Kveðja til frambjóðenda og kjósenda þeirra

P1010450 

 

Á Ítalíu er talað um kampanílisma. Það er dregið af orðinu campanile sem þýðir klukkuturn. Slík mannvirki eru gjarnan mest áberandi byggingar borga, bæja og þorpa. Kampanílistar eru hugfangnir af heimabæ sínum og líður best svo lengi sem þeir sjá klukkuturninn sinn.

 

Átthagahyggja getur verið neikvæð. Henni fylgir gjarnan þröngsýni, hroki og fordómar í garð þeirrar tegundar manna sem nefnast aðkomumenn eða forestiero á ítölsku.

 

Þó er alls ekki bara neikvætt að þykja vænt um bæinn sinn og sakna kirkjuturnanna þegar fjarskinn hefur gleypt þá.

 

Heimurinn verður sífellt minni og örlög íbúa hans samtvinnaðri. Engu að síður eigum við enn mest undir nærumhverfinu. Til að okkur farnist vel þarf það að vera þannig úr garði gert að helstu þörfum okkar sé sinnt þar. Í sveitarfélaginu okkar viljum við hafa öll skilyrði til að geta lifað mannsæmandi lífi með reisn. Við viljum líka geta haft áhrif á það til að tryggja að samfélagið sé að okkar óskum.

 

Þessvegna eru fáar kosningar þýðingarmeiri en sveitarstjórnarkosningar. Það skiptir máli hvernig heimabyggð okkar er stjórnað. Akureyri á sér allnokkra sögu þar sem reynt hefur verið að þróa samfélagið þannig að það sé fært um að sinna þörfum íbúanna. Sú saga heldur áfram og nú liggur fyrir að rita næstu kafla hennar.

 

Í komandi bæjarstjórnarkosningunum er um marga lista að velja. Þeir eru allir skipaðir sveitungum okkar sem bjóða fram krafta sína í þágu okkar íbúanna. Frambjóðendurna greinir á um margt en eitt af því sem sameinar þá er viljinn til að verða sveitarfélaginu að gagni og borgurunum til blessunar.

 

Að sjálfsögðu þurfa þeir aðhald sem völd hafa. Lýðræðið þrífst ekki án þess að fólk skiptist á skoðunum. Hin þjóðfélagslega umræða getur orðið óvægin. Þegar fólki er mikið niðri fyrir er ef til vill skiljanlegt að hún sé stundum án yfirvegunar. Það er samt hvorki lýðræðinu né tjáningarfrelsinu til framdráttar ef umræðumenningin er svo ruddaleg og persónuleg að fólk veigrar sér við að kveðja sér hljóðs eða taka þátt í stjórnmálum.

 

Ég dáist að þeim sem nú bjóða sig fram til starfa fyrir borgarana í sveitarfélaginu Akureyri. Ekki er ég endilega alltaf sammála þeim öllum en efast ekki um heilindi frambjóðendanna og vilja þeirra til að gera samfélagið betra.

 

Það er okkur íbúunum mikilvægt að vandaðar manneskjur veljist til forystu fyrir sveitarfélagið, fólk sem elskar þorpið sitt, eyjuna sína og bæinn sinn og vill halda áfram að þróa samfélagið þannig að þar sé þörfum borgaranna sinnt.

 

Við skulum endilega takast á um málefni og leiðir en höfum andrúmsloftið þannig að velviljuðu fólki finnist eftirsóknarvert að taka að sér þjónustustarf bæjarfulltrúans.

 

(Birtist í Akureyri vikublaði 9. 5. 2014)

Myndin er af bæjarstjóraefni andapollsins á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef allir stjórnmálmenn hefðu heiðarleika og flekkleysi bæjarstjórefnis andapollsins þá værum við í góðum málum.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband