2.3.2007 | 09:13
Sælsbyrða
Óðum styttist í námsferð okkar félaganna til Salisbury á Englandi, en þangað höldum við sr. Óskar Hafsteinn og sr. Leifur Ragnar á Patró þarnæstu helgi. Við förum á námskeið um dulhyggjuna á Spáni á 16. öld og tökum sérstaklega fyrir heilaga Teresu frá Avila og heilagan Jón af krossinum.
Þetta er þriðja árið í röð sem ég sæki námskeið á Sarum, símenntunarmiðstöð ensku kirkjunnar í Salisbury. Væsir ekki um mann þar. Góðir kennarar og gott umhverfi. Maturinn í mötuneytinu prýðilegur og hrekur þann orðróm að enskur matur sé ekki til munns leggjandi. Góð bókabúð er á skólanum og fínt bókasafn.
Salisbury er falleg lítil borg suðvestur af Lundúnum, rétt hjá Stonehenge. Í henni er mikil og fræg dómkirkja sem státar af hæsta dómkirkjuturni á Bretlandseyjum. Sá er 123 metra hár og var reistur á árunum 1310 - 1333. Elsta kirkjuklukka Evrópu er í kirkjunni, frá 1386. Hvert kvöld eru sungnar kvöldtíðir í dómkirkjunni. Þar er um að ræða afar fagurt helgihald að hætti anglíkana.
Athugasemdir
Þetta hljómar spennandi. Þúverður endilega að blogga meira um þetta!
Árni Svanur Daníelsson, 2.3.2007 kl. 11:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.