27.1.2014 | 10:37
Imagine
Styrkur fjölmenningarsamfélaga er sá að þar er ekki einn heimur þar sem allir hugsa eins. Samfélög fjölmenningarinnar samanstanda af mörgum ólíkum menningarheimum. Þar hugsar fólk í allar áttir og þess vegna eru fjölmenningarsamfélög ríkari en önnur.
Þegar við kynnumst fólki frá framandi löndum eignumst við oft ný sjónarhorn til lífsins. Þess vegna telst sá heimskur á íslensku sem er alltaf heima hjá sér. Sennilega hefur okkur Íslendingum aldrei vegnað betur en þegar við vorum opin fyrir erlendum áhrifum og áttum góða samvinnu við útlönd. Ástandið var hvað aumast þegar þjóðin bjó við einangrun.
Hvað sem segja má um íslenska umræðumenningu sýnir hún oft, að við eigum erfitt með að þola fjölbreytileikann. Kannski er það sammannleg árátta, að vilja helst hafa alla eins mann sjálfan?
Það er ekki umburðarlyndi að vilja hafa alla eins og steypa allt í sama mótið. Umburðarlyndi felst í því að leyfa fjölbreytileikanum að dafna og umbera helst allt nema það sem ógnar umburðarlyndinu.
Í lagi sínu Imagine ímyndar John Lennon sér heim án landamæra, eigna og trúarbragða, þar sem hvorki er til helvíti né himnaríki. Þess vegna finnst mörgum þetta lag ekkert sérstaklega kristilegt.
Aðrir hafa bent á að heimur þar sem hvorki finnast mismunandi þjóðir né trúarbrögð sé ef til vill ekkert spennandi. Þar séu allir eins og hugsi eins. Búið sé að svipta okkur þessum dásamlega fjölbreytileika. Mismunandi lönd, ólíkir menningarheimar, fjölbreytni í trúarlegum viðhorfum, stjórnmálaskoðunum og lífsháttum geri heiminn skemmtilegan og lærdómsríkan.
Í áramótaávörpum sínum var ráðamönnum þjóðarinnar tíðrætt um samstöðu. Margir kusu að skilja orð þeirra sem atlögu að fjölbreytni í skoðunum og lýðræðislegri umræðu því auðvitað er stórvarasamt fyrir lýðræðið ef allir eiga alltaf að vera á sama máli.
Þó þrífst fjöbreytnin ekki nema með samstöðu. Fjölbreytni kallar á deilur og stundum átök. Því verður hún að lúta ákveðnum lögmálum. Fjölbreytileikann verður að varðveita með því að fólk komi sér saman um ákveðin grundvallargildi og leikreglur. Án þess getur verið stutt í að upp úr sjóði eins og sagan sýnir. Fjölbreytnin lifir ekki án samstöðu.
Imagine er lag tileinkað, samtöðu, einingu og bræðralagi. Í síðasta viðtalinu sem tekið var við þau John og Yoko áður en hann lést árið 1980 segir hann frá tilurð lagsins1. Kveikjuna að því er annarsvegar að finna í ljóðabók eftir Yoko Ono frá árinu 1964 en hinsvegar í kristilegri bænabók sem fjallaði um svokallaða jákvæða bæn, positive prayer. Í jákvæðri bæn er reynt að virkja kraft hugarflugsins. Ef það er hægt að ímynda sér heim þar sem friðurinn ríkir gæti hann orðið að veruleika.
Imagine hefur því trúarlegan bakgrunn og að sögn höfundarins var það ekki samið til höfuðs trúarbrögðunum heldur því hugarfari sem oft fylgir þeim, að hver telji sinn guð meiri og stærri en guð náungans.
Imagine er vissulega gagnrýnið á trúarbrögðin og ýmsar trúarlegar hugmyndir. Og Lennon hefur þar mikið til síns máls. Þegar hann talar um að ekkert helvíti sé undir okkur og aðeins stjörnuhimininn yfir okkur er hann að benda á það sem margir kristnir guðfræðingar hafa gert fyrr og síðar:
Kristin trú er ekki bundin ákveðinni heimsmynd, ekki hugmyndum miðalda um brennandi helvíti niðri í jörðinni eða kerfi sjö himna í kúplinum sem er yfir jörðinni á meðan hún taldist vera flöt.
Við gleymum því stundum að trúarbrögð eru ekki það sama og trú. Trúarleg iðkun með siðum sínum og venjum er mannasmíði og að því leyti ófullkomin eins og önnur slík verk. Sagan sýnir að stundum hafa trúarbrögðin orðið óvinir trúarinnar og reynt að kæfa hana. Þess vegna þurfum við að skoða trúarbrögðin á gagnrýninn hátt. Marteinn Lúther er einn þeirra fjömörgu sem það gerði.
En þó að Imagine sé gagnrýnið á trúarbrögðin er ýmisleg trúarlegt í textanum. Þar er maðurinn í paradísarástandi sínu, stöðunni sem hann var í fyrir syndafallið, þegar hann var eitt með skapara sínum og hafði þess vegna hvorki þörf fyrir að trúa né trúa ekki. Þegar maðurinn hafði óhlýðnast Guði og neytt ávaxtar af skilningstré góðs og ills rofnuðu þessi tengsl. Tilveran var ekki lengur bara góð. Syndin kom í heiminn og hann skiptist upp í gott og illt, himin og hel, trú og vantrú.
Í Imagine er líka horft fram á veginn, til enda hans, þegar heimurinn eins og við þekkjum hann verður ekki lengur til. Kristnir menn sjá fyrir sér nýjan himin og nýja jörð. Og eins og John Lennon eiga kristnir menn sér draum um heim án græðgi, hungurs og ranglætis, þar sem enginn mun gera illt eða valda skaða, þar sem hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.
Kristnir menn trúa á óraheim Imagine. Lagið hjálpar okkur að sjá hann fyrir okkur.
Þó ættum við mennirnir að vera búnir að læra að uppskriftin að hinum fullkomna heimi er enn ósamin. Enda þótt við eigum okkur von um fullkominn heim vitum við að mannsins heimur verður alltaf breyskur og ófullkominn eins og maðurinn sjálfur. Heimur okkar verður aldrei það fullkominn að ekki sé hægt að bæta hann.
Þess vegna hefur heimurinn sjaldan verið líkari helvíti en þegar mennirnir töldu sig hafa fundið upp hið eina sanna paradísarkerfi fyrir þjóðfélag sitt.
Þangað til að vonirnar rætast um nýjan himin og nýja jörð er besta mögulega heiminn sennilega að finna í samstöðu um fjölbreytni.
Í Kólossubréfinu stendur:
Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
1) The concept of positive prayer ... If you can imagine a world at peace, with no denominations of religionnot without religion but without this my God-is-bigger-than-your-God thingthen it can be true ... Sjá hér.
Byggt á hugleiðingu í dægurlagamessu í Akureyrarkirkju þ. 26. 1. 2014
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.