Loftbrúin til Biafra

Þessa dagana er ég að lesa mjög athyglisverða bók. Hún heitir "Airlift to Biafra" og er eftir kaþólskan írskan prest, Tony Byrne. Tony kom til Nígeríu sem trúboði og starfaði þar sem prestur þegar hluti landsins, Biafra, klauf sig út úr því og lýsti yfir sjálfstæði. Sumarið 1967 upphófst blóðug styrjöld milli ríkjanna og lauk ekki fyrr en 30 mánuðum síðar.

Stríðið í  Biafra var það fyrsta sem háð var fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og myndir úr hungursneyðinni þar, af deyjandi börnum með uppþembda kviði, fylltu áhorfendur á Vesturlöndum hryllingi og hneykslan. Biafra var hornreka og naut hvorki stuðnings Vesturvelda né Sovétríkjanna og þeirra bandamanna. Nígería fékk vopn úr báðum áttum og þegar Biafra var lokað fyrir allri umferð, á landi, sjó og í loft, aðhafðist enginn neitt.

Þá skipulögðu menn á borð við Tony Byrne loftbrúna, en hún náði frá eynni Sao Tome undan vesturströnd Afríku til Biafra. Einkum voru það kirkjulegar hjálparstofnanir sem stóðu að loftbrúnni, meðal annars frá Íslandi. Flugmennirnir sem flugu með mat og lyf lögðu sig í stórhættu, því Nígeríuher hikaði ekki við að reyna að skjóta niður vélarnar. Alla vega ein af þessum flughetjum var íslensk, Arngrímur Jóhannsson.

Tony var yfirmaður hjálparstarfs kaþólsku kirkjunnar í Biafra og lét ekki nægja að vinna á vettvangi, heldur lagði á sig erfið ferðalög um veröldina, þar sem hann hitti framámenn og talaði máli barnanna í Biafra.

Biafra á það sameiginlegt með Írak að vera olíuland og í báðum löndunum bitnar stríðið helst á þeim sem síst skyldi: Saklausum börnum.

Bókin um loftbrúna er skrifuð með hjartanu og enda þótt hún fjalli um skelfilega atburði lýsir hún af mannlegri reisn.

1856072010_02__AA240_SCLZZZZZZZ_

Nú býr Tony á Írlandi og rannsakar einelti í skólum, vinnustöðum og á heimilum. Nýlega kom hann hingað til lands til að fræða fólk um einelti. Þá bar fundum okkar saman, á fámennum en eftirminnilegum fundi í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Tony er yfirlætislaus maður, hlýr og ófeiminn. Hann kom fram við mig eins og um gamlan vin væri að ræða.

Svo sendi hann mér umrædda bók frá Írlandi og fékk Arngrím til að koma henni til mín, ásamt ritum um hið nýja hugðarefni sitt, einelti. Er það ekki í fyrsta skipti sem kapteinn Arngrímur sendist fyrir þennan merkilega mann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Sæll Svavar.

Matti Björns faðir minn var lofskeytamaður á Grjóteynni sem fór með fisk þangað suður eftir það var "ævintýraleg" ferð.

Ég var einu sinni að tala við góðan kaþólskan prest og segja honum frá vissum raunum sem ég hafði mætt í starfi mínu. Þá sagði hann mér frá dvöl sinni í Biafra og hræðilegum atburðum sem hann var vitni að þar.  Það var skelfilegt og við fórum saman með bæn.

Kalli

Karl V. Matthíasson, 1.3.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband