Ógnin af Jóni og Gunnu

DSC_0105

 

Bráðum eru sex ár liðin frá Hruni.

Nú er staðan þannig að sömu gömlu nöfnin eru í fréttum um helstu fjármálahræringar í landinu. Gömlu fyrirtækin þeirra hafa fengið afskriftir, ný nöfn og nýjar kennitölur. Fjölmiðlarnir eru enn í eigu gömlu athafnamannanna. Lúxusjepparnir þeirra eru komnir út úr bílskúrunum. Fjármálafyrirtækin eru farin að birta gömlu góðu gróðatölurnarLaunin í fjármálageiranum eru að ná gamla góða risinu. Gömlu góðu bónusarnir eru farnir að sjást á ný.

Á meðan þessi þróun á sér stað er á því hamrað að mestu óvinir almennings séu þeir sem gera út skip og báta og engin stétt manna hættulegri þjóðarhag en bændur og landsbyggðarfólk því það er svo áhugalítið um Evrópusambandið.

Áralöng óráðsía og stundum ólögmæt starfsemi í fjármálageirunum var ein ástæða þess að bankakerfi landsins hrundi. Við það hrun misstu margir aleiguna, allt sem þeir áttu í fasteignum sínum.

Nú keppast menn við að telja okkur trú um að helstu hættumerkin í þjóðfélaginu séu ekki fólgin í því að gamla græðgiskerfið sé smám saman að komast á aftur – eftir stjarnfræðileg gjaldþrot og skuldaafskriftir - heldur sé mesta ógnin sú viðleitni og ósvinna að bæta almenningi eignamissi sinn að einhverju leyti.

Eins og alþjóð veit hrundi hér allt vegna þess að Jón og Gunna keyptu sér of marga flatskjái.

Þegar næsta Hrun kemur eftir nokkur ár verður það auðvitað vegna þess að þau Jón og Gunna fengu örlitla lækkun á útbólgnu húsnæðisláni sínu, ef til vill sem nemur tíu prósentum af kaupverði á einum af þeim gerðum lúxusjeppa sem eru farnir að seljast aftur á Íslandi.

Myndina tók ég í Héðinsfirði nú um helgina 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þetta er rétt hjá þér,það er sama sukkið í uppsiglingu. Það er öll merki þess!

Eyjólfur G Svavarsson, 31.3.2014 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband