Ég vil ósjálfstæðan Seðlabanka

DSC_0276 

Einn lærdómurinn af hrunum og kreppum síðustu áratuga er hversu erfitt getur verið að sjá fyrir hvernig efnahagsmál þróast. Spár greiningardeilda rættust ekki og skýrslur eftir hámenntaða og titlum hlaðna hagspekinga reyndust ekki pappírsins virði.

Þetta á sér meðal annars þá skýringu að spágeta hagfræðinga hefur verið ofmetin. Veruleikinn rúmast ekki í vélrænum hagfræðikerfum. Hagfræði snýst ekki bara um tölur, staðreyndir og fyrirsjáanlega hegðun mannsins. Hagkerfi virka ekki eins og bílvélar.

Lögmál markaðarins eru ekki óumbreytanleg lögmál sem maðurinn verður að beygja sig fyrir. Trú frjálshyggjunnar á hina ósýnilegu hönd markaðarins reyndist röng. Markaðurinn sér ekki um sig sjálfur. Hann þarf reglur. Hann þarf aðhald. Honum þarf að stjórna.

Í  umtalaðri bók sinni Economics of Good and Evil bendir tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlasek á að hagkerfi séu fyrir manninn en ekki öfugt.

Maðurinn er ekki strengjabrúða markaðsaflanna. Hann er ekki tannhjól í hagkerfinu. Öll kerfi eru tilkomin vegna mannlegra þarfa. Það sama á við um hagkerfið. Það hefur þann tilgang að þjóna manninum og vera honum til blessunar. Þess vegna er maðurinn herra hagkerfisins og það þarfnast stöðugs endurmats og endurhönnunar hans til að geta þjónað tilgangi sínum.

Í lögum um Seðlabanka Íslands er kveðið á um að hann sé „sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins“ eins og segir í upphafsgrein laganna.

Séu lögin lesin áfram kemur í ljós að sjálfstæði Seðlabankans er ekki algjört.  Það felst ekki í því að bankinn sé engum háður og sjálfum sér algjörlega ráðandi. Lögum samkvæmt ræður Seðlabankinn til dæmis ekki meginverkefnum sínum. Hann á að stuðla að stöðugu verðlagi og öruggu fjármálakerfi, svo nokkuð sé nefnt. Lögin kveða líka á um það hlutverk Seðlabankans að styðja framgang stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Þessi mikilvæga efnahagsstofnun, Seðlabanki Íslands, hefur sama megintilgang og aðrar stofnanir samfélagsins: Hann er í þágu fólksins. Bankinn er ekki sjálfstæður gagnvart því. Hann er ekki óháður okkur, fólkinu í landinu, sem eigum Seðlabankann. Honum ber að starfa fyrir okkur og vera háður hagsmunum þjóðarinnar.

Og til þess að geta sinnt því hlutverki sínu þarf Seðlabankinn sjálfstæði gagnvart sérhagsmunaöflum og valdaklíkum. Hann á að vera óháður öllu slíku.

Á lokasíðum bókar sinnar minnir Tomas Sedlasek okkur á að við berum sjálf ábyrgð á hagsmunum okkar og velferð. Hagkerfið er ekki sjálfstæð og lokuð eining sem lýtur eigin lögmálum. Við stýrum því. Við getum stýrt því til góðs eða ills. Hagfræði er mórölsk vísindi. Þess vegna er ekki nóg að láta lögfróða og talnaglögga menn um að hanna og stjórna hagkerfum. Til þess þarf líka innsæi skáldanna og glöggskyggni heimspekinganna.

Skuldakreppan er meira en efnahags- eða neytendakreppa. Hún ristir dýpra, segir Sedlasek. Ástæður hennar eru líka skortur á hófsemi. Skuldakreppan á sér rætur í græðgi. Ein orsök skuldakreppunnar er sú að við erum óseðjandi og ónæm á það sem við höfum. Skuldakreppan stafar meðal annars af vanþakklæti.

Til að komast út úr skuldakreppunni þarf nýjan anda og breyttan móral.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

=Pólitískan seðlabankastjóra?

Að allar nýkjörnar ríkisstjórnir setji sinn flokksmannn í stól seðalbankasjóra eftir hverjar nýjar Aþingiskosningar?

Jón Þórhallsson, 21.2.2014 kl. 08:38

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Nei, ég er nú ekki þeirrar skoðunar að það eigi að skipta um bankastjóra eftir ríkisstjórnum. Þess vegna er held ég mikilvægt að hafa þar bankastjóra sem ekki hafa miklar flokkspólitískar tengigngar eða meiningar.

Bankanum ber að styðja við efnahagsstefnu sitjandi ríkisstjórna - innan ákveðinna marka - og þess vegna er mikilvægt að traust ríki á milli ríkisstjórnar og bankastjóra á hverjum tíma.

En fyrst og fremst á að stýra bankanum með hliðsjón af hagsmunum eiganda hans sem er þjóðin.

Svavar Alfreð Jónsson, 21.2.2014 kl. 08:45

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Er þá ekki best að sitjandi Efnahags & viðskiptaráðherra verði yfirmaður seðlabankastjóra í skipuritinu eða hvað?

Jón Þórhallsson, 21.2.2014 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband