Heilög Klara

Heilög KlaraAð undanförnu hef ég skrifað töluvert um helga menn, sem af ýmsum ástæðum hafa gerst nærgöngulir við mig. Ekki er hægt að segja skilið við Assisi, borgina sem við Akureyringar heimsækjum í sumar ef Guð lofar, án þess að minnast á heilaga Klöru. Hún var náinn samstarfsmaður heilags Frans og gekk til liðs við hann árið 1212, aðeins átján ára að aldri. Frans bauð Klöru og fylgikonum hennar lítið hús við hlið San Damiano kirkjunnar í Assisi. Árið 1215 varð Klara abbadís þar, í reglu þar sem nunnurnar höguðu lífi sínu í anda Frans.

Regla Klöru breiddist út um Evrópu en sjálf yfirgaf hún aldrei klaustur sitt í Assisi. Var hún meðal helgustu kvenna á miðöldum. Köllun hennar var fyrst og fremst sú að þjóna samfélagi sínu og lagði hún ýmislegt á sig fyrir borg sína. Tvisvar sat her Friðriks keisara II. um Assisi. Klara var þá borin upp á borgarmúrinn og hafði hún meðferðis skrín með helguðu brauði og víni. Nægði það til að stökkva óvinunum á flótta.

Klara var tekin í tölu helgra manna aðeins tveimur árum eftir dauða sinn. Hátíð hennar er 11. ágúst. Hún er verndardýrlingur sjónvarps og síma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæll Svavar.
Það hríslaðist um mig sælutilfinning við að lesa skrifin þín um mátt og eðli auglýsinga. Sú var tíðin að ekki þurfti að auglýsa vöru, aðeins að tilkynna að hún væri til, því Þá þörfnuðumst við þess sem bættist við og það jók lífsgæði okkar. Í okkar tilveru í dag höfum við allt sem við þörfnumst og í raun miklu meira en það og oft á tíðum verður svo mikil ofgnóft af öllu að við tínum og gleymum því sem við höfum og þörfnums mest; ástar, kærleika þess að vera við sjálf.

Auglýsingar og markaðssetning nútímans snúast um að skapa lífstíl og þörf sem ekki er til staðar. Tilfinningu, hughrif, aðstæður sem við verðum að vera þátttakendur í. Hef sjálfur fengist við þetta, að hanna vörur og skapa þeim ímynd og gera þær hluta af lífi sem við þráum. En trúr sannfæringu minni á heiðarleika og það góða hef ég einungis unnið með vörur sem eru okkur "góðar" og tel mig því lánsaman (nefni hér bara KEA-skyrið mitt). Ég segi hér eins og ég hef alla tíð sagt við sjálfan mig, ekkert skal fá mig til að vinna á sama hátt með vörur sem eru í algjörri andstöðu við þá ímynd sem þeim er sköpuð. Gæti t.d. aldrei unnið með gosdrykki, sælgæti eða áfengi á sama hátt so eitthvað sé nefnt.

Vona að þú fyrirgefir mér, guðslambinu, hve löng þessi færsla verður því nú er ég fyrst að koma að því sem mig langar að segja. Það vildi ég óska að einhver ætti þá peninga aflögu sem setja mætti í að auglýsa og markaðssetja þá "vöru" sem við öll þráum hvað mest og öll höfum og eigum, "kærleika og ást" útí lífið og samferðamenn okkar. Vöruna sem kostar ekkert og verður hvorki seld né keypt. Ég minnist þess einnig nú frá bernsku minni að engum tókst að selja mér guð með því að draga mig til kirkju því þá átti ég hann þegar og hann mig. Mér fannst það mikill óþarfi, því þá var ég þess fullviss að hann væri með mér heima meðan aðrir færu til kirkju og gleddist með mér meðan ég nýtti timann til að leika mér og "spekúlera" um lífið og tilveruna. En þegar ég svo gekk til prests fyrir ferminguna var ég, eins og svo oft gerist, með meiri efasemdir því þá var svo margt annað að trufla hugann. Þá sagði ég við prestinn minn nokkuð sem ég held að hafi verið ansi gott og eigi við í dag einnig. "það þarf að markaðssetja Guð öðruvísi" svo við skiljum hann, skrifa nýja biblíu á okkar máli, með dæmisögum úr okkar lífi en ekki lífi forfeðranna. Hvar er Guð og kærleikurinn í okkar raunveruleika? Ég veit hvar hann er því ég er ekkert unglamb lengur eða á neðsta þrepi reynslusöfnunar þessa lífs. En hvernig birtist Guð okkur í dag? eða postularnir, blogga þeir? senda þeir hóp sms til að vekja okkur?

Finnum okkur góðan fjárfesti sem er tilbúinn að fjárfesta í lífshamingjunni og ég skal plana herferðina og þú "broadkastar" henni.
Ljúfar kveðjur á bloggið þitt  

Hólmgeir Karlsson, 10.3.2007 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband