24.2.2014 | 10:36
Hinn alíslenski ESB-farsi
Saga ESB-umsóknar Íslands er með miklum ólíkindum.
Helmingur þeirrar ríkisstjórnar sem sótti um aðild að ESB tilheyrði stjórnmálaflokki sem var á móti aðild að ESB. Umsóknin átti að vera einskonar könnun á því sem í boði var.
Þegar í ljós kom hvað stæði til boða aðlögun að Evrópusambandinu og öllu þess regluverki með kostum og göllum fóru að renna tvær grímur á umsækjendurna sem sóttu um aðild að sambandi sem þeir vildu ekki gerast aðilar að.
Aðildarferlið fór að hiksta uns það stöðvaðist nánast alveg áður en kjörtímabilinu lauk enda annar stjórnarflokkanna á móti aðildinni sem sótt var um.
Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti þjóðarinnar andvígur aðild að Evrópusambandinu.
Samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti þjóðarinnar líka halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Með öðrum orðum: Meirihluti þjóðarinnar vill halda áfram aðildar- og aðlögunarferli að ríkjabandalagi sem meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í.
Árið 2010 lagði Vigdís Hauksdóttir til efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Árið 2014 leggur Vigdís Hauksdóttir til að aðildarviðræðum verði slitið án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Árið 2014 krefjast stjórnmálamenn þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB í nafni lýðræðisins sömu og höfnuðu alfarið þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna árið 2010.
Verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nú með þeirri niðurstöðu að þjóðin skuli halda áfram að sækjast eftir að ganga í samband sem hún vill ekki ganga í fær Evrópusambandið nýjan aðila að ræða við:
Í stað þess að ræða um aðild við ríkisstjórn Íslands þar sem annar stjórnarflokkanna var mótfallinn aðild sest Evrópusambandið nú niður og ræðir aðild við ríkisstjórn þar sem hvorugur stjórnarflokkanna vill aðild ekki frekar en þjóðin.
Það verður nú aldeilis munur fyrir ESB.
Og ef samningar nást og ríkisstjórnin sem vill ekki í ESB skrifar undir samning um aðild að ESB verða næstu skref þau, að Evrópuþingið, æðstu stofnanir ESB og hvert aðildarríki fyrir sig samþykki samninginn.
Eftir þá afgreiðslu alla verður samningurinn settur í þjóðaratkvæði á Íslandi, af ríkisstjórn sem er andvíg inngöngu og að beiðni þjóðar sem aldrei ætlaði sér í ESB heldur var bara að sjá hvað væri í boði og hvort hún væri kannski að missa af einhverju.
Það verður nú aldeilis gott fyrir trúverðugleika þjóðarinnar.
Athugasemdir
1. Vg mótaði þá stefnu að styðja aðildarumsókn í ljósi þess hversu stórt og mikilvægt málið er. Hugsunin var sú að kjósendur allir tækju upplýsta ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Þessi leið er lýðræðisleg og þessa leið hafa allar þjóðir farið, t.d. Noregur.
2. Alhliða og einhliða aðlögun stendur ekki til boða og engin þjóð sem gerst hefur aðili hefur gengist undir slíkt. EES samningurinn felur í sér einhliða aðlögun og hefur gert í áraraðir.Efnahagslöggjöf á Íslandi er að verulegu leiti evrópskur réttur sem tekinn hefur verið upp með einhliða aðlögun.
3.Ef áframhaldandi viðræður verða samþykktar getur ýmislegt gerst. Eðlilegt væri að utanríkisráðherra segði af sér. Skipuð yrði samningsnefnd sem hefði það hlutverk að tryggja hagsmuni Íslands í hvarvetna. Það er líka eðlilegt að Vigdís Hauksdóttir segði af sér vegna vanhæfni og þekkingarleysis.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 24.2.2014 kl. 11:45
,,Stækkunarstefnan hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og hafa þær endurspeglað þann efnahagslega og pólitíska veruleika sem við blasir hverju sinni. Stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af strangari skilyrðum fyrir inngöngu en áður tíðkaðist. Þetta er afleiðing þess að flestar þær þjóðir sem nýlega hafa gengið í sambandið, sem og þær þjóðir sem eru í aðildarviðræðum, eru á ýmsan hátt ólíkar þeim sem fyrir voru í sambandinu. Gildir það jafnt um efnahagsleg sem laga- og stofnanaleg atriði.
Þrátt fyrir að Ísland hafi nú þegar aðlagast reglu- og stofnanagerð Evrópusambandsins að hluta í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var ljóst að aðildarferlið færi
eftir þeim formlegu reglum sem gilda. Engin augljós ástæða var til að ætla að frá því fengjust undanþágur og að hægt yrði að flýta hinu formlega ferli. Gengið er út frá því að
umsóknarríki sækist eftir aðild. Í aðildarviðræðum er fjallað um skilyrði fyrir aðild og hvernig Ísland muni taka upp og hrinda í framkvæmd réttarreglum sambandsins. Er því
ekki að öllu leyti um hefðbundnar samningaviðræður að ræða."
Úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB
Svavar Alfreð Jónsson, 24.2.2014 kl. 12:18
Ekki gleyma hvaða kafla síðasta ríkisstjórn þorði ekki að opna viðræður um
Hvað var í þessum köflum sem þjóðin mátti allsekki fá viteskju um?
Grímur (IP-tala skráð) 24.2.2014 kl. 12:55
Þetta er alveg fyrirtaks úttekt hjá þér. Kanski er helsti drifkraftur farsans ruglingurinn með muninn á aðildar- og aðlögunarsamningi. Falsrökin með að hægt sé að kíggja í pakann.
Ef spaugstofan væri ekki dauð úr öllum æðum hefði hún átt að geta gert alveg ágætan farsa úr þessu með hurðarskellum og alles!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.2.2014 kl. 16:47
Góð samantekt. Málið er að vinstri stjórnin með Össur, Jóhönnu og Árna Pál og fleiri kom af stað þessari svikamillu að það væti hægt að kíkja í pakka, sem var bara ekki rétt, fullt af fólki trúir þessu ennþá. Sér í lagi vegna mikils áróðurs ríkisútvarpsins, dv og 365 miðla. Þess vegna er það umhugsunarvert að þvert á allan þennan áróður skuli ennþá 79% landsmanna ennþá vera á móti því að fara þarna inn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2014 kl. 16:57
Það hefur aldrei verið sett fram fyrir almenning um hvað var verið að semja- hvað við þurfum að láta af hendi- fólk hefur verið að reyna að sjá einhverja ástæðu fyrir þessari aðild- sem væri okkur í hag- ekki bara að ausa gæðum Landsins yfir skuldugt samband og spillt.
Erla Magna Alexandersdóttir, 24.2.2014 kl. 20:52
Sá fólk að þetta var 101 elítan sem mætti niður á Austurvelli. Getur verið að þau komi þangað að beiðni samfylkingar.Ég sá meiraaðseja fólk frá Elliheimilinu Grund. Getur verið að mergur samfylkingar séu íbúar 101. Ekkert vafamál.
Valdimar Samúelsson, 25.2.2014 kl. 10:02
Nú hafa vinstri grænir sett fram nýja ályktun í fimm liðum sem allar eru þegar komnar til framkvæmda nema sú síðasta. Um tímasetningu kosninga.
Píratar hafa einnig sett fram tillögu um þjóðaratkvæði um framhald, sem er samhljoða eldri tillögum sem Birgitta Jónsdóttir hafnaði í atkvæðagreiðslum.
Nú er allt gert til að þyrla upp moldroki um ótrúlegustu smáatriði óskyld málefninu til að forðast efnislega umræðu. Síðast náðu menn ekki andanum yfir því að þingsályktunartillagan gefi í skyn að einhverjir hafi kosið gegn sannfæringu sinni og stefnu þegar umsókn var samþykkt. Fornummelsið er ekki síst hjá vinstri grænum, sem kusu flestir gegn sannfæringu sinni, stefnu flokksins og kosningaloforðum.
Það þarf að finna eitthvað kröftugra orð en Farsi yfir þetta. Það gerir malinu ekki sanngjörn skil.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.2.2014 kl. 22:47
Annað kostulegt sem tröllríður umræðunni er sú staðreynd að allir þessir Evrópusinnar, sem ekki kusu Sjálfstæðisflokkinn saka hann nú um að hafa svikið kjósendur sína rétt eins og þeir væru í þeim hópi.
Enginn þeirra hefur áttað sig á þeirri himinhrópand rökvillu, enda ekki djúpir þankar að baki uppþotinu. Þar er hvert hálmstrá notað.
Þeir sem kusu sjálfstæðisflokkinn eru hinsvegar hæstánægðir með ákvörðunina fyrir utan handfylli einstaklinga sem ekki hefur áttað sig á hvað felst í orðinu Sjálfstæði.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.2.2014 kl. 23:02
Það var rætt við marga mótmælendur á Austurvelli fyrsta mótmæladaginn, menn gáfu sér góðan tíma til að leyfa fólki að tala út, í hinu "hlutlausa" útvarpi allra landsmanna, besta svarið fannst mér þega ein bálreið frú hellti sér yfir Bjarna Ben og kallaði hann föðurlandssvikara. Ég hef aldrei heyrt þá skýringu á föðurlandssvikara að hann vildi viðhalda sjálfstæði mannsins.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2014 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.