3.3.2007 | 12:10
Raffaello Sanzio
Málarinn Raffaello (Raphael) fæddist í Urbino árið 1483, í húsi númer 57 við Raffaellostræti. Þar er nú safn og rannsóknarmiðstöð.
Frá 1500 starfaði Raffaello í Flórens. Þá var hann svo frægur að honum var líkt við hinn 48 ára Leonardo da Vinci og 25 ára Michelangelo. Um 1508 fluttist Raffaello til Rómar.
Ofangreindir þrír samtímamenn eru þekktustu málarar ítölsku endurreisnarinnar. Segja má að Raffaello hafi losnað undan samkeppni í málaralist þegar Michelangelo snéri sér að höggmyndum eftir að hafa lokið við sixtínsku kapelluna árið 1512 og Leonardo hélt til Frakklands fjórum árum síðar.
Eftir komu sína til Rómar starfaði Raffaello fyrir Júlíus II. páfa, mikinn bardagamann og stríðsherra, sem enda gekk undir nafninu "il papa terribile" eða "páfinn hræðilegi".
Eftirmaður Júlísar II. var annarrar gerðar. Leó páfi X. vildi að sín yrði minnst sem manns friðarins. Hann var af hinni valdamiklu Mediciætt frá Flórens og hafði sama áhuga á menningu og listum og skyldmenni sín.
Leó gerði Raffaello að byggingarmeistara Péturskirkjunnar sem þá var verið að reisa. Því verki lauk 1626.
Sagt er að Raffaello sé höfundur þeirrar staðalímyndar af englum sem hefur ríkt fram á okkar daga. Englarnir sem hann málaði eru feitir og pattaralegir og minna helst á fljúgandi lifrarpylsukeppi, svo notað sé orðfæri Jóns Björnssonar, pílagríms og rithöfundar.
Raffaello kvæntist ekki en ein kvennanna í lífi hans var þokkadísin Margrét, sem kölluð var La Fornarina, því hún var dóttir bakara (ít. fornaro). Ein gróusaga hermir að Raffaello hafi gengið svo fram af sér í hvílubrögðum við La Fornarina að hann hafi veikst og dáið. Samkvæmt því var banamein málarans kynlíf. "Too much love can kill you," söng Freddie Mercury mörgum öldum síðar.
Raffaello andaðist á föstudaginn langa árið 1520, aðeins 37 ára að aldri. Hvílustaður hans er Pantheon í Róm.
Athugasemdir
Gaman að lesa fróðleikinn þinn Svavar. Fór samt að velta fyrir mér hvort "presturinn í þér" væri að lauma inn boðskap við söguritunina ... :) .. "stillum hvílubrögðum í hóf" og lengjum lífið ,.... eða tengist þetta annars nokkuð fyrra bloggi þínu um bókina á náttborði konunnar, "Kaflar úr skaðabótarétti" humm!?
Hólmgeir Karlsson, 3.3.2007 kl. 12:29
Heill og sæll félagi! Hláturinn lengir lífið og rannsóknir sýna að kynlíf gerir það líka. Presturinn í mér mælir því afdráttarlaust með hlátri og hvílubrögðum. Ástarleikir hlæjandi fólks fara langt með að gera það ódrepandi.
Þó eru dæmi þess að fólk hafi kafnað úr hlátri...
Svavar Alfreð Jónsson, 3.3.2007 kl. 22:18
Gott að heyra að sálin þín hefur sama frelsið og viðhorfin og þegar við vorum að spá í lífið og tilveruna á gömlu teríunni forðum daga. Báðir efalítið eitthvað þroskaðri nú en með "barnið í okkur" heilbrigt með í för. Hafðu það sem allra best.
Hólmgeir Karlsson, 4.3.2007 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.