Hin kerfisbundna græðgi

DSC_0451

 

Ég var að fletta eldgömlum Kirkjublöðum og rakst þar á kirkjuþingserindi sem Björn B. Jónsson flutti árið 1934. Þar segir:  

 

Verði aurafýknin æðsta drottinvald í landi, verður kirkja Krists að sjálfsögðu niðursetningur úti í horni þjóðlífsins.

 

Þetta á enn betur við á okkar dögum en árið 1934. Síðan þá hefur markvisst verið unnið að því að gera aurafíknina og græðgina að helstu drifkröftum samfélagsins. Það hefur tekist enda er kirkja Krists löngu að mörgu leyti orðin hornreka – og takið eftir, hér er talað um kirkju Krists, ekki einhverja ákveðna kirkjudeild, ekki endilega þjóðkirkjuna, heldur þá kirkju, þær sálir, sem tilheyra Jesú Kristi og eru hans. Hér er ekki verið að tala um einhver réttindi eða forréttindi tiltekins trúfélags. Hér er talað um ákveðinn boðskap Jesú Krists, gildi Jesú Krists og veruleika Jesú Krists.

 

Þar sem aurafíkn og græðgi eru helstu drifkraftarnir, þar hefur tekist að gera eyrun dauf fyrir þeim boðskap, hugann ólæsan á þau gildi og sálirnar ónæmar á þann veruleika.

 

Hungur er ein forsenda þess samfélags sem við höfum búið okkur til. Allar auglýsingarnar, ljósar sem leyndar, höfða til einhvers konar hungurs, skorts, ófullnægðra þarfa og langana sem ekki hefur verið svalað. Sé ekkert slíkt til staðar á kerfið ekki um annað að ræða en að búa til nýjar þarfir í því skyni að skapa forsendur fyrir hinni stöðugu neysluaukningu sem allt byggist á.

 

Hungrið í okkar heimshluta er geigvænlegt. Suður í Afríku eru börn að deyja úr hungri en hjá okkur eru síður dagblaða, dagskrár ljósvakamiðla, netið, hliðar strætisvagna og keppnistreyjur íþróttafólks undirlögð af áreitum til að æsa upp hungrið og sýna okkur hvernig hægt sé að seðja alla okkar sáru svengd. Drjúgur hluti af hverjum einasta degi lífs okkar fer í að minna okkur á öll þau ósköp sem við þurfum, allt það ótalmarga sem okkur skortir, hvað okkur vanti í raun rosalega mikið til að líf okkar geti talist mannsæmandi. Alið er á óánægju og ófullnægju því óánægðir og ófullnæðgir neytendur, þjakaðar þarfaverur, er það sem heldur hagkerfinu gangandi; þess vegna megum við helst ekki drekka minna áfengi í ár en í fyrra og þess vegna er ekki gott að við keyrum færri kílómetra en árinu áður.

 

Hagkerfi okkar byggist á neyslu. Aukin neysla er hagstæð fyrir hagkerfið. Þýsk-ameríski heimspekingurinn og rithöfundurinn Erich Fromm lýsir þróun vestrænna hagkerfa þannig, að smám saman hafi hin leiðandi spurning hætt að vera „hvað er gott fyrir manninn?” en í stað hennar hafi komið spurningin „hvað er gott fyrir vöxt og viðgang kerfisins”. Samkvæmt því er maðurinn til fyrir kerfið og lifir í þágu þess. Neysla þarf neytendur og kerfi sem þrífst á sívaxandi neyslu þarf sífellt duglegri og þurfarfrekari neytendur. Þess vegna er maðurinn fyrst og fremst neytandi í þessu kerfi. Til þess að gera manninn duglegan neytanda þarf að örva neysluþarfir hans. Í slíku kerfi verður græðgin dyggð, segir Fromm. Græðgin verður hluti af ríkjandi persónuleikamynstri og sú hugmyndafræði sem vill umgangast græðgina af varúð og temja hana er talin frumstæð, hallærisleg eða einfeldningsleg.

 

Ekki allar þarfir kalla á aukna neyslu. Við höfum líka þörf fyrir að finna okkur borgið og skynja að við höfum annan tilgang en að vera neytendur. Ýmsar andlegar og trúarlegar þarfir okkar leiða ekki til neysluaukningar. Þær þjóna ekki hagsmunum kerfisins og geta jafnvel ógnað því. Slíkar þarfir vill kerfið deyfa og svæfa. Ef við sinnum þörfum sem leitt gætu til þess að við yrðum ánægð, sátt, þakklát, hamingjusöm og sæjum því ekki ástæðu til að auka neysluna, drykkjuna og keyrsluna gæti það reynst hættulegt hinni kerfisbundnu græðgi og ófullnægju sem er orðin svo skelfileg og útblásin að hún ógnar lífinu á jörðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll séra minn, góð grein hjá þér ég held að það sé farið að renna upp fyrir okkur hver hinn raunverulegi freistari satan er.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 23:10

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þetta er athygliverður og tímabær pistill, Svavar Alfreð.

Kristna kirkjukerfið hefur ekki tíma né hjartarúm, fyrir sannkristinn náungakærleika. Kaup og kjör kirkjunnar eru efst á forgangslistanum.

Ísköld trúarbragða-blekking!

Ekki undarlegt að blessuðu unga fólkinu blöskri þessi falskristni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.3.2014 kl. 23:40

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Getur presturinn eftir þennan fína pistil sinn skýrt fyrir vantrúa manni eins og mér, hvað ásókn í ESB og evrur er annað en græðgi? Hvað vill vel stæð þjóð með minna atvinnuleysi og stærri lífsfyllingu en margar þjóðir ESB með gjaldmiðil þjóða, sem fyrir utan Holland lifa í þeirri skoðun að allt sé betra annars staðar en heima hjá þeim.

Þú vitnar í Erich Fromm: "Erich Fromm lýsir þróun vestrænna hagkerfa þannig, að smám saman hafi hin leiðandi spurning hætt að vera „hvað er gott fyrir manninn?” en í stað hennar hafi komið spurningin „hvað er gott fyrir vöxt og viðgang kerfisins”.  Þessa lífssýn Fromm byggir örugglega á barnalærdómi hans, chassidisma, sem hann nam allt til 26 ára aldurs. Baal Shem Tov upphafsmaður þeirra stefnu gyðingdóms sagði það sama, og hvatti fólk til að fjarlægast græðgina og eigingirnina. Eins og víðar hafa þessi góðu ráð Fromms og Baal Shem Tovs verið virt að vettugi. Aurakallar allra landa lesa aldrei Fromm, og hinir "frómu" chassidar nútímans sýna ekki beint í verki að egóið og græðgi séu löst sem forðast beri.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.3.2014 kl. 09:09

4 identicon

Þetta er umhugsunarverður pistill. 1) markmið fyrirtækja í markaðskeri er hagnaður eða gróði. Þá er átt viðarðsemi til langs tíma en ekki brask og ævintýralapítalisma sem hefur verið stundaður hér á landi. Á árunum fyrir hrun náði þetta hámarki. Það er merkilegt en þeir flokkar sem réðu málum telja sig helstu stuðningsmenn og verjendur Þjóðkirkjunnar. 2)Fromm var sálgreinir og undir miklum áhrifum af Freund og reyndar einnig Marx. Fræg bók hans heitir : Haben oder Sein, eða að eiga eða að vera. Þar er gagnrýni á neysluhyggju og hvernig þarfir eru sífellt búnar til en það er nauðsynlegt fyrir þessa tegund af markaðskerfi. Sjálfstæðismenn hafa sett fram hugmyndafræðilega réttlætingu þessa kerfis af hvað mestum áhuga. Óþarfi að nefna HHG.3) markaðsöflin reyna að gera allar þarfir að neysluvöru.Þannig er heill iðnaður semgerir út á andlegar og trúarlegar þarfir.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 12.3.2014 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband