24.12.2013 | 11:13
Dúkurinn
Margra góðra gjafa minnist ég frá jólum bernsku minnar. Einu sinni fengum við systkinin til dæmis átta millimetra sýningarvél frá foreldrum okkar. Fylgdu með tvær spólur, annarsvegar teiknimynd með þeim sjóndapra öldungi Mister Magoo en hinsvegar svarthvítur skrípaleikur um ævintýri þeirra fóstbræðra Abotts og Costello í slökkviliðinu. Ekki tók nema nokkrar mínútur að sýna hvora mynd en við systkinin fengum aldrei nóg af að sjá þær enda var þetta fyrir daga sjónvarpsins. Mátti faðir okkar standa sveittur við linnulausar endursýningar langt fram eftir jólanóttinni. Kyrrð hennar í þessari Skarðshlíðarblokk var reglulega rofin af skærum barnshlátrum. Var komin megn hitalykt af sýningarvélinni þegar við fengumst loks í koju.
Ég man líka vel eftir því þegar okkur áskotnaðist sparksleði í jólagjöf. Þannig sleði samanstóð af stóli sem festur var á langa og mjóa stálteina. Stóð sparkarinn á teinunum, hélt um stólbakið og spyrnti áfram sleðanum. Farþeginn lét fara vel um sig á stólnum og naut ferðalagsins. Við systkinin sváfum lítið þá jólanótt vegna tilhlökkunar og spennings því foreldrar okkar þvertóku fyrir að bregða sér út á rennireið þessari fyrr en í fyrsta lagi á jóladag þrátt fyrir grátbeiðnir hinna nýbökuðu sleðaeigenda, tilvalið ökufæri og litla bílaumferð á götum Akureyrarbæjar.
Seint mun ég líka gleyma því þegar ég reif spenntur utan af þokkalega hörðum pakka frá ömmu minni og afa Innbænum. Rak ég upp stór augu þegar innihaldið blasti við: Risastórir ullarsokkar og pakki af King Edward vindlum. Þóttu þeir framúrstefnuleg gjöf handa tíu ára strákhnokka. Á sama tíma en við annað jólatré handfjatlaði rígfullorðinn eiginmaður frænku minnar leikfangabyssu og þrjá pakka af rauðum hvellettukrönsum. Það góss leyndist í pakka til hans frá sömu gefendum og sendu mér vindlana. Undrandi néri hann skeggloðna kjammana uns skýring á þessu háttalagi barst, mistök í merkingum á pökkum til umræddra ættingja.
Einna eftirminnilegust er mér þó gjöf sem mér var ekki gefin heldur gjöf sem ég gaf. Þegar ég lít til baka hafa sennilega fáar gjafir glatt mig meira og látið mér líða betur.
Þannig var að skömmu fyrir jól tókst okkur systkinunum að skrækja örlítinn pening til gjafakaupa út úr foreldrum okkar. Við vorum ekki nema rétt byrjuð í skóla en þóttumst samt svo fullorðin að nú mættum við ekki láta nægja að þiggja gjafir. Við yrðum líka að vera menn með mönnum og gefa.
Við hugsuðum stórt þótt fjármunirnir væru ekki miklir sem til ráðstöfunar voru. Á þessum árum var nánast allt framleitt á Akureyri nema geimflaugar. Hér var til dæmis býsna fjölbreytileg framleiðsla á húsgögnum. Við Glerárgötu var verslun húsgagnaverksmiðjunnar Valbjarkar. Þar var hægt að fá mjög skemmtilega hönnuð húsgögn. Þangað fórum við systkinin og gáfum okkur fram við afgreiðslumann því nú átti að gefa mömmu og pabba akureyskan hönnunarhúsmun í jólagjöf.
Afgreiðslumaðurinn tók okkur vel, leiddi okkur um verslunina og sýndi okkur húsgögn ilmandi af viði og tekkolíu. Við sáum fyrir okkur glansandi borð og bólstraða stóla í stofu foreldra okkar. Úrvalið var svo sannarlega nóg en þegar til þess var ætlast að við reiddum fram úr sjóðum tilhlýðilega greiðslu er óhætt að segja að hringurinn hafi þrengst fljótt og örugglega, alveg þangað til hann varð að punkti þar sem ekki var pláss fyrir neitt.
Afgreiðslumaðurinn sá sig tilneyddan að tilkynna hinum ungu kúnnum sínum að því miður hefðu þeir ekki efni á að kaupa neitt í þessari búð, ekki einu sinni blaðagrind eða bókastoð. Leyndi sér ekki að honum þótti leiðinlegt að þurfa að gerast sendiboði slíkra vátíðinda og mátti ekki á milli sjá hvor var niðurlútari hann eða við þegar við gengum vonsvikin út úr búðinni.
Rétt áður en við opnuðum dyrnar kallaði hann á eftir okkur og bað okkur að koma til sín.
Við hlýddum honum og við afgreiðsluborðið kvaðst hann vita ráð. Hann sýndi okkur bút af rauðköflóttu áklæði og spurði okkur hvort okkur þætti það ekki fallegt. Við kinkuðum bæði kollunum því efnið var glæsilegt. Þá bað þessi vingjarnlegi maður okkur að bíða smástund. Síðan brá hann sér á bakvið. Þegar hann kom til baka hafði hann búið til úr áklæðinu forkunnar fagran lítinn borðdúk. Dúkurinn var með kögri því þessi velgjörðarmaður okkar hafði rakið upp rönd af hverri hlið efnisbútsins. Vorum við systkinin fljót að taka gleði okkar á ný þegar við sáum þessa flottu gjöf.
Maðurinn rúllaði dúknum upp og pakkaði honum inn í gjafapappír. Við greiddum uppsett verð fyrir allt saman og héldum síðan hróðug út í þennan desemberdag. Við gátum varla beðið eftir að sjá svipinn á pabba og mömmu þegar að því kæmi að þau opnuðu pakkann frá krökkunum sínum.
Loksins þegar sú stund rann upp og við höfðum bæði fengið að opna nokkrar gjafir gekk systir mín stolt að jólatrénu og dró skrautlegan sívalning upp úr pakkahrúgunni. Hún afhenti foreldrum okkar gjöfina með þeim orðum að þetta væri frá börnunum þeirra. Um leið skotraði hún augunum til mín og við kímdum bæði. Við urðum alsæl með viðbrögðin. Foreldrar okkar voru á einu máli um að annan eins dúk hefðu þau aldrei séð og kysstu okkur og kjössuðu fyrir útsjónarsemina og höfðingskapinn. Við vorum rjóð af sælu yfir því hversu dúkurinn hitti vel í mark.
Ég man ekkert hvað ég fékk í jólagjöf þetta aðfangadagskvöld en ég man vel eftir dúknum, gleðinni sem hann vakti og þakklætinu sem við uppskárum. Það er gaman að fá gjafir en ekki síðra að gefa þær.
Nú, tæpri hálfri öld síðar, les ég það að sálfræðingur nokkur í Bandaríkjunum, Adam Grant, hafi eftir umfangsmiklar rannsóknir og kannanir sýnt fram á að þeim vegni best í lífinu sem kunni best að gefa og vera gefandi. Bók hans um efnið, Give and Take, hefur náð efstu sætum á metsölulistum í mörgum löndum. Gagnrýnendur hafa ausið bókina lofi og m. a. sagt hana kollvarpa hugmyndum okkar um hvernig lífið gangi fyrir sig. Þar sé ekki mest um vert að ná sem mestu og eignast sem flest heldur þvert á móti; sá sem vill lifa góðu og innihaldsríku lífi og finna hamingjuna á að spá í hvað hann geti gefið og hvernig hann geti orðið öðrum að liði.
Í raun er Adam Grant ekki að uppgötva neitt nýtt. Lengi hefur mannkynið vitað að sælla sé að gefa en þiggja. Samt er ekki vanþörf á að minna okkur á þau sannindi. Það hefur Valbjarkardúkurinn gert. Um árabil prýddi hann lítið stofuborð á æskuheimili mínu. Alltaf þegar ég sá hann hitnaði mér um hjartaræturnar og ég fann fyrir gleði gjafarans.
Og nú, þegar dúkurinn hefur verið tekinn úr notkun, heldur hann áfram að vera mér til áminningar um það sem mestu máli skiptir í þessu lífi. Stundum er sagt að jólin séu hátíð gjafanna. Það er rétt. Þó gildir það sama um gjafir jólanna og aðrar gjafir:
Þær sem skipta okkur mestu máli og ráða mestu um hamingju okkar eru ekki gjafirnar sem við fáum heldur hinar sem við gefum.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og mættuð þið gefa hvert öðru gleðileg jól!
(Birtist í blaðinu Íslendingi nú fyrir jólin)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.