna.
Með vinarkveðju,
Svavar
Svavar Alfreð Jónsson, 4.3.2007 kl. 10:59
"Það að Þjóðkirkjunni er treyst af skólunum til að vinna slíkt starf segir e. t. v. sitt um reynslu grunnskólans af samvinnu við kirkjuna."
Hvað ef skólastjórinn er kfum maður? Hvað segir það okkur? Hvað er hinn skólastjórinn vildi frekar fá námsráðgjafa en kirkjan vildi ekki styrkja slíkt heldur krafðist þess að fá vígðan starfsmann inn í skólann.
Er virkilega ástæða til þess að auðkenna börn eftir trúarskoðunum í grunnskólum? Eiga börn ekki bara að vera börn, ekki kaþólsk, lúthersk eða trúlaus börn.
Matthías Ásgeirsson
Matti (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.