Fórn á föstu

P1010444 

 

Græðgi mannanna er sennilega ein af mörgum skýringunum á efnahagskreppunni sem varð í okkar heimshluta. Enn hefur ekki tekist að koma böndum á græðgina. Auðæfin halda áfram að safnast á fárra manna hendur. Á meðan fámenn elíta keppist við að koma einhverju af peningunum sínum í lóg í iðrunarlausri sóun deyja börn fátækasta fólksins úr hungri.

 

Fórnin er andstæða græðginnar. Fórnin og gjöfin eru nátengd. Fórn gengur samt nær gefandanum en gjöf. Það er innifalið í fórninni að sá sem hana færir þurfi að neita sér um eitthvað. Hann gefur af sjálfum sér í gjöf sinni.

 

Þannig voru trúarlegar fórnargjafir fyrri tíma hugsaðar. Þú brenndir korni sem hægt hefði verið að nota í brauð eða slátraðir dýri sem hefði getað orðið þér til viðurværis. Hver fórn var sjálfsfórn.

 

Og þannig voru peningarnir líka hugsaðir þegar þeir komu til sögunnar. Þegar þú greiddir öðrum með peningum varst þú að gefa af sjálfum þér. Hver peningur sem þú gafst frá þér var fórn, ákveðið magn af tíma, erfiði eða verðmætum sem verið höfðu í eign þinni. Við hverja greiðslu með peningum neitaðir þú þér um ákveðin lífsgæði og afhentir þau þeim sem greiðsluna fékk.

 

Á tímum hinna trúarlegu fórna var nautið einhver dýrasta fórn sem hægt var að færa. Nautið varð því tákn fórnarinnar og enn má sjá nautstáknið á öllum helstu gjaldmiðlum heimsins. Strikin tvö í merkjum dollarans, pundsins og evrunnar eru nautshorn. Hornin minna á þá hugsun að í peningum séu gæði og verðmæti sem fólk lætur af hendi.

 

Ef til vill færum við betur með peningana okkar ef við gerðum okkur betur grein fyrir því að  hver greiðsla er á vissan hátt fórn?

 

Án  fórnar væri lífið eins og við þekkjum það óhugsandi. Við hefðum aldrei komist af ungbarnsaldri ef við hefðum ekki notið umhyggju fólks sem var tilbúið að fórna einhverju af tíma sínum, kröftum og efnislegum gæðum fyrir okkur.

 

Veröld þar sem andi græðgi og auðsöfnunar nær yfirhöndinni leiðir til hruns.

 

Sá heimur þar sem andi fórnarinnar ræður ríkjum og gjafararnir eru í öndvegi er á hinn bóginn forsmekkur himnaríkis.

 

Myndin: Vorganga í Glerárgljúfri 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Flottur piztill, séra.

Steingrímur Helgason, 9.4.2014 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband