Þjónusta við ferðafólk í Akureyrarkirkju

DSC_0439 

Akureyrarkirkja er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Akureyri. Kirkjan blasir við farþegum skemmtiferðaskipa þegar þau sigla inn á pollinn þar sem hún gnæfir yfir miðbænum með sína tvo turna. Húsið sjálft er listaverk utan sem innan og fagurt dæmi um byggingarlist höfundarins, Guðjóns Samúelssonar. Staðsetning kirkjunnar er ekki síður listræn en byggingin enda vann arkitekt hennar mikið að skipulagsmálum.

Listgildi Akureyrarkirkju einskorðast því ekki við kirkjuhúsið sjálft, heldur er samspil þess við staðhætti, skipulag og bæjarmynd, sem og kirkjutröppurnar, hin hugvitsamlega tenging þess við hjarta miðbæjarins, órofa hluti af sköpunarverki Guðjóns Samúelssonar,

skrifar Pétur H. Ármannsson, arkitekt, í  Kirkjur Ísland (10. Bindi, Reykjavík 2007, bls 29).

Akureyrarkirkja er sennilega frægasta byggingin í höfuðstað Norðurlands og hefur lengi þjónað sem tákn bæjarins.

Mörg undanfarin ár hefur verið ráðin manneskja yfir sumartímann til að annast móttöku ferðafólks í kirkjunni. Síðustu sumur hefur sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir verið í því starfi. Hún er fyrrverandi prestur við Akureyrarkirkju, þekkir vel til sögu hennar og þess starfs sem þar er unnið auk þess sem hún hefur langa reynslu af að starfa við leiðsögn ferðafólks bæði hér á landi og erlendis. Um leið og sr. Jóna Lísa var ráðin var ákveðið að hafa kirkjuna opna lengur fram á kvöldin.

Ferðamannapresturinn sér um að taka á móti ferðamönnunum, veitir fræðslu um kirkjuna og svarar fyrirspurnum. Auk þess er presturinn til viðtals því stundum hafa þessir gestir bæjarins fengið vondar fréttir að heiman eða finna hjá sér þörf til að spjalla þegar gengið er inn í kyrrð helgidómsins. Ferðamannapresturinn sér líka um helgihald fyrir þau sem þess óska.

Upphaflega var þetta starf tilraunaverkefni í samstarfi Biskupsstofu, Eyjafjarðarprófastsdæmis og Akureyrarsóknar. Þegar tilrauninni lauk leitaði söfnuðurinn til fyrirtækja og stofnana á Akureyri sem tengjast ferðaþjónustu um að styrkja starfið fjárhagslega. Héraðssjóður Eyjafjarðarprófastsdæmis leggur líka sitt af mörkum. Þannig hefur það verið fjármagnað síðustu árin enda ánægja með þessa þjónustu. Samstarfsaðilar kirkjunnar við þetta verkefni hafa allir hag af því að vel sé tekið á móti ferðafólki á þessum vinsæla viðkomustað.

Þó að ferðamenn heimsæki kirkjuna árlega í tugþúsundatali og þeim fjölgi ár frá ári er aðstaðan til að taka á móti þeim þar ekki góð. Til dæmis er aðeins eitt salerni í kirkjunni. Akureyrarkirkja er afar vinsæl til kirkjulegra athafna og þau sem lagt hafa á sig göngu upp tröppurnar til að skoða kirkjuna þurfa stundum að bíða úti drykklanga stund áður en þau komast inn.

Þegar talað er um að efla Akureyri sem ferðamannabæ þarf ekki síður að bæta það sem þegar er til staðar en að búa til eitthvað nýtt. Aðstaða ferðafólks við Akureyrarkirkju er eitt af því sem nauðsynlegt er að bæta. Fjölga þarf snyrtingum við kirkjuna og koma upp einhverju húsaskjóli fyrir ferðamennina, t. d. litlu kaffihúsi. Ennfremur mætti auka enn starfið í kirkjunni í þágu þessara gesta okkar. Lengi hafa Sumartónleikar verið á dagskrá í Akureyrarkirkju en fram hafa komið hugmyndir um að fjölga tónleikunum enda er góður hljómburður í kirkjunni og prýðileg hljóðfæri.

Síðast en ekki síst - og fyrst og fremst - er kirkjan þó helgidómur. Þar á að bjóða upp á helgihald og kyrrðarstundir sem höfða til fólks með ólíkan trúar- og menningarlegan bakgrunn.  

Fyrir nokkrum árum heyrði ég ferðasögu akureyskra hjóna sem voru á ferðalagi um Asíu. Einn viðkomustaðurinn var búddískur helgidómur. Þar var fyrir brosandi búddamunkur sem bauð Akureyringunum blessun og volga geitamjólk að drekka. Ekki voru þau áfjáð í mjólkina en blessunina þáðu þau með þökkum. Þessi heimsókn var einn af hápunktum ferðarinnar. Ég veit ekki hvort hún hafi valdið einhverjum trúarlegum straumhvörfum, vafalítið hefur hún verið andlega gefandi en ég er nokkuð viss um að innlitið í þennan helgidóm og stutt kynni af munkinum glaða hafa aukið skilning hjónanna á framandi trúarbrögðum og menningu landsins sem þau voru að ferðast um.

Þjónustan við ferðafólk í Akureyrarkirkju er ekki einkamál kirkjunnar. Það skiptir öllu máli fyrir ferðamannabæinn Akureyri að gestir hans fái góða þjónustu, hafi góða upplifun af að heimsækja viðkomustaði í bænum og haldi síðan heim með góðar minningar. Þess vegna er þjónusta við ferðafólk í Akureyrarkirkju mál sem samfélagið allt ætti að láta sér annt um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband