Út á land með latteið!

DSC_0174 

Að mörgu leyti hefur okkur Íslendingum auðnast að byggja upp gott samfélag sem við ættum að vera þakklát fyrir - sé mark takandi á niðurstöðum erlendra stofnana og sérfræðinga.

Hér er örlítil samantekt á alþjóðlegum samanburði þar sem Ísland kemur vel út.

Ísland telst til dæmis friðsælasta land í heimi, þriðja besta landið að búa í, einnig þriðja besta landið sé litið til stöðu lýðræðis, hvergi er atvinnuþátttaka kvenna meiri en á Íslandi, landið er í fyrsta sæti þegar mat er lagt á jafnrétti kynjanna, Íslendingar eru næsthamingjusamasta þjóð í heimi, Ísland er í fimmta sæti á lista yfir lönd með heilbrigðustu lífsgæðin, í sjötta sæti landa þar sem frelsi fjölmiðla er talið mest, í þriðja sæti evrópskra landa í mælingu á árangi af heilbrigðisstefnu, á Íslandi er minnsti ungbarnadauði í Evrópu, hvergi í Evrópu lifa karlar lengur en á Íslandi, íslenskar konur eru þar í sjötta sæti og samkvæmt einni mælingunni er Ísland áttunda stöðugasta ríki heims þrátt fyrir óblíð náttúruöfl og miklar sveiflur í tíðarfari og sjávarafla.

En þó að margt sé til fyrirmyndar á Íslandi er þar líka margt sem betur mætti fara.

Við erum til dæmis voðalega fá og því fylgja ýmsar hættur. Nýlega skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, litla grein um það.

Þannig hefjast þau skrif:

Mér hefur stundum dottið í hug að kannski séum við Íslendingar of fáir og smáir til að geta haldið uppi samfélagi, þar sem stofnanir standa undir nafni og gegna því hlutverki sem við ætlum þeim. Smæðin hefur meðal annars þau áhrif að þeir sem starfa við þessar þjóðfélagsstofnanir eiga svo marga vini og kunningja að þess sér merki í afstöðu til verka þeirra.

Hér á landi er þessi vandi fámennis og nálægðar magnaður enn frekar upp með því að valdinu er nánast öllu hrúgað á einn stað. Stjórnsýslan er á einum bletti eyjunnar, fjölmiðlar á landsvísu á sömu sárafáu ferkílómetrunum, helstu listastofnanir landsins líka og höfuðstöðvar langflestra stórfyrirtækja.

Þar þekkjast menn þvers og kruss, voru skólabræður og vinir, fara saman í ferðalög og hittast um helgar til að gera sér glaðan dag,

skrifar Jón Steinar í greininni. 

Þjóðverjar hafa sína höfuðborg í Berlín. Í Frankfurt eru svo margar mikilvægar fjármálastofnanir að hún er gjarnan nefnd fjármálahöfuðborg Þýskalands. Hæstiréttur Þýskalands er með aðsetur í Karlsruhe. Eldri ríkisrekna sjónvarpsstöð Þjóðverja er með öfluga starfsemi í öllum landshlutum en hefur lögheimili í Bæjaralandi. Yngri ríkisrekna sjónvarpsstöðin er með höfuðstöðvar sínar í Mainz. Aðrir einkareknir fjölmiðlar hafa aðalstöðvar í góðri dreifingu um landið og sama máli gildir um helstu fyrirtækin.

Þjóðverjar eru stórþjóð en þar í landi sýnist manni miklu meira tillit tekið til þeirrar hættu sem fylgir samþjöppun valds en á litla Íslandi þar sem nánast öllu er troðið í eitt póstnúmer, valdastéttirnar skála á sömu fáu knæpunum og embættismennirnir lepja sitt víðfræga latte úr sama bollastellinu á kaffihúsum miðborgarinnar.

Myndin er frá Vestmannsvatni í Aðaldal. Þar er oftast dásamlega fámennt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

heyr...heyr!!...Utanríkisráðuneytið að Vestmannsvatni!!

magnús (IP-tala skráð) 25.8.2014 kl. 11:36

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Alla vega virðast margir halda að valkostirnir séu bara tveir, Reykjavík eða Vestmannsvatn.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.8.2014 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband